Thorvald Stoltenberg, minning

Framundan var utanríkisráðherrafundur Norðurlanda. Á flugvellinum rakst ég á bók með forvitnilegum titli: Norge – een-parti staat. Ég renndi í gegnum þetta í flugvélinni.

Þegar ég kom á skrifstofu Thorvalds í utanríkisráðuneytinu í Osló, fleygði ég bókinni á borðið hjá honum og sagði: „Nú veit ég allt um ykkur“. Thorvald fletti bókinni lauslega, brosti sínu blíðasta og sagði síðan: „Viltu heldur búa við einræði þeirra?“

Við höfðum ekki tíma til að fara ofan í saumana á málinu þá, en svar Thorvalds sat eftir í huga mér. Eftir því sem tíminn líður, verður mér æ oftar hugsað til þessara orðaskipta og veruleikans, sem að baki býr. Enginn véfengir, að vald fjármagnseigenda, atvinnurekenda, stjórnenda stórfyrirtækja – þeirra sem ráða kapitalinu – er mikið. Þeirra er valdið til að ráða og reka.

Það sem Thorvald meinti er þetta: Ef fármagnið nær líka undir sig pólitíska valdinu, verða fjármagnseigendur í reynd einráðir. Þótt þetta gerist í birtingarmynd lýðræðis, er það í reynd einræði. Þarna förum við að nálgast kjarna málsins. Hið sósíaldemókratiska velferðarríki Norðurlanda – norræna módelið – varð til vegna þess, að samtök launafólks – ekki fjármagnseigenda – og hinn pólitíski armur þeirra, jafnaðarmannaflokkarnir, réðu ferðinni. Þeir settu leikreglurnar. Þeir mótuðu skattakerfið. Þeir tryggðu almenningi aðgang að menntun og heilsugæslu, án tillits til efnahags. Þannig efldu þeir frelsi einstaklingsins í verki.

Ólíkt kommúnistum, virkjuðu þeir framtak einstaklinga, en tryggðu um leið, að þjóðararðinum væri réttlátlega skipt; að engir yrðu skildir eftir útundan. Þetta er ekki einræði. Þetta er lýðræði í reynd. Staðreyndirnar tala sínu máli um árangurinn. Norræna módelið er nú orðið viðurkennt um veröld víða sem eftirsóknarverðasta samfélagsgerð samtímans.

Thorvald var snemma í innsta hring þeirrar fjöldahreyfingar jafnaðarmanna, sem á undanförnum áratugum hafa skapað fyrirmyndarþjóðfélagið norska. Í þeim hópi var mikið mannval: Ég nefni bara Gerhardsen, Bratteli, Gro Harlem, Thorvald sjálfan og son hans, Jens. Ég sleppi mörgum nöfnum, sem eiga heima í þessum hópi, en þau hafa látið verkin tala.

Norðmenn eru ekki bara einhver auðugasta þjóð í heimi. Þeir eru sú þjóð, þar sem þjóðarauðnum er skipt, ekki samkvæmt hlutaskiptareglum markaðarins heldur mannúðarinnar. Olíuauðurinn var vissulega mikil búbót frá og með 8nda áratugnum. En svarta gullið hefur reynst flestum öðrum þjóðum, sem uppgötva það í iðrum jarðar, upphaf ófarnaðar. Auðurinn hefur lent í ræningjahöndum, um leið og almenningur lepur dauðann úr skel.

Til þess eru vítin að varast þau. Norðmenn framseldu ekki þjóðarauðinn í hendur alþjóðlegra auðhringa og innlendra þjóna þeirra. Þeir náu sjálfir tökum á tilskilinni tæknikunnáttu og þekkingu. Þeir tryggðu frá upphafi, að þjóðin fékk sinn réttmæta arð af auðlindum sínum, bæði olíuauðlindinni og fiskimiðunum í norskri lögsögu. Þeir sem fá réttinn til að nýta þjóðarauðlindir, eru krafðir um samfélagslega ábyrgð.

Í Noregi þrífst engin forréttindastétt kvótagreifa í skjóli pólitísks valds. Þess vegna stendur velferðarríkið norska traustum fótum. Sem og lýðræðið. Vegna þess að fjármagnseigendur og fulltrúar þeirra gátu ekki sölsað undir sig pólitíska valdið líka.

Thorvald var hugsjónamaður. Hann var húmanisti, jafnt í orði sem verki. Hann var mannasættir, sem kom á friði, þar sem aðrir fóru með ofbeldi. Hann var jafnaðarmaður, sem gleymdi því aldrei, að hreyfing okkar er alþjóðleg. Við eigum öll mannanna börn að njóta sömu mannréttinda, án tillits til þjóðernis, kynferðis, litarháttar eða trúarhefða. Og hann lét ekki sitja við orðin tóm. Hann lét verkin tala sem yfirmaður Flóttamannastofnunar SÞ, sáttasemjari í Balkanstríðunum og utanríkisráðherra Noregs, sem hafði frumkvæði að friðarumleitunum í hverri millirikjadeilunni á fætur annarri.

Í hans huga byrja umbætur heima. Þess vegna vildi hann dýpka norræna samvinnu, m.a. með því að sameina utanríkisþjónustu Norðarlandaþjóða í áföngum. Það var of stór biti fyrir aðra að kingja að sinni. Kemur kannski seinna.

Fyrst og síðast var Thorvald hrífandi persónuleiki. Hann var góðviljaður, en glettinn. Hann var framtakssamur, en kunni vel að njóta lífsins á góðum stundum. Hann var umbótamaður, en gerði sér fulla grein fyrir breyskleika mannlegs eðlis. Það voru forréttindi að eiga hann að vini.

Við Bryndís minnumst hans með væntumþykju og virðingu og sendum fjölskyldu hans og aðstandendum hlýjar samúðarkveðjur.