„ Við berum ekki aðeins ábyrgð á gjörðum okkar, heldur einnig því sem við látum ógert.“ Moliére.
Eftir á að hyggja telst það hafa verið vel til fundið hjá Steingrími J. að panta seðlabankastjóra að láni frá kollega sínum, fjármálaráðherra Noregs.
Þar með vorum við laus við heimanfengin vensl og tengsl, sem valda hagsmunaárekstrum og opna fyrir laumugáttir fyrirgreiðslu og spillingar. Strákurinn fékk skyndinámskeið í rekstri seðlabanka á vegum seðlabankastjóra Noregs. Það reyndist vera góð hjálp í viðlögum, þótt skyndihjálp væri, því að maðurinn var augljóslega vel verki farinn hagfræðingur fyrir.
Hjálp í viðlögum
Framundan voru mánuðir og misseri milli heims og helju. En upp frá því fer landið að rísa. Eftir að hafa fyrirgert öllu trausti alls staðar, var landið tekið inn á gjörgæsludeild Aþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF). Mér leist satt að segja ekki á blikuna vegna skelfilegrar reynslu af kolrangri nýfrjálshyggjupólitík sjóðsins í þróunarríkjum heimsins á undanförnum áratugum. IMF hefur að eigin sögn komið við sögu í 136 kreppum hins kapitalíska heimskerfis frá stofnun sinni upp úr seinna stríði til þessa dags.
Það kom mér því þægilega á óvart, að Ísland breytti IMF meira en IMF breytti Íslandi. Þá á ég fyrst og fremst við, að IMF – öfugt við fyrri stefnu – kom þegar í stað á „capital controls“ – gjaldeyrishöftum. Það var til þess að fyrirbyggja fjárflótta og til að forða frekara gengishruni. Og til að byggja upp samningsstöðu gagnvart skyndigróðafíklum, sem kenndir eru við jöklabréf og snjóhengju. Þetta skipti sköpum um framhaldið.
Annað sem skipti sköpum og sannaði, að Íslendingar voru ekki með öllu heillum horfnir, var neyðarlögin. Þar með voru bankarnir þjóðnýttir – og það sem meira var – innstæður sparifjáreigenda voru settar í forgang hjá þrotabúum gömlu bankanna umfram hlutabréfa – og skuldabréfa – eigendur. Þetta átti eftir að bjarga Icesave, eins og síðar kom á daginn. Um það hefur verið fjallað rækilega (sjá t.d. nýlega bók mína: Tæpitungulaust, 3. hluti, kafli 11, „Hrunið – orsakir og afleiðingar – íslenska dæmisagan“ bls. 278 og kafli 15: „Leið Íslands út úr Hruninu“, bls. 313). Hver átti frumkvæðið að því að breyta með lögum forgangsröðun kröfuhafa í þrotabúin? Ég hef orð manna sem til þekkja fyrir því, að Ragnar Önundarson, fv. bankastjóri, eigi heiðurinn af því. Sé það rétt, verður hann að teljast meðal helstu velgjörðarmanna þjóðarinnar.
Svo er ýmsu við að bæta því til skýringar, hvers vegna Ísland náði sér aftur á strik fyrr og betur en nokkur maður þorði að vona, þegar útlitið var sótsvart í miðju Hruni. Ísland var eina landið, þar sem gervallt fjármálakerfið var ein rjúkandi rúst. Það þýddi, að hvort sem mönnum (IMF þar með talið) líkaði betur eða verr, var óhjákvæmilegt að afskrifa skuldir í stórum stíl. Það var ekki tæknilega mögulegt að bjarga bönkunum með því að láta skattgreiðendur borga töpin, eins og gert var annars staðar að kröfu evrópska seðlabankans og IMF. Og fjármagnshöftin gáfu þjóðríkinu samningsstöðu til þess að semja um niðurfellingu skulda, sem ella hefði varla verið liðið.
Viðreisn
Hvernig átti að endurreisa bankana? Ríkjandi skoðun, byggð á reynslu Skandinava frá bankakreppunni í upphafi 10nda áratugar 20stu aldar, var hin svokallaða „sænska leið“. Samkvæmt henni átti að safna öllum „eitruðum“ lánum í vondan banka sem væri ríkisrekinn og reyndi síðan eftir bestu getu að innheimta það sem ínáanlegt var. Þar með væri restin af bankakerfinu komin með heilbrigðisvottorð til að þjóna atvinnulífi og heimilum.
Þetta hefði ekki getað gengið á Íslandi. Ástæðan er sú, að allt að 70% fyrirtækja voru tæknilega gjaldþrota. Hefði því öllu verið sópað í „vondan“ banka, hefði verið of lítið afgangs til að endurreisa hagkerfið. Við þessar kringumstæður hefur leiðin sem valin var – nefnilega að taka öll útistandandi innlend lán og innlendar innistæður í nýja banka – reynst afar vel. Frásögnin af því, hvernig umsamdist, (sjá bls. 248-51) er vægast sagt ævintýraleg. Og gefur öðrum þjóðum, sem lenda í svipuðum sporum síðar, eftirbreytnivert fordæmi.
Annað, sem Íslendingar gerðu í ríkjandi neyðarástandi og er svo sannarlega öðrum þjóðum til fyrirmyndar, var að skipa rannsóknarnefnd Alþingis til að greina orsakir og afleiðingar Hrunsins og skila niðurstöðum um, hverjir bæru á því ábyrgð, þannig að allir mættu af læra. Hitt er svo annað mál, að Alþingi og þeir stjórnmálaflokkar, sem í hlut eiga (Sjálfstæðis-Framsóknarflokkur og SF undir lokin) hafa forsmáð niðurstöður nefndarinnar og látið undir höfuð leggjast að gera upp við fortíð sína og ábyrgð á Hruninu.
Það var líka til fyrirmyndar að setja á stofn embætti sérstaks saksóknara til að lögsækja þá, sem sannanlega höfðu gert sig seka um lögbrot. Fyrir vikið eiga sögufalsarar ögn erfiðara með að rangtúlka söguna. Og fordæmi hafa verið sköpuð fyrir því, að menn komast ekki upp með hvað sem er, þar með talin lögbrot í krafti auðs og valda.
Þannig getum við talið upp margt sem skýrir, hvers vegna Ísland náði sér betur og fyrr en aðrar þjóðir á strik eftir Hrun: Sjálfstæð peningastefna (á mannamáli gengisfelling), neyðarlögin, fjármagnshöftin, skuldaafskriftir í stórum stíl, engin bankabjörgun á kostnað skattgreiðenda, hagkvæmir samningar um endurfjármögnun bankakerfisins, skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis á orsökum Hrunsins, sérstakur saksóknari og sakfelling fjárglæframanna. Fyrir utan heppni og hagstæð ytri skilyrði, eins og t.d. dóm EFTA-dómstólsins um Icesave og margföldun ferðamannafjöldans.
Mistök
En rétt er að halda því til haga, að annað tókst miður en skyldi.
Eitt af því var að hafa upp á þýfi eigenda gömlu bankanna. Um þetta er fjallað á bls. 247-249. Þar segir:
„Meðal margra brýnna mála ræddum við, hvort við ættum að leita uppi þá peninga, sem helstu eigendur og stjórnendur bankanna kynnu að hafa tekið út úr bönkunum rétt fyrir Hrun. „Allir stóru bankarnir á Íslandi voru sýktir af lánastarfsemi út á vensl… oft hafa peningarnir verið sendir í skattaskjól í löndum þar sem eignarhald er ógagnsætt með öllu… Ég mælti með því, að allt yrði reynt. Fjármálaráðherrann í Noregi hafði tekið á slíku tilviki með því að gera út eltingarleik, sem stóð í áratug. Sérfræðingarnir fengu greiddan hluta af því, sem þeir endurheimtu. Svo fór, að digrir sjóðir fundust“ (bls. 247).
Svein Harald fékk þessu ekki framgengt. Hann bókaði sérstöðu sína og segist enn var þeirrar skoðunar, að þrotabúin hefðu átt að gera meira til þess að hafa uppi á sjóðum, sem voru líklega í felum. Í stað þess að fara að þessum ráðum, bauð seðlabankinn síðar slíkum aðilum upp á sérstök vildarkjör í því skyni að fá hulduféð heim. Það er trúlega umdeildasta ákvörðun Más Guðmundssonar á annars farsælum ferli hans. Enda hefur sá gjörningur án efa stuðlað að vaxandi ójöfnuði í okkar samfélagi og var þó ekki á bætandi.
„Skjaldborg heimilanna“?
Slagorðið um „skjaldborg um hag heimilanna“ vakti í upphafi væntingar, sem erfitt reyndist að standa við með skilvirkum og trúverðugum hætti. Umfjöllun höfundar um þetta vandmeðfarna efni (bls. 283-86) er ófullnægjandi. Menn þreifuðu sig áfram í myrkrinu: Tímabundin stöðvun afborgana af gengisfelldum og verðtryggðum lánum. Þak á lánsupphæð (110% af verðtryggingu). Umreikningur gengisfelldra erlendra lána í íslenskar krónur á upphaflegu gengi. Sá böggull fylgdi þó skammrifi, að þrátt fyrir að dómstólar hefðu dæmt þessi lán ólögleg, var lántakendum refsað með afturvirkum seðlabankavöxtum á þessum lánum. Hvílík stjórnsýsla! Embætti umboðsmanns skuldara var stofnað. Er það ekki ennþá með opna búð? Loks er að geta leiðréttingar Sigmundar Davíðs, sem bankaskatturinn á hina endurreistu og þjóðnýttu banka stóð undir að hluta.
En hver var árangurinn? Erlendar kannanir sýna, að 42% allra neyslulána renna til 20% hinna tekjuhæstu, en 20% hinna tekjulægstu eru aðeins með 6% (sjá bls. 285). Var útkoman hér á sömu lund – tekjutilfærsla til hinna tekjuhæstu?
Af þessu tilefni er sérstök ástæða til að minna á gagnagrunn Seðlabankans, sem Sveinn Haraldur segir einsdæmi á heimsvísu. Höfundarnir er Þorvarður Tjörvi Ólafsson (sonarsonur Einars Olgeirssonar, læriföður míns í marxisma forðum daga), og Karenar Áslaugar Vignisdóttur. Þetta er, að sögn, „gagnagrunnur heimilanna á landsvísu“. Á bls. 281 segir: „Þarna er hægt að sjá gögn um það, hvað einstaklingur hefur í tekjur, einnig gögn um skatta, lán, yfirdrátt, fjölskyldustærð og – samsetningu, staðsetningu, aldur, lífsskilyrði og húsnæði“ o.s. frv. Enn fremur segir, að unnt sé að „líkja eftir í gagnagrunninum“ afleiðingum Hrunsins. Þetta á við um lækkun gengis, verðbólgu, verðlagshækkanir, atvinnuleysi, breytingar á launum, skattlagningu og bótum og sveiflurnar á fasteignamarkaðnum.
Spurning: Með þetta þarfaþing í höndunum, hvers vegna tókst ekki að koma fyrirhugaðri hjálp í viðlögum á húsnæðismarkaðnum betur til skila til þeirra, sem mest þurftu á að halda? Þetta þurfa fræðimenn að rannsaka ofan í kjölinn. Í þessu samhengi er vert að vísa á rannsókn Stefáns Ólafssonar, prófessors, á aðgerðum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur (2009-13) til að verja velferðarþjónustuna í Hruninu (sjá Stefán Ólafsson, Mary Daly, Olli Kangas og Joakim Palme: Welfare and the Great Recession, O.U.P.)
Syndaselir og sögulok
Hverjir eru syndaselirnir í þessari sögu? – séð með glöggum augum gestsins. Með vísan til spakmælis Moliére, sem vísað var til í upphafi, um að menn beri ekki bara ábyrgð á gjörðum sínum heldur líka hinu, sem þeir létu ógert (vanræksla), má draga þá í tvo dilka: Í fyrri hópnum eru eigendur og stjórnendur bankanna, matstofnanirnar – og hinir ósnertanlegu endurskoðendur – vegna þess sem þeir gerðu. Í hinum hópnum eru stjórnvöld, forystumenn ráðandi stjórnmálaflokka og lykilmenn stjórnsýslunnar, sem og eftirlitsstofnanirnar, seðlabanki og fjármálaeftirlit – fyrst og fremst vegna þess sem þeir létu ógert. Vanræktu skyldur sínar.
Sem ég skrifa þessi orð skýst eftirminnileg tala upp í hugann – 147. Hvað er svona merkilegt við hana? Það er þetta: Vitringarnir þrír, sem stýrðu rannsókninni á orsökum og afleiðingum Hrunsins, yfirheyrðu 147 einstaklinga vegna rannsóknarinnar. Þetta voru menn og konur sem voru í forystuhlutverkum og báru ábyrgð á hag lands og lýðs. Forystumenn stjórnmálaflokka, ráðherrar í lykilhlutverkum, ráðuneytisstjórar, forstöðumenn Seðlabanka og fjármálaeftirlits, stjórnendur fjölmiðla, fyrir nú utan höfuðpaurana sjálfa í bönkum og viðskiptum. Ekki einn einasti þeirra – alls enginn – kannaðist við að bera nokkra ábyrgð á óförunum, hvorki með gerðum sínum né aðgerðarleysi. „Not my department“. Það var svarið. Þetta var allt saman einhverjum öðrum að kenna. – Er þetta ekki eftirminnilegasta lexían?
Hver var niðurstaðan, að mati IMF, þegar Ísland loks losnaði úr gjörgæslunni? Mark Flanagan, verkefnisstjóri hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, lýsir því með eftirfarandi orðum:
„Íslandi hefur farið fram á öllum þeim forgangssviðum, sem samið var um. Allt það sem samkomulag var gert um, stóðst. Þegar um ágreining var að ræða, lágu báðar hliðar málsins fyrir, og lausn fannst. Önnur lönd sem fylgja áætlun, segja já, já og já, en gera svo ekki neitt. Þannig var það aldrei á Íslandi“. – Hér kveður heldur betur við annan tón um vinnubrögð og verklag í íslensku stjórnsýslunni heldur en var að venjast fyrir Hrun.
Óleyst vandamál
Gott og blessað, svo langt sem það nær. En hvað má af þessu læra? Þar er efst á blaði okkar óleysta eilífðarvandamál – íslenska krónan, útþynnt og gengisfelld ad infinitum. Staðgengill hennar, verðtryggingarkrónan, veltir allri áhættu okkar sveiflukennda efnahagslífs yfir á herðar skuldara – breytir lántakendum í skuldaþræla, en slær skjaldborg – ekki um heimilin – heldur um fjármagnseigendur.Lausnin – að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru – er því miður ekki fýsilegur kostur að sinni, að fenginni reynslu af hinum glataða áratug evrusvæðisins vegna getuleysis að fást við afleiðingar fjármálakreppu. Hvað segir reynsla norska seðlabankastjórans honum um þessa ráðgátu?
„Sumir segja, að Ísland kenni okkur gildi þess að hafa sveigjanlegt gengi. Það er að nokkru leyti rétt. Víðtæk gengislækkun verður til þess að hægt er að aðlaga í einu lagi kostnaðarliði ,sem annars gætu kallað á mörg hundruð ákvarðanir, pólitíska íhlutun, samninga og þrjósku. Samt skal minnt á, að sveigjanleiki gengisins átti mikinn þátt í að skapa upphaflega vandann. Gengislækkun hefði heldur ekki gagnast að ráði, ef henni hefði ekki verið fylgt eftir með frystingu launa af hálfu aðila vinnumarkaðarins“ (sjá bls. 396-7).
Þetta er vandinn í hnotskurn. Hann er óleystur. Þar til lausnin finnst, verðum við að vona, að gáfnaljósin í peningastefnunefnd geti haldið okkar veikburða fleyi á floti.
Þegar til lengri tíma er litið, er ljóst hvað vantar, að mati Sveins Haralds til þess að langþráður draumur okkar um stöðugleika til frambúðar geti ræst. Gefum Sveini Haraldi lokaorðin (bls.384):
„Það liggur ljóst fyrir hvað vantar, svo að vöxtur verði stöðugur og sjálfbær: fjölbreytni í framleiðsluiðnaði, aukna samkeppni, ákveðna peningastefnu, skýrari tekjustaðla og aðhald í ríkisfjármálum, líklega með stöðugleikasjóð ríkisins til þess að kóróna allt saman. Ísland þarf meira á slíku að halda en önnur ríki. Hvert verður gengið eiginlega, þegar síðasti ferðamaðurinn hættir við að koma“?
Höfundur er fyrrverandi utanríkisráðherra.