LÆRDÓMAR FRÁ LISSABON

Það eru að byrja að kvikna ljós í myrkrinu sem hefur grúft yfir stórum hluta Evrusvæðisins eftir Hrun. Þótt Grikkland sé enn við dauðans dyr og Ítalía í djúpum skít (sokkin í skuldir) eru sum önnur aðildaríki Evrusvæðisins að ná sér. Pólland og Eystrasaltsríkin eru á uppleið (Eistland eins og venjulega í fararbroddi). Eftir sem áður er landflótti unga fólksins viðvarandi vandamál þar. Írland hefur náð sér á strik, þótt það sé enn að sligast undan þungri skuldabyrði. En skærasta ljósið er Portúgal.

Portúgal undir vinstri stjórn er byrjað að blómstra.  Fjölmiðlar, sem bera skynbragð á efnahagsmál (Economist, Spiegel, Financial Times, New York Times o.fl.) eru farnir að taka eftir þessu.  Og flykkjast til Lissabon, eins og við gerðum um jól og nýár.  Mér gekk raunar fleira til.  Á sama tíma og breski verkamannaflokkurinn klúðraði kjörnu tækifæri til að koma Bretum á kjöl eftir Brexit, þýski krataflokkurinn er að veslast upp í pólitísku náttúruleysi og flestir aðrir krataflokkar Evrópu virðast hafa misst af lestinni, blómstrar jafnaðarmannaflokkur Portúgals – Partido Socialista – undir forystu Antonio Costa sem aldrei fyrr.  Mér rann blóðið til skyldunnar að skoða það nánar.

HARMKVÆLI TIL HÆGRI

Portúgalar fóru illa út úr hruninu eins og fleiri.  Bankakerfið var sjúkt.  Fasteignabólan var upp á krít.  Erlendar skuldir hlóðust upp.  Braskið var í algleymi og brotlenti með brauki og bramli.  Þríeykið – framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins, Seðlabanki Evrópu og IMF – tók þá í gjörgæslu.  Bönkunum var bjargað á kostnað almennings.  Skuldir ríkisins hlóðust upp.  Þetta kostaði 78 milljarða evra.  Í kjölfarið fylgdu refsiaðgerðir samkvæmt þýskri formúlu. 

Þeir kalla það „austerity“.  Á íslensku gæti þetta kallast harmkvælapólitík. Formúlan er svona: almenningur á að borga skuldir fjármagnseiganda í hækkuðum sköttum og niðurskurði útgjalda til velferðarmála.  Laun voru lækkuð, lágmarkslaun afnumin, réttindi vinnandi fólks á vinnumarkaði skert.  Atvinnuleysið rauk upp úr öllu valdi, 17%.  Fátæktin skar í augu.  Ríkiseignir voru einkavæddar fyrir slikk.  Þjóðarframleiðslan dróst saman ár frá ári.  Unga fólkið missti vonina og flúði land, einkum þau best menntuðu.  2,3 milljónir Portúgala búa nú utan heimalandsins.  Þetta var púra pólitík, nýfrjálshyggju trúboðið að verki.   

VONIN TIL VINSTRI

Fyrir kosningarnar 2015 voru Portúgalar búnir að fá nóg af þessum trakteringum hægri manna.  Jafnaðarmaður, sem hafði getið sér gott orð, sem atorkusamur og framsýnn borgarstjóri í Lissabon, tók við forystu Partido Socialista.  Hann boðaði gerbreytta stefnu:  Hættum þessum harmkvælum.  Verndum okkar fólk fyrir fjárpynd auðvaldsins.  Hækkum laun.  Lögfestum aftur lágmarkslaun.  Byrjum að fjárfesta í vanræktum innviðum samfélagsins: vistvænni orku, samgöngum, heilbrigðiskerfi og menntun/starfsþjálfun.  Þetta hreif.  Fólkið treysti honum af fyrri reynslu sem borgarstjóra.  Og hann stóð við sitt.  Flokkur hans fékk 32% atkvæða sem dugði til að sameina sundrað vinstrið (gömlu kommarnir og græningjar) og mynda minnihlutastjórn.  Hægri flokkurinn (sem kennir sig í blekkingarskyni við Social Democracy) galt afhroð.  Þríeykinu leist ekki á blikuna.  Fjármálaráðherra Þýskalands, Sauble, spáði Portúgölum þjóðargjaldþroti.  Mamma Merkel sagði þetta vera ógnvænlegar fréttir.  Kröfuhafar fjármagnseiganda ráku upp ramakvein og kröfðust þess að Brussel kæmi vitinu fyrir hina Portúgölnu. Hægri menn heima fyrir sögðu að framundan væri voðinn vís, en vonandi myndi stjórnin springa áður en hún kæmi fram svo róttækum aðgerðum. 

KRAFTAVERK KRATANNA

En Costa og hans menn (ekki síst fjármálaráðherrann Mário Centene sem bar hitann og þungann af fjármálunum) stóðu við stóru orðin og létu hendur standa fram úr ermum.  Þeir stöðvuðu einkavæðinga óðagotið, lögfestu lágmarkslaun, hækkuðu eftirlaun, og veittu himinháum fjárhæðum (á Portúgalskan mælikvarða) til fjárfestinga í innviðum (samgöngukerfi, orkuframleiðsla, starfsþjálfun, sköpun starfa í hátæknigreinum, þar sem þeir hafa náð miklum árangri. Airbus framleiðir nú sínar flugvélavarahluti í Portúgal og háskólinn í Coimbra er í fararbroddi í rannsóknum á gervigreind og sjálfvirkni.  Fór Portúgal á hausinn?  Nei, Portúgal setti Evrópumet í hagvexti.  Hallinn á ríkisfjármálum fór í fyrsta sinn eftir byltinguna ´74 undir 1% af VLF. Á næsta ári verður ríkissjóður rekinn með afgangi í fyrsta sinn í mannaminnum.  Atvinnuleysið lækkaði úr 17% í 6% og er á niðurleið.  Er þetta allt krötunum að þakka? Æ fleiri innanlands og utan virðast vera þeirra skoðunar.  Þingkosningar verða í október á þessu ári.  Jafnaðarmannaflokkurinn fékk 38% fylgi í kosningunum til Evrópuþingsins í fyrra og er spáð yfir 40% fylgi – og stjórnarflokkunum til samans allt að 60% fylgi. 

Voru þeir heppnir?  Já, líka það, eins og við.  Túristar flykkjast nú til Portúgal (rétt eins og til Íslands).  M.a. vegna þess að Egyptaland og Tyrkland teljast nú vera hættusvæði.  En líka vegna þess að Portúgal blómstrar undir viti borinni viðreisnarstjórn vinstri afla.  Eru ekki einhverjir veikleikar? Jú, ekki síst skuldabyrðin sem hægri stjórnin skyldi eftir sig og ofvaxið og sjúkt fjármálakerfi þar líkt og hér.  En öflugra atvinnulíf, stórauknar erlendar fjárfestingar, hraðvaxandi útflutningstekjurog stóraukin kaupmáttur sem heldur uppi hagvexti þýðir að Portúgalar eru nú að flestra mati borgunarmenn fyrir sínum skuldum. 

Þegar við kvöddum Lissabon sá ég uppi á vegg snjáð kosningaplakat með mynd krataforingjans Costa (hann lítur út eins og góðlátlegur öldungur) þar sem sagði „„austeridade“ er vitlaust læknisráð við kreppu.  Það gerir illt verra.  Brjótumst út úr vítahringnum og endurvekjum vonina“.  Þetta var að vísu á portúgölsku en multi-lingua Kolfinna þýddi það fyrir mig.  Costa hefur tekist þetta.  Þar að auki er þetta sannprófuð hagfræði – púra Keynes. Allt eins og talað út úr mínu hjarta.  Svona eiga krataforingjar að vera. 

Höfundur var formaður Alþýðuflokksins 1984-96