Þetta var kvöldið sem Ísland datt út úr keppni. Og líka kvöldið, sem nágranni minn gaf mér blómstrandi kaktusafleggjara í sárabætur. Ég hafði aldrei séð blómstrandi kaktus fyrr. Stakk eins og naðra við minnstu snertingu, en í toppinn bar hann rauð blóm, ofurmjúk viðkomu. Nágranninn sagði við mig: Íslendingar eru eins og kaktusinn – harðgerðir, ódrepandi – en blómstra samt. Það síðasta sem ég gerði, áður en við kvöddum húsið okkar að þessu sinni, var að setja afleggjarann í moldarpott á þakinu. Nú er að vita, hvort hann lifir sumarið af.
Farmiðarnir okkar voru komnir í skúffu í svefnherberginu strax í lok maí. Svo að í heilan mánuð gat ég slakað á og leyft mér þann munað að hlakka til ferðarinnar, láta mig dreyma. Það er að segja hlakka til – og kvíða fyrir. Ferðin framundan var bæði löng og ströng. Við ætluðum að ferðast yfir þveran hnöttinn, eða alla leið til Kína, með viðkomu í Istanbul! Og síðan ætluðum við að fara landleiðina til baka, stíga um borð í Síberíuhraðlestina og hafa viðkomu í Moskvu og Berlín. – Þegar við spurðum Carlos á einu ferðaskrifstofunni í Salobrena, hvort ekki væri best að fljúga með Finnair frá Helsinki, hristi hann bara höfuðið, eins og Finnair væri ekki til – aldrei heyrt það nefnt – og ákvað, að við flygjum með Turkish Airlines – þeir væru bestir!
Svo að núna, tveimur dögum eftir þennan leik á torginu í Salobrena vorum við stödd á flugvellinum í Istanbul og áttum fyrir höndum sjö tíma bið. Þetta var einmitt kvöldið sem Englendingar töpuðu fyrir Belgum og framlengdu þar með dauðastríð sitt um einhverja daga. Barinn var fullur af fólki. Við þóttumst heppin að finna sæti.
Sjá nánar með því að smella hér: Fyrri hluti frásagnar og seinni hluti frásagnar