Sannleikurinn er sagna bestur

Tímaritið Mannlíf birti í febrúar árið 1995 viðtal við systurnar Aldísi, Snæfríði og Kolfinnu, dætur okkar Bryndísar, undir fyrirsögninni: „Þríleikur Baldvinsdætra“. Í viðtalinu beindi blaðamaðurinn, Kristján Þorvaldsson, eftirfarandi spurningu að systrunum: „En hvernig er að eiga svona pabba og mömmu? Grétuð þið einhvern tímann í koddana ykkar yfir þeim sem börn?“

Snæfríður: „Ég gæti ekki óskað mér betri foreldra“.

Aldís: : „Ég þekki ekki föður minn í þeirri mynd sem fjölmiðlarnir draga upp af honum: refur, óheiðarlegur, hrokagikkur … Akkúrat það sem hann ekki er. Hann er hlýr, skilningsríkur …“

Kolfinna: „… einlægur og tilfinninganæmur …“

Snæfríður: „ …heill og heilbrigður í hugsun …“

Aldís: „… fyrir nú utan hvað hann er gáfaður og skemmtilegur“.

Kolfinna: „Erum við ekki orðnar of væmnar núna, stelpur?“

Aldís: „Sama er mér! Má hann ekki einhvers staðar njóta sannmælis?“

Þessi ummæli lýsa óneitanlega vinarþeli og ástúð dætranna í garð föður síns. Ekki síst Aldísar. Og þetta er árið 1995. Hvað hefur breyst? Í forsíðuviðtali við DV (11.-13. okt. 2013) – átján árum síðar – kærir Aldís föður sinn fyrir kynferðislega áleitni við sig og dóttur sína, systur sínar, frænkur og vinkonur og lýsir honum sem siðlausu dusilmenni. Í viðtali við Sigmar Guðmundsson á RÚV – rás 2 fimmtudaginn 18. janúar sl. endurtekur hún allar þessar ásakanir og gott betur.

Í viðtalinu segist hún hafa slitið öllu sambandi við föður sinn þegar árið 1991 og sakar hann um að hafa vélað sig inn á Landspítala árið 1992, þar sem hún hafi síðan verið kyrrsett með valdi, sprautuð niður og ranglega greind með geðhvarfasýki á háu stigi. Í ljósi hinna loflegu ummæla um föðurinn fjórum árum síðar er fullyrðingin um vinslit við hann sannanlega röng.

Sannleikurinn er sá, að Aldís bar slíkar sakir fyrst upp á föður sinn eftir að hún hafði verið nauðungarvistuð á geðdeild Landspítalans árið 2002, áratug síðar. Hver er skýringin? Svarið er, að hennar eigin sögn, ítrekuð nauðungarvistun á geðdeild, sem hún kennir föður sínum um.

Valdamaðurinn?

Hún vill nú láta fólk trúa því, að faðir hennar hafi haft vald til þess að siga á hana lögreglu, láta handtaka hana og járna, loka nauðuga inni á geðdeild, sprauta hana niður og greina ranglega með geðhvarfasýki, sem síðan hafi verið tilfærð sem réttlæting á nauðungarvistun í hvert sinn sem föður hennar mislíkaði við hana.

Hún ætlast m.ö.o. til þess, að fólk trúi því að maður, sem þá gegndi sendiherrastarfi erlendis, geti að geðþótta fengið dómsmálaráðuneytið til að siga lögreglu á varnarlausa einstaklinga úti í bæ og látið frelsissvipta þá á stofnunum ríkisins. Og ein helsta menningarstofnun ríkisins, sjálft Ríkisútvarpið – og reyndur fréttamaður á þess vegum, Sigmar Guðmundsson – gerir engar athugasemdir við svona bull. Þvert á móti er það gert að sérstakri frétt, að sendiherra íslenska ríkisins hafi misbeitt ímynduðu valdi sínu með þessum hætti.

Glæsileg rannsóknarblaðamennska a’tarna. Það er ekkert verið að kynna sér lög og reglur sem um þetta gilda. Engri spurningu beint til forráðamanna Landspítalans um það, hvort það sé algengt, að saklaust fólk sé nauðungarvistað þar innan veggja, samkvæmt pöntun úti í bæ; eða knúið dyra hjá dómsmálaráðuneyti og lögregluyfirvöldum til að spyrja hvort þar sé alsiða að siga lögreglu á varnarlausa einstaklinga með þessum hætti, að pólitískum geðþótta valdhafa?

Eru íslenskir ríkisborgarar virkilega núorðið varnarlausir frammi fyrir níðrógi og mannorðsmorðum af þessu tagi? Það hlýtur að teljast grafalvarlegt mál, að alvörufjölmiðill – eins og RÚV er ætlað að vera – skuli bera á borð fyrir hlustendur sína falsfréttir af þessu tagi. Ég ætla að gefa Önnu Sigrúnu Baldursdóttur, aðstoðarmanni forstjóra Landspítalans, orðið um þetta mál: Hún sagði í þættinum „Í vikulokin“ (19.1. ’19) eftirfarandi:

Það getur enginn nauðungarvistað dóttur sína beint … sjálfræðissvipting er gríðarlega alvarlegt mál og gerist venjulega í kjölfar nauðungarvistunar. Þetta er flókið ferli. Nú veit ég ekkert hvað gerðist í þessu máli, en það er ekki þannig, að einhver geti bara pantað það; heldur er það þannig, að einhverjar aðstæður skapast hjá einhverjum einstaklingi, sem verður til þess að hann er færður á geðdeild. Þá tekur við honum læknir, sem metur hvort þurfi að nauðungarvista viðkomandi. Það er einungis hægt í 72 tíma. Sé talið að það þurfi lengur er kallað á annan óháðan lækni, sem ekki starfar á deildinni þar sem sjúklingurinn er til meðhöndlunar; og þá er hugsanlegt að nauðungarvista í 21 dag til viðbótar. Og þá þarf leyfi sveitarfélags, svo sem sýslumanns. Árið 2015 varð sú breyting, að ættingjar þurfa ekki að fara fram á þessa vistun lengur. Það var mikil bót … En það er aldrei þannig, að það sé einhver einn sem geti farið fram á nauðungarvistun – það er ekki þannig. Að slíku máli koma margir.

Það er enginn nauðungarvistaður nema að læknisráði. Þetta er neyðarúrræði, sem aldrei er gripið Sannleikurinn er sagna bestur Eftir Jón Baldvin Hannibalsson » Eru íslenskir ríkisborgarar virkilega núorðið varnarlausir frammi fyrir níðrógi og mannorðsmorðum af þessu tagi? Jón Baldvin Hannibalsson Höfundur var einu sinni ritstjóri og blaðamaður. til fyrr en öll önnur úrræði eru þrotin. Það er hægt að leiða fram mörg vitni um hvílíku böli það hefur valdið mörgum fjölskyldum, að nákominn ættingi þurfti, fyrir lagabreytinguna, að veita samþykki sitt fyrir nauðungarvistun. Það beinlínis eitraði líf margra fjölskyldna. Okkar fjölskylda er enn eitt dæmi þess. En svo mikið traust bar Aldís dóttir mín til föður síns, að hún fól honum einum meðal aðstandenda umboð til að samþykkja nauðungarvistun, ef í nauðir ræki. Hún dró það ekki til baka fyrr en árið 2002, ellefu árum eftir að hún segist hafa slitið öll tengsl við föður sinn. Sjálfur á ég í fórum mínum eftirfarandi vottorð frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, dagsett 5. janúar 2012:

„Lögreglan hefur nokkrum sinnum á undanförnum árum haft afskipti af Aldísi Baldvinsdóttur (kt. 210159-4449) eða sinnt verkefnum vegna hennar. Að gefnu tilefni skal tekið fram, að foreldrar hennar, Bryndís Schram og Jón Baldvin Hannibalsson, hafa aldrei kallað á lögreglu eða beðið lögreglu um aðstoð af neinu tagi hennar vegna. Þetta staðfestist hér með.“ (Undirskrift: Hörður Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóri.)

Sannleikurinn: fyrsta fórnarlambið

Þetta segir allt sem segja þarf um rannsóknarblaðamennsku Sigmars Guðmundssonar og um fréttaflutning RÚV um misbeitingu valds til að siga lögreglu á saklaust fólk.

Það sem hér hefur verið greint frá segir líka allt sem segja þarf um eftirfarandi fullyrðingar Aldísar, sem látið var ómótmælt í þessu endemis viðtali Sigmars Guðmundssonar á Rás 2:

  • Aldís fullyrðir, að hún hafi „sagt skilið við“ föður sinn árið 1991, eftir að hafa tilkynnt honum að hún mundi kæra hann fyrir kynferðisbrot. Þetta er augljóslega ósatt. Enginn í fjölskyldunni hafði heyrt hana lýsa slíkum ákærum fyrr en árið 2003 og þá í því skyni að spilla málstað systur sinnar, Snæfríðar, í erfiðri forræðisdeilu vegna Mörtu, dóttur Snæfríðar (sem síðar verður vikið að).
  • Frásögn Aldísar af því hvernig hún hafi verið ginnt til að leita til geðdeildar Landspítalans árið 1992 er eftiráspuni, sem stenst enga skoðun.
  • Fullyrðingar Aldísar um að faðir hennar hafi „fimm sinnum á næstu tíu árum“ (1992-2002) … sigað á sig lögreglu, sem hafi handtekið hana, er staðleysustafir. Margir komu að (nauðungar)vistun hennar á geðdeild á þessu tímabili, þ.á m. eiginmaður hennar, Dimitri Razoumeenko, sem og kunningjar, vinir og ættingjar.
  • Eftirfarandi fullyrðing: „Hann gat þá einfaldlega sem utanríkisráðherra og síðar sendiherra hringt í lögreglu, og þar með var ég þá handtekin. Umsvifalaust farið með mig í járnum upp á geðdeild.“ Þetta er bara bull.
  • Fullyrðingar um meinta „yfirburðastöðu“ JBH sem „utanríkisráðherra og síðar sendiherra“, sem hafi dugað honum til „að senda bréf til dómsmálaráðuneytisins“ til þess að hún yrði ítrekað nauðungarvistuð“, er hrein ímyndun.
  • Söguburður Aldísar um sáttaför til Washington D.C. á fund foreldra hennar og til að hitta systur sína, Snæfríði, ásamt dætrum þeirra beggja er á sömu bókina lærð. Tilbúningur. Skröksaga. Það sem gerðist var að faðir hennar bar sofandi barn, sem hafði verið skilið eftir í bókaherbergi, upp á næstu hæð og lagði í rúm hjá móður sinni. Við Snæfríður urðum samferða upp stigann með barnið. Vitnisburður hennar liggur fyrir.
  • Sigmar gerir það ekki endasleppt í þessu viðtali. Hann segir Aldísi ósátta við að hafa verið „greind með geðhvörf árið 1992“; að sú greining hafi verið „ítrekað notuð til áframhaldandi nauðungarvistunar“; að hún hafi svo verið „sett á sterk lyf“ og „áhrif lyfjanna hafi því verið notuð gegn henni“. Hann hefur það eftir Aldísi, að tveir læknar hafi hins vegar talið hana sýna merki „áfallastreituröskunar“, sem hugsanlega mætti rekja til kynferðisbrota. – Strangvísindalegt, ekki satt? Hugsanlega. Loks hefur hann eftir Aldísi, að JBH hafi „framið sifjaspell“ þegar hún (hver?) var fullorðin kona. Smekklegt, ekki satt? Í útvarpi allra landsmanna.

Þessu endemis viðtali lýkur með því, að Aldís fer með þrjú boðorð, sem hún segist fylgja við uppeldi dóttur sinnar: Að segja satt, að standa við orð sín og að fyrirgefa – Þetta eru lokaorðin í viðtali, þar sem varla fyrirfinnst eitt satt orð. Það má með sanni segja að það er sitthvað að halda boðorðin en að boða þau.

Rannsóknarblaðamennska?

Af einhverjum ástæðum láðist rannsóknarblaðamanni RÚV, Sigmari Guðmundssyni, að leita álits þeirra stofnana íslenska ríkisins, sem hér eru bornar sökum um misbeitingu valds samkvæmt pöntun meintra valdamanna. Er ekki kominn tími til að rannsóknarblaðamenn krefji forráðamenn þessara stofnana um afdráttarlaus svör:

  1. Tíðkast það hjá dómsmálaráðuneyti og lögregluyfirvöldum að siga lögreglu að tilefnislausu á saklaust fólk og láta loka það inni á stofnunum? Erum við stödd í gamla Sovétinu eða í Sádi-Arabíu?
  2. Er það alsiða á Landspítalanum að taka við fólki sem lögreglan færir þangað í járnum og sprauta það niður með lyfjum; og nýta síðan áhrif lyfjanna til að setja fram tilefnislausa og ranga greiningu á sjúkdómum, til að réttlæta margítrekaða nauðungarvistun? Allt samkvæmt skipun valdamanna?
  3. Ef það er satt, sem Sigmar hefur eftir Aldísi í viðtalinu, að hún sé ranglega greind með geðhvarfasýki, ber þá ekki Tryggingastofnun ríkisins, sem að fengnu áliti sérfræðinga Landspítalans hefur skilgreint Aldísi sem „geðfatlaða“, að endurskoða þá málsmeðferð og þar með greiðslu örorkubóta, sem byggðar eru á þessu mati?
  4. Margar þeirra kvenna, sem bera JBH sökum, kvarta undan því að fjölmiðlar (t.d. Silfur Egils) hafi dirfst að leita álits hans á stjórnmálum. Sumir talsmenn #Metoo-hreyfingarinnar beita samskonar rökum. Upplýst er að það hafi verið umdeilt meðal stjórnenda RÚV hvort leyfa ætti JBH og BS að segja ferðasögu í útvarpi á þrettándanum. Kennarar við kynjafræðaskor HÍ mótmæltu á sínum tíma harðlega að HÍ stæði við samning sinn við JBH um kennslu við háskólann og beittu sömu rökum: að JBH hefði verið sakaður um kynferðislega áreitni í fjölmiðlum. Þær höfðu sitt fram. M.ö.o. það átti að duga að hafa verið sakfelldur í fjölmiðlum því að ekki var unnt að vísa til sakfellingar fyrir dómstólum. Þetta þýðir að ákærendum er fært vald til að ráða og reka fólk, sem og allsherjar ritskoðunarvald. Dómsvaldið fylgir með í kaupbæti. Það þarf enga rannsókn, engin vitni, engan úrskurð óháðs dómara. Það er nóg að ákæra í fjölmiðlum. Rannsóknarblaðamaður RÚV sá ekki ástæðu til að gagnrýna þetta, hvað þá vekja athygli á því. Er það í lagi?