Björgvin Guðmundsson; Minning

Hann var jafnaðarmaður í húð og hár – ekta sósíaldemókrat – til hinsta dags. Vinnuþjarkur, sem féll aldrei verk úr hendi. Það lýsir manninum vel, að í vikunni, áður en hann kvaddi, var hann að ganga frá seinustu grein sinni með raunsæjum tillögum um, hvernig eigi að rétta hlut aldraðra, svo að velferðarríkið íslenska nái að rísa undir nafni.

Aldursmunurinn á okkur samsvaraði tveimur menntaskólakynslóðum, tæpum átta árum. Þegar ég var enn á mínum marxísku sokkabandsárum að lesa utanskóla við MR, var Björgvin löngu byrjaður að láta til sín taka sem vinnuþjarkur í þjónustu jafnaðarstefnunnar. Hann var blaðamaður á Alþýðublaðinu meðfram námi í viðskiptafræði við háskólann, formaður Stúdentaráðs og formaður Sambands ungra jafnaðarmanna í framhaldi af því. Þessi atvæðamiklu ungi maður átti síðar eftir að sitja í flokkstjórn Alþýðuflokksins á fjórða áratug. Alltaf til staðar. Alltaf til þjónustu reiðubúinn.

Ég held, að Björgvin hafi orðið þjóðkunnur fyrir tvennt: Hann annaðist útvarpsþáttinn “Efst á baugi“ við annan mann í áratug. Þátturinn fékk mikla hlustun, enda vandað til verka við fréttaskýringar, bæði af innlendum og erlendum vettvangi. Síðar varð Björgvin þjóðkunnur sem leiðtogi Alþýðuflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur árið 1970, þegar hann var 38 ára og leiddi flokkinn í borgarstjórn í tólf ár. Hann var einn af foringjum vinstri meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur, þgar loksins tókst að hnekkja flokksræði Sjálfstæðisflokksins í höfuðborginni, sem staðið hafði samfleytt frá fyrstu tíð.

Björgvin lét víða að sér kveða, bæði í atvinnulífinu og á opinberum vettvangi. Hann var skamma hríð forstjóri BÚR, Bæjarútgerðar Reykjavíkur, og stóð sig vel. Þegar íhaldið komst aftur til valda, var Björgvin rekinn og útgerðin einkavædd skömmu síðar. En Björgvin nýtti vel reynslu sína af útgerð og fiskvinnslu. Hann stofnaði ásamt syni sínum útflutningsfyrirtækið „Nýfisk“ og rak það í áratug.

Reynsla Björgvins af atvinnulífinu var því beggja vegna borðsins: bæði sem sjálfstæður atvinnurekandi og sem viðskiptafræðingur í þjónustu ríkisins, skrifstofustjóri í Viðskiptaráðuneytinu og viðskiptafulltrúi í Utanríkisráðuneytinu, þar sem hann sinnti einkum útflutningi, markaðssetningu og samningagerð.

Árið 2013 sendi Björgvin frá sér æviminningar sínar undir heitinu „Efst á baugi“. Það er fróðleg lesning og aldarfarslýsing. Þar segir frá manni, sem ólst upp á kreppuárum en braust til mennta og lét síðar meir að sér kveða, ævinlega minnugur uppruna síns, baráttumaður undir merkjum raunsærrar jafnaðarstefnu.

Björgvin kvæntist ungur æskuástinni sinni Dagrúnu Þorvaldsdóttur og eignuðust þau sex syni, og er af þeim kominn mikill ættbogi. Fyrir hönd okkar jafnaðarmanna flyt ég þeim öllum samhygðarkveðjur.