Vörn fyrir æru

„Ég þekki ekki föður minn í þeirri mynd, sem fjölmiðlar draga upp af honum: refur, óheiðarlegur, hrokagikkur… Akkúrat það sem hann er ekki. Hann er hlýr, skilningsríkur…fyrir nú utan hvað hann er gáfaður og skemmtilegur…….má hann ekki einhvers staðar njóta sammælis?“ (Aldís Baldvinsdóttir, í viðtali við Kristján Þorvaldsson í tímaritinu Mannlífi, febrúar 1995)

Þann 21. febrúar, n.k. stóð til að fagna áttræðisafmæli mínu í góðra vina hópi. Gamlir samherjar vildu beita sér fyrir útgáfu afmælisrits um arfleifð jafnaðarstefnunnar og erindi hennar við komandi kynslóðir. Einnig var áformað að efna til málþings með þátttöku erlendra stjórnmála- og fræðimanna um sama efni. Ritnefndarmenn leituðu til vina og velunnara – en einnig pólitiskra andstæðinga – eftir fyrirframáskrift, sem staðfest væri á heillaóskaskrá, eins og algengt er við áþekk tækifæri.

Þetta var komið vel á veg. En þegar fór að kvisast út um þessi áform, þóttust aðstandendur verksins verða verða varir við draugagang, sem erfitt var að henda reiður á. Menn fóru að mælast undan því, að nöfn þeirra birtust á heillaóskaskrá, þótt þeir lýstu áhuga á bókinni og vildu gjarnan kaupa hana. Sumir, sem höfðu þegar skráð sig, báðu um, að nöfn þeirra yrðu dregin til baka.

Hvað var á seyði? Smám saman kom í ljós, að það var skipulögð herferð í gangi, rógsherferð gegn höfundinum með það að markmiði að koma í veg fyrir fyrirhugað málþing og útgáfu bókar. Þemað var, að Jón Baldvin væri kynferðisbrotamaður, sem heiðarlegt fólk gæti ekki látið bendla sig við. Seint og um síðir komu aðstandendur rógsherferðarinnar upp á yfirborðið. Þeir völdu sér vettvang við hæfi. Stundin byrjaði vitnaleiðslur. Aðrir fjölmiðlar, sem og samfélagsmiðlar, slógust með í för. Meira að segja Ríkisútvarpið lét ekki sitt eftir liggja. Loks loguðu allir fjölmiðlar í groddalegum frásögnum, sem áttu að spanna hálfa öld, og lýstu siðlausu dusilmenni, sem þjóðfélagið hafði slysast til að hampa til æðstu metorða, án vitneskju um, hvern mann hann hefði að geyma. Allt var þetta á sömu bókina lært, án athugasemda og án andmæla. Nú væri kominn tími til að afhjúpa fólið. Hér eftir skyldi hann vera óalandi og óferjandi í íslensku samfélagi; einangraður, útskúfaður og þar með hættulaus samborgurum sínum.

Fjölmiðlafár

Áætluninn var vel undirbúin. Fjölmiðlarnir spiluðu með eins og til var ætlast. Og árangurinn lét ekki á sér standa. Málþingið var blásið af. Útgáfu var frestað um óákveðinn tíma. Og heillaóskaskránni var hent í ruslafötuna. Þetta er orðið að skólabókardæmi um vel heppnaða PR-herferð, eða aðför að æru manns – allt efir því, hvernig á þetta er litið.

„Já, en það hlýtur að vera eitthvað hæft í þessu, fyrst svona margar konur segja það“. Þetta eru algeng – og skiljanleg – viðbrögð almennings, sem verður að vitni að fjölmiðlafárinu, sem braust út. Á næstunni mun koma út bók, sem svarar lið fyrir lið öllum þeim ásökunum, sem fram hafa verið bornar af nafngreindum persónum. Þar verður byggt á fyrirliggjandi gögnum og staðreyndum, sem af einhverjum ástæðum hafa týnst í öllu moldviðrinu, sem þyrlað hefur verið upp. Í því sem hér fer á eftir verður aðeins stiklað á stóru:

(1) Aðeins einu kærumáli gegn mér hefur verið beint til lögreglu og saksóknara. Það var rannsakað með yfirheyrslum og vitnaleiðslum og vísað frá. Málið er að fullu upplýst (sjá www.jbh.is). Allar hinar kærurnar eru bara í blöðunum.

(2) Já, en hann er samt sekur, af því að hann er svo valdamikill, að dómsmálaráðuneytið, lögreglan, dómstólar og m.a.s. læknar á Landsspítalanum hlýða skipunum hans. Dóttir hans segir, að hann hafi sigað lögreglunni á sig til að nauðungarvista sig á geðdeild, þar sem læknar hafi greint hana geðveika að ósekju, og dómstólar lagt blessun sína yfir valdbeitinguna. Ef trúa má fjölmiðlum – m.a.s. sjálfu Ríkisútvarpinu – þá er misbeiting valds á Íslandi jafnvel verri en í Saudi-Arabíu eða Rússlandi Pútins. – Trúir einhver með fullu viti þessu bulli?

Órar

(3) Á þessu er bara ein skýring. Elsta dóttir mín hefur lengi átt við að stríða alvarleg geðræn veikindi. Hún hefur verið greind með geðhvarfasýki. Á tímabili var hún ýmist inni á eða úti frá geðdeild í maníuköstum. Þar hefur hún notið læknismeðferðar með það að markmiði að hjálpa henni til að ná aftur fótfestu í lífinu. Þetta er einkamál. Þetta er fjölskylduharmleikur, sem vissulega hefur fyrst og fremst skaðað sjúklinginn sjálfan, en líka nánustu fjölskyldu og aðstandendur, sem í þessu tilviki, eins og svo mörgum öðrum, hafa orðið skótspónn haturs og hefnigirni. Ég á ekki að þurfa að bera þessi einkamál á torg. En óvandaðir fjölmiðlar hafa ekki skirrst við að velta sér upp úr óhamingju okkar með svívirðilegum hætti. Ég á engra annarra kosta völ en að segja sannleikann, þótt öðrum komi þetta mál ekki við.

(4) Eitt af mörgum sjúkdómseinkennum geðhvarfasýki er stjórnlaus þráhyggja um kynlíf. Dóttir mín hefur í maníuköstum sakað mig um kynmök, eða kynverðislega áreitni, við eftirtaldar konur í okkar fjölskyldu:

Tengdamóður mína (ömmu hennar); sjálfa sig og dóttur sína; dætur mínar – systur hennar; systur Bryndísar, systurdóttur Bryndísar. Við þetta hafa svo bæst vinkonur hennar, en sú sakaskrá hefur verið breytileg eftir árstíðum. Eini maðurinn sem hún hefur kært formlega fyrir kynferðislega áreitni, þá gagnvart dóttur sinni, var móðurbróðir hennar, sem var svo vinsamlegur að annast dóttur hennar um skeið, meðan móðirin var vistuð á sjúkrastofnun. Það mál var rannsakað af þar til bærum yfirvöldum og úrskurðað tilhæfulaust.

Auðvitað er sjúklingnum ekki sjálfrátt. Auðvitað eru þetta órar, sem kvikna í sjúku hugarfari. Auðvitað á ég ekki að þurfa að skýra frá þessu opinberlega. Auðvitað eiga fjölmiðlar ekki, að óathuguðu máli, að birta athugasemdalaust sögur hinnar sjúku, sem þjónar þeim tilgangi einum að ræna foreldra hennar ærunni.

Sögur og sviðsetning

(5) „Já, en samt, eru ekki nafngreindar konur að vitna um, að þú hafir áreitt þær?

Jú, en allar þær sögur – fyrir utan eina – voru á ákæruskjali, sem Aldís dóttir mín fékk birt í DV árið 2013 og lagði síðan inn sem formlega kæru til lögreglu. Viðbrögð lögreglu voru skiljanlega þau, að hún gæti ekki rannsakað sögur frá ónafngreindum persónum. Lái henni hver sem vill. Hvernig á ég að geta það? Gætir þú það? En, mikið rétt, nú hafa þær komið fram undir nafni. Sögum þeirra er svarað í væntanlegri bók. Hér læt ég mér nægja að segja eftirfarandi:

Nýjasta sagan er með ólíkindum af undirferli og óheiðarleika. Stúlka, sem ég þekki hvorki haus né sporð á, smyglar sér inn á heimili okkar Bryndísar, í fylgd móður sinnar, sem hafði sérstaklega ræktað vinskap við okkur. Hún fékk gistingu og góðan beina. Það er varla fyrr sest að veisluborði en húsbóndinn, sem hafði verið upptekinn við að elda mat og bera á borð, var sakaður um áreitni. Þarna voru fleiri gestir. Tvær fullorðnar konur, sem viðstaddar voru við borðhaldið, hafa vottað það, að þetta er tilbúningur – helber lygi. Konurnar votta, að „þetta gæti ekki hafa farið fram hjá þeim“. M.ö.o. þetta var fyrirfram undirbúin sviðsetning.

Svo þurfum við að fara fimmtíu og sex ár aftur í tímann í Hagaskóla. Kona, sem segist hafa verið nemandi minn, ber mér ekki vel söguna. Og bekkjarsystir vitnar með. Þar sem ég kannast við hvoruga (fólk breytist að vísu á skemmri tíma en hálfri öld), spurðist ég fyrir um, hvort ég hefði kennt í umræddri bekkjardeild. Samkennarar mínir fullyrða – en eftir minni, rétt eins og ég – að svo hafi ekki verið. Skólinn á engin gögn. Skjalasafn Reykjavíkur hefur leitað dyrum og dyngjum. Þar er að finna fullt af gögnum um, hvar, hvenær og hverjum ég kenndi. Engin gögn fyrirfinnast um, að ég hafi kennt umræddum bekk. Meðan svo er, hef ég ekki meira um það að segja. Tvær af þessum sögum leiði ég hjá mér að sinni, en geri þeim viðeigandi skil í bókinni.

Loks er klikkt út með skrumskældri frásögn af dimission við Menntaskólann á Ísafirði 1979, þar sem ég kvaddi nemendur mína eftir brautryðjandastarf í áratug. Öllum sem ég hef rætt við, kennurum og nemendum, ber saman um, að ekki sé mark takandi á söguburðinum um það sem þar gerðist. Það sé skrumskæling. Hneykslið á að vera, að strákar stungu sér naktir í laug (höfðu ekki skýlu meðferðis), áður en stelpur komu á vettvang, en fengu skýlur til að hylja nekt sína eftir það. Hvilíkt hneyksli. Eiga ærsl á dimission, sem hér er lýst, að flokkast undir kynferðislega áreitni? Við könnumst ekki við það fyrir vestan. Þetta var að vísu 40 árum áður en Seðlabankinn gerði sig að viðundri með því að fjarlægja listaverk, sem sýna nekt, úr almannarými, og læsa inni í járnbentum geymslum, sem eiga að geyma gullforða ríkisins.

(6) Ég bið lesendur að virða mér það til vorkunnar, að ég get ekki – frekar en lögreglan – svarað nafnlausum gróusögum í fjölmiðlum.

Ég gat þess í upphafi, að markmið þessarar skipulögðu fjölmiðlaherferðar hefði að þessu sinni verið að koma í veg fyrir útgáfu bókar í tilefni af áttræðisafmæli mínu og málþing um erindisbréf jafnaðarmanna á nýrri öld. Einnig að hræða karla og konur frá því, hvort heldur væri að kaupa bókina, eða að samfagna höfundinum. Þetta tókst. Málþingið var blásið af og útgáfu bókarinnar frestað um óákveðinn tíma. Dóttir mín – og vinkonur hennar í bænahópnum – geta því samglaðst yfir árangrinum. Í staðinn kemur út á næstunni önnur bók undir heitinu : „Vörn fyrir æru – hvernig fámennur hópur öfgafeminista hefur sagt réttarríkinu stríð á hendur“.

Án réttarríkis – ekkert Lýðræði

Umhugsunarefnið vegna þessa máls fyrir aðra – sem ekki eru í bænahópnum – er þetta: Geðveik kona, sem á langa sjúkrasögu að baki, og beinir hatri sínu og hefnigirni – eins og algengt er í sambærilegum tilvikum – gegn fjölskyldu sinni, fær fjölmiðla í lið með sér til að ræna fjölskylduna æru og sóma. Ég hef að vísu verið kærður einu sinni, en þeim kærum var vísað frá í réttarkerfinu. En er ég samt sagður sekur? Af hverju? Af því að ég er sagður svo valdamikill, að dómstólar dæmi mér í vil. Ef einhver andmælir mér, get ég sigað lögreglu á saklaust fólk, svift það frelsi, lokað það inni, skipað læknum að greina fórnarlömbin geðveik að ósekju o.s.frv.o.s.frv. Passið ykkur bara!

Og svo er hitt: Hópur öfgafeminista hefur hér með sagt réttarríkinu stríð á hendur, að því er virðist. Maður er sekur fundinn (í fjölmiðlum), af því að hann er ásakaður. Það þarf enga rannsókn, engar vitnaleiðslur, engar sannanir. Maður er fordæmdur, án réttarhalds. Dæmin eru að hrannast upp. Kennarar við kynjafræðiskor HÍ taka sér ráðningarvald við háskólann. Þótt viðkomandi maður fullnægi öllum hæfisskilyrðum til háskólakennslu, er hann samt undir atvinnubanni „Berufsverbot“, af því að það var illa talað um hann í fjölmiðlum. Það þarf engan dóm. Þær hóta að gera háskólann óstarfhæfan, ef þeim er ekki hlýtt. „Óttast friðrof „ – sagði rektor HÍ.

Og það er lúffað fyrir þeim. Þær hafa líka tekið sér ritskoðunarvald. Þær hóta mótmælum gegn málþingum og hafa sitt fram. Þær vilja banna bækur og ná þeim árangri, að útgáfu er frestað. Þær hafa tekið sér ráðningarvald, ritskoðunarvald og dómsvald. Er nema von, að spurt sé: Hafa öfgafeministar sagt réttarríkinu stríð á hendur? Ætlum við hin að lúffa? Höfum við gleymt því, að án réttarríkis þrífst ekkert lýðræði?

Athygli mín hefur verið vakin á því, að enginn í þingflokki Samfylkingar, sem telur sig a.m.k. á tyllidögum vera arftaka jafnaðarstefnu í íslenskum stjórnmálum, þorði að birta nöfn sín á heillaóskaskrá til „hins aldna leiðtoga íslenskra jafnaðarmanna“. Vildu þau kannski ekki? Eða þorðu þau einfaldlega ekki fyrir sitt litla líf að rísa gegn tyftunarvaldi öfgafeminista, sem hafa hreiðrað um sig í valdastöðum í flokknum? Hvort heldur er, vil ég segja við þá eftirfarandi: Heigulsháttur er alvarlegur ljóður á ráði stjórnmálamanna. Það eru ekki fólskuverk hinna illviljuðu, sem eru verst. Það er heilgulsháttur og afskiptaleysi hinna góðviljuðu, sem er verst. Það þarf kjark til að standa í stafni fyrir mannréttindabaráttu fólks gegn ofurvaldi auðs og valds. Þeir einir sem þora geta vakið okkur vonir um betri heim.