Sólrúnir, grein eftir Bryndísi Schram

Hún er komin heim. Hvur? Hún Sólrún, þú veist. Hún var oddviti annars stjórnarflokksins sem rústaði þjóðfélagið í hruninu – manstu? Og það var hún sem sagði svo eftirminnilega við tíu þúsund fjölskyldur, sem misstu allt sitt í hruninu: „Þið eruð ekki þjóðin.“ Orðin svíða. Þau sitja eftir í þjóðarminninu.

En hefur ekki þjóðin fyrirgefið henni fyrir löngu? Alla vega þeir sem tala í hennar nafni? Þeir hafa tilnefnt Sólrúnu sem fulltrúa þjóðarinnar hjá alþjóðaelítunni, á skattfrjálsum ofurlaunum. Hún verður jú að vera landi og þjóð til sóma, ekki satt?

Hvað er hún að gera? Fyrst var hún víst að kenna þeim kvenréttindi í Kabúl. Að vísu fylgir það sögunni að hún hafi helst ekki hætt sér út fyrir amrísku herstöðina, sem hélt yfir henni verndarhendi. En þeim veitti nú ekki af því að heyra hana tala um kvenréttindin, körlunum þeim.

En upp á síðkastið hefur hún verið á faraldsfæti, aðallega í AusturEvrópu, til að brýna fyrir valdhöfum í Ungó og Póllandi að standa vörð um réttarríkið. Hvernig þá? Jú, hún er að vara við því að valdhafarnir þar leyfi dómstólum götunnar að vaða uppi og líði það að andstæðingar séu teknir pólitískt af lífi, án dóms og laga. Nú er hún komin heim til að segja okkur að þarna séu vítin til að varast.

En hún Sólrún hefur unnið sér fleira til frægðar en þetta, ekki satt? Jú, jú, þú manst þegar Alþingi dró nánasta samstarfsmann hennar fyrir Landsdóm, hann Geir, manstu, til að láta hann einan bera ábyrgð á hruninu. Þá voru einhverjir að heimta að Sólrún gæfi sig fram til að standa fyrir máli sínu við hans hlið. Hún var jú oddviti hins stjórnarflokksins, ekki satt? En hún var svo sniðug að hún sannfærði meirihluta þingflokks Samfylkingarinnar um að hún hefði aldrei haft neitt vit á efnahagsmálum – eða þannig. Það voru jú fáir sem treystu sér til að mótmæla því. Svo að hún slapp með skrekkinn.

Þeir þarna í samstarfsflokknum kalla þetta svik aldarinnar, með stórum stöfum. Og margir höfðu eitthvað svipað á orði. Einn sagði að þessi framkoma Sólrúnar væri ömurlegasta dæmið í íslenskri stjórnmálasögu um óheilindi, óheiðarleika og ódrenglyndi. Vá … – hver sagði þetta? Það var víst þessi Jón Baldvin. Og hann hefur ekki verið að skafa utan af því. Hann lætur að því liggja að „öfgafeministar“, lærimeyjar Sollu, hafi yfirtekið Samfylkinguna svo að alvörukrötum sé þar varla vært mikið lengur.

Hefurðu heyrt hvað Solla kallar konurnar sem í skjóli nafnleyndar eru að segja ljótar sögur um Jón Baldvin? Hún kallar þær hetjur, en ekki hugleysingja. Og hverju svarar Jón Baldvin? Hann segir að ef karakter af þessu kaliberi (og á víst við Sólrúnu) hallmælir manni megi sá hinn sami meðtaka það sem hól. Og hann segist vera að bíða eftir því að formaður Samfylkingarinnar gefi aftur út yfirlýsingu að gefnu tilefni. Um hvað? Að það þarfnist ekki nánari skýringa að formaðurinn núverandi sé afar stoltur af Sólrúnu, forvera sínum á formannsstóli.