Jón Baldvin Hannibalsson, afmælisgrein eftir Jakob Frímann Magnússon

Í dag er áttræður vinur minn og samferðamaður um langa hríð, Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi sjómaður, kennari, skólameistari, ritstjóri, formaður Alþýðuflokksins, fjármálaráðherra, utanríkisráðherra og sendiherra Íslands í Washington og Helsinki.

Fáa menn veit ég jafn leiftrandi greinda, litríka og skemmtilega. Sannarlega öngvan er lagt hefur jafngjörva hönd á að skapa forsendur hins auðuga íslenska velferðarsamfélags sem aldrei hefur staðið í jafnmiklum blóma og einmitt nú. Þökk sé ötulli og einbeittri baráttu hans fyrir þeim kostakjörum sem inngangan í EES, Evrópska efnahagssvæðið, færði okkur um miðjan tíunda áratug síðustu aldar.

Jóns Baldvins verður lengi minnst á Íslandi fyrir það pólitíska þrekvirki. Að sama skapi er hans hlýlega minnst í öðrum löndum sem hins djarfhuga stjórnmálamanns er fyrstur steig fram til atfylgis baltnesku þjóðunum í tvísýnni baráttu þeirra fyrir frelsi og langþráðu, endurheimtu sjálfstæði.

Undir ógnandi hótunum Rússa hvikaði utanríkisráðherrann Jón Baldvin hvergi og bauð hinni vígreifu gömlu kommúnistaþjóð birginn án þess að blikna.

Með einstöku íslensku orðfæri mælir hann jafnan óhræddur og tæpitungulaust. Eftir hann liggja ótal snjallar ritgerðir, greinar og bækur. Að minnsta kosti tveggja nýrra ritverka eftir hann er að vænta á þessu ári.

Það hefur ósjaldan gustað um Jón Baldvin Hannibalsson og sennilega aldrei sem nú. Í eðli sínu er Jón þó friðarins maður. Enginn þó FriðJón.

Þótt ekki sé vitað með vissu hvar okkar maður kýs að halda til á stórafmælinu, mætti vel ímynda sér hann ganga íhugulan á vit Íslandsstrætis í Litháen eða orna sér að kveldi við Íslandstorg í Tallinn þar sem þegnarnir kunna vel að meta dýrmætt framlag hans til sjálfstæðisbaráttu Eistlands, Lettlands og Litháen.

Ég óska afmælisbarninu – og fjölskyldu þess allri – friðar og velfarnaðar á merkum tímamótum.