Ofangreind auglýsing mun vera einsdæmi í sögu almannatengsla á Íslandi. Menn sem þekkja vel til í þessum bransa kannast ekki við nein dæmi þess að opinberlega hafi verið auglýst eftir gróusögum um nafnkunna menn. Fáir leggja trúnað á að þetta sé bara einkaframtak Friðjóns. Þeir sem til þekkja á bak við tjöldin telja næsta víst að hann geri þetta með vitund og vilja flokksforystunnar. Aðrir benda á að Friðjón og Andrés Jónsson, spunameistari Samfylkingarinnar, séu nánir vinir og þekktir af því að gera hvor öðrum greiða þegar reynir á hugkvæmni spunameistaranna. Á kannski að skoða þetta sem vinargreiða?
Árið 2005 kom út skrýtið bókarkver eftir annan efnilegan sjálfstæðismann Björn Jón Bragason: „Bylting – og hvað svo?“ . Höfundur sagði tilgang bókarinnar vera að skýra versnandi sambúð Íslands og Bandaríkjanna, sem lýsti sér m.a. með brottför bandaríska hersins árið 2006. Við lestur bókarinnar var ekki annað að skilja á höfundi en að ein helsta ástæðan fyrir þessum sambúðarörðugleikum væri sú að Jón Baldvin, sem var sendiherra í Washington 1998-2002, hefði talað svo illa um Bandaríkin að æðstu ráðamenn Bandaríkjanna hefðu firtst við og ákveðið að kalla herinn heim – að vísu mörgum árum eftir að sendiherrann var þar á bak og burt. Máli sínu til sönnunar sagði höfundurinn að „Utanríkisráðuneytinu hefðu ítrekað borist kvartanir vegna sendiherrans“. Fyrir því hafði hann ónafngreinda heimildarmenn í utanríkisþjónustunni. Ráðuneytisstjórinn í utanríkisráðuneytinu á þeim tíma, Stefán Haukur Jóhannesson, lét rannsaka málið. Að rannsókn lokinni gaf hann út yfirlýsingu um að þetta væri tilhæfulaust með öllu (sjá fylgisskjal).
En þar sem hér er verið að auglýsa eftir upplýsingum um störf sendiherrahjóna Íslands í Washington á árunum 1998-2002, er ekki úr vegi að vísa til bandarískra samtímaheimilda sem birtar voru opinberlega á þessu tímabili. Flestir munu ætla að þær séu trúverðugri heimildir en gróusögur hafðar eftir ónafngreindum heimildarmönnum sem þora ekki að standa við orð sín undir nafni. Af þessu tilefni fylgja hér á eftir frásagnir sem byggja að mestu á bandarískum heimildum:
- Yfirlitsgrein Bryndísar undir heitinu „Árin okkar í Ameríku“, þar sem vitnað er í ýmsar þessara heimilda.
- Yfirlýsing ráðuneytisstjóra Utanríkisráðuneytis sem hrekur fullyrðingar Björns Jóns Bragasonar um klögumál á hendur JBH.
- Tvær greinar um sendiherra Íslands í Washington Times, dagblaði sem talið er helsta málgagn hægri arms Repúblikanaflokksins þar í borg.
- Bókarkafli Gail Scott, diplomatic correspondent í Washington DC, fyrir „The Diplomat“
- Krossapróf fyrir formann upplýsinga- og fræðslunefndar Sjálfstæðisflokksins.
- Fylgisskjal: Skýrsla sendiherrans um hlut sendiráðsins í Washington í sameiginlegu átaki Norðurlandaþjóða til að kynna landafundi Norrænna manna í N-Ameríku á tímamótaárinu 2000. „Árangur landkynningar í Norður-Ameríku árið 2000“.