Að loknu stúdentsprófi lá leið hans til Þýskalands, landsins sem kennt er við Heine og Hitler, Göthe og Göbbels. Þjóðverjar voru að skríða upp rústum stríðsins, eftir að hafa tapað glórunni í sjálfstortímingaræði nazismans. Atli varð innvígður í tónlistarhefð þýska menningarheimsins, sem stendur engum að baki. En hann var einskis manns hermikráka. Atli var skapandi hugsuður undir aga tónlistarformsins og kenndi til í tilfinningaróti tvíræðrar tilveru, sem einkenndist af ofsa og hraða. En leitaði að lokum hjálpræðis í hinu fagra og friðsæla.
Helförin var Húnunum í fersku minni. Menntaðasta þjóð Evrópu hafði hrokkið af hjörunum og hrasað út í botnlausa villimennsku. Stockhausen, meistari Atla Heimis, skildi samtíma sinn: Öld öfga, ofbeldis og tortímingar. Atli skildi það líka. Og funi og fjör æskumannsins bauð ekki upp á neinar málamiðlanir.
Þess vegna gátu margir landar vorir ekki tekð Atla Heimi í sátt, fyrr en frægð hans barst að utan með tónskáldaverðlaunum Norðurlandaráðs árið 1976. Upp úr því varð Atli dús við sína elskulegu þjóð, rétt eins og Halldór Kiljan að fengnum Nóbelsverðlaunum.
Höfundarverk Atla Heimis er ótrúlegt. Sex synfóníur, fimm óperur, balletóratórían Tíminn og vatnið, tónlist fyrir leikhús, sónötur, kammermúsík, ljóðasöngur, allt frá epískum söguljóðum til hinnar lágværu vögguvísu, út í rapp og ról og búgívúggí. Bara þegar við töldum seinast.
Atli Heimir kom okkur einatt á óvart. Hann bjó til kliðmjúk lög við vögguvísur og barnagælur; söng tregablandna mansöngva og hástemmda lofsöngva. Hann fann til andlegs skyldleika við höfuðskáldin og léði ljóðum þeirra vængi.
„Nú finnst mér það allt svo lítið og lágt, sem lifað er fyrir og barist á móti“, eins og Einar Ben. yrkir í Norðurljósum og Atli Heimir léði vængi tónlistarinnar. Einhvern veginn segir mér svo hugur, að löngu eftir að verk okkar hinna eru gleymd og grafin, verði enn uppi fólk á Íslandi, sem leitast við að skilja aldarfar okkar tíma með því að hlusta á tónlist Atla Heimis.