Norrænt velferðarríki eða arðrænd nýlenda?

Í rökræðum sínum um auðlindastefnu í skugga Samherjamálsins í Silfri Egils þann 8. des.s.l. vakti það athygli mína, að hvorki stjórnandinn né viðmælendur hans nefndu einu orði hugtakið „auðlindarenta“. Merkilegt nokk, af því að auðlindarentan og ráðstöfun hennar er það sem málið snýst um. Það gefur tilefni til fáeinna athugasemda í því skyni að reyna að setja málið í stærra samhengi.

1. Þorskastríð og svartar skýrslur

Á seinni hluta seinustu aldar háðu Íslendingar þrenn þorskastríð við Breta og fleiri þjóðir um forræði yfir auðlindum sjávar við strendur Íslands. Sumir hafa kallað það hina eiginlegu sjálf-stæðisbaráttu okkar. Við unnum þessi stríð. En við höfðum varla fyrr unnið en fyrstu skýrslur fiskifræðinga um yfirvofandi hrun helstu nytjastofna vegna ofveiði birtust. Hrun þorskstofnsins á hinum gjöfulu Nýfundnalandsmiðum var víti til varnaðar. Það var orðið óumflýjanlegt að tak-marka sókn í auðlindina. Við þreifuðum okkur áfram. Svokallað „skrapdagakerfi“ var reynt en reyndist illa.

2. Aflamarkskerfi með framsali

Niðurstaðan varð að lokum (1983-91) aflamarkskerfi með framsalsrétti. Tilgangurinn var tví-þættur: Að stöðva ofveiði – fyrirbyggja útrýmingu nytjastofna – með því að takmarka sókn. Og að draga úr sóknarkostnaði – auka arðsemi – með því að sækja takmarkaðan afla með færri skipum og minni tilkostnaði. Þetta kerfi hefur nú verið við lýði í tæpa þrjá áratugi. Það hefur skilað tilætluðum árangri. Veiðarnar teljast vera sjálfbærar (út frá líffræðilegu sjónarmiði) og arðsemi þessa helsta útflutningsatvinnuvegar þjóðarinnar hefur stóraukist.

En þetta gerðist ekki sársaukalaust. Fórnarkostnaðurinn birtist í samþjöppun veiðiheimilda og byggðaröskun. Mörg sjávarpláss töpuðu veiðiheimildum, með atvinnuleysi og verðfalli eigna í kjölfarið. Það skorti löggjöf um samfélagslega ábyrgð fyrirtækjanna, sem keyptu upp veiði-heimildirnar. Norðmenn sáu þetta fyrir heima hjá sér og leiddu í lög margvíslegar skyldur fyrir-tækja við byggðarlög. Við sinntum því ekki. Vestfirðir hafa orðið harðast úti af þessum sökum.

3. Auðlindarentan

Afnám frjálsrar sóknar og skömmtun ríkisins á úthlutun veiðiheimilda er byltingarkennd breyt-ing á atvinnuháttum þjóðar, sem byggir afkomu sína – ekki síst landsbyggðarinnar – á sjávarút-vegi. Við það að ríkið skammtar aðgang að auðlindinni verða til eftirsóknarverð sérleyfi, sem eru mikið fémæti. Frjáls sókn þýddi áður harða samkeppni, fjölgun skipa og aukinn kostnað við að veiða minnkandi afla. Þetta át upp allan hagnað. Stjórnlaus sókn endaði í taprekstri allra. Þegar tapreksturinn keyrði úr hófi, var gengið fellt eftir þörfum. Rányrkja og reglubundið kaup-rán í formi síendurtekinna gengisfellinga, voru okkar ær og kýr.

Takmörkuð sókn forðaði ofveiði. Framsalsréttur stuðlaði að sérhæfingu, dró úr sóknarkostnaði og jók arðsemi. Auðlindarentan er arðurinn, sem eftir stendur, þegar allur kostnaður hefur verið greiddur: Laun, annar rekstrarkostnaður, afborganir af lánum, fjárfestingarkostnaður, afskriftir fastafjármuna og hagnaður eigenda. Þetta er auðlindarentan, sem áður varð að engu í takmarka-lausri sókn. Hver á að njóta hennar? Það er stóra spurningin, sem um er deilt. Og það eru gríðar-legir hagsmunir í húfi.

4. Gjafakvótar og skömmtunarvald

Það er óumdeilt, að sérleyfi fyrir aðgang að takmarkaðri auðlind (einkaleyfi án samkeppni) fela í sér gríðarlegt fémæti. Lögum samkvæmt er þjóðin (ríkið fyrir hennar hönd) eigandi auðlindar-innar. Er það ekki sanngjörn krafa, að eigandinn fái greitt fyrir afnot að auðlindinni? Hversu mikið? Í markaðshagkerfi svarar markaðurinn þeirri spurningu. Við uppboð veiðiheimilda svara fyrirtækin því, hversu mikið þau eru tilbúin að greiða fyrir sérleyfið. Þetta er sú leið, sem Norð-menn hafa farið við nýtingu þjóðarauðlinda sinna í olíu og gasi.

Norska þjóðin á auðlindina. Nýtingarrétturinn er boðinn upp á markaði. Arðurinn (auðlindarent-an) rennur í þjóðarsjóð. Sá þjóðarsjóður er nú stærsti fjárfestingarsjóður í heimi. Norska ríkið er skuldlaust. Norska velferðarríkið stendur traustum fótum og er talið til fyrirmyndar á heimsvísu. Engum (nema ritstjóra Morgunblaðsins, sem er gefið út af sérleyfishöfum) dettur í hug, að kalla gjaldtöku fyrir nýtingarheimildirnar skattlagningu. Þaðan af síður skattlagningu á landsbyggð-ina, sem öðrum fremur nýtur góðs af þjóðarsjóðnum. Þetta er bara bull.

5. Er Saudi-Arabía okkar fyrirmynd?

Saudi-Arabía býr yfir gríðarlegum auðæfum í formi náttúruauðlinda (olía og gas). Allur arður af nýtingu þessara auðlinda rennur í sjóði konungsættarinnar. Þar er reyndar enginn ríkissjóður. Sjóðurinn sem þjónar því hlutverki, heitir „The Royal Purse“ – hin konunglega pyngja. Úthlutun úr honum er að geðþótta hans hátignar. Sömu sögu er að segja um hin arabísku furstadæmin. Svipaða sögu er að segja um hin nýfrjálsu ríki Afríku, t.d. Nígeríu og Angólu. Þessi ríki búa yfir gríðarlega verðmætum og eftirsóttum auðlindum. Arðinum er skipt milli gerspilltrar yfirstéttar og fjölþjóðlegra auðhringa, sem greiða mútur sínar inn á leynireikninga bófanna í skattaskjólum fyrir arðránsréttinn. Samherjamálið, sem nú er afhjúpað, er pínulítið sýnishorn af því, hvernig kaupin gerast á eyrinni. Það er þess vegna sem spurningin í fyrirsögn þessarar greinar, varðar kjarna málsins: Viljum við vera til frambúðar norrænt velferðarríki (hliðstætt Noregi) eða arð-rænd nýlenda í eigin landi?

6. Auðlindarentan – „how much?“

Hvað erum við að tala um háar fjárhæðir? Það er til marks um sjúskið í íslenskri stjórnsýslu, að við vitum það ekki fyrir víst. Ef allt væri með felldu hefði Þjóðhagsstofnun (munið þið eftir henni?) reiknað út upphæð auðlindarrentunnar ár frá ári og birt í ársskýrslum sínum um afkomu atvinnuveganna. En því er ekki lengur að heilsa. Ástæðan er sú, að geðríkur ofstopi á stóli for-sætisráðherra fór einhvern tíma í fýlu, af því að honum mislíkaði þjóðhagsspáin og lagði niður Þjóðhagsstofnun. Og var látinn komast upp með það. Hugsið ykkur geðlurðuhátt Alþingis! Geð-þóttaákvarðanir af þessu tagi eru alsiða í Afríku, en óhugsandi á Norðurlöndum – nema á Íslandi. Og Alþingi lætur bjóða sér þetta.

Höfum við einhverjar áætlanir við að styðjast um heildarupphæð auðlindarrentunnar á s.l. tveimur áratugum? Sérfræðingar, eins og t.d. Jón Steinsson, hagfræðiprófessor hjá Yale, Indriði H. Þorláksson, fv. ríkisskattstjóri og töluglöggir stjórnmálamenn eins og t.d. Kristinn H. Gunn-arsson, fv. alþingismaður, hafa í skrifum sínum á undanförnum uppgangsárum stórfyrirtækjanna í íslenskum sjávarútvegi áætlað auðlindarrentuna á bilinu 40 – 50 milljarða á ári. Ef við tökum lægri töluna sem dæmi, þýðir það, að auðlindarrentan hafi numið 800 milljörðum króna á und-anförnum tveimur áratugum. Sum árin meira, önnur minna. Á sama tíma hefur gjaldtaka í formi veiðileyfa sjaldnast dugað til að dekka kostnað samfélagsins af þjónustu við sjávarútveginn. Auðvitað er ekki boðlegt að hafa uppi getgátur af þessu tagi um undirstöðustærðir í þjóðarbú-skap okkar. Við eigum að vita þetta fyrir víst. Hvers vegna lætur Alþingi – sem á að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu – bjóða sér þetta?

7. Hin nýja stétt

Ef áðurnefndar tölur eru vísbending um, hvernig fáeinar fyrirtækjasamsteypur í meirihlutaeign fárra fjölskyldna (meira en helmingur veiðiheimilda í eigu fimm aðila), hafa komist upp með það í skjóli pólitísks valds, að ræna þjóðina arðinum af helstu auðlind sinni, þá er það ekki ofmælt hjá Stefáni Jóni Hafstein í ágætri grein (Tímarit M&m, 2011) að kalla Ísland „rányrkju-bú“. Við erum þá aftur orðin nýlenduþjóð í eigin landi. Spillingin sem hér þrífst er þá í grund-vallaratriðum sambærileg við það sem viðgengst í gerspilltum alræðisríkjum Arabaheimsins eða í hinum nýfrjálsu ríkjum Afríku. Kveikjan að tímaritsgrein Stefáns Jóns Hafstein var einmitt reynsla hans sem fulltrúi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í sunnanverðri Afríku (þ.á.m. í Namibíu).

Skalinn á þeim auðæfum, sem hér er ráðstafað í skjóli pólitísks valds er þá slíkur, að okkar veik-burða lýðræði fær ef til vill ekki við þetta ráðið, úr því sem komið er. Auði fylgja völd. Ofurauði fylgja, þegar verst gegnir, alræðisvald. Stjórnmálaflokkarnir verða háðir þessu valdi. Frambjóðendur í prófkjörum, sérstaklega í landsbyggðarkjördæmunum, mega sín lítils án atbeina þessa valds. Veikburða fjölmiðlar eru háðir þessu valdi. Litlu fyrirtækin – leiguliðarnir í sjávarútveginum – eiga allt sitt undir þessu valdi. Við svona kringumstæður breytist lýðræðið fyrr eða síðar í sýndarveruleika . Auðræði tekur við.

8. Nú er hún Snorrabúð stekkur

Árið 1976, eftir að fyrsta svarta skýrslan um yfirvofandi hrun fiskistofna, birtist, samþykkti flokksþing Alþýðuflokksins ályktun með ýtarlegri greinargerð um auðlindastefnu flokksins. Bæklingurinn er mér ekki handbær, en kjarni málsins var þessi: Auðlindir landsmanna til sjós og lands, utan skilgreindra marka einkaeignarréttar, skulu að lögum vera sameign þjóðarinnar. Þetta á við um landið sjálft, utan endimarka bújarða. Þetta á við um nytjastofna í fiskveiðilög-sögunni og auðæfi á sjávarbotni. Og þetta á við um orkuauðlindirnar og um vatnið. Þetta er allt í anda sígildrar jafnaðarstefnu, eins og hún birtist okkur í framkvæmd á Norðurlöndum.

Það var með vísan til þessarar framtíðarstefnumörkunar, sem við jafnaðarmenn settum sameign-arákvæðið á sjávarauðlindinni í 1. grein fiskveiðistjórnunarlaganna að skilyrði fyrir samþykki kvótakerfisins árið 1988. Og festum þá grundvallarreglu í sessi með varúðarákvæðinu við sam-þykkt framsalsréttarins um, að tímabundin úthlutun veiðiheimilda myndi aldrei lögvarinn eign-arrétt né skaðabótaskyldu á hendur ríkinu síðar meir. Án þessara lagaákvæða, sem sett voru að okkar frumkvæði, væri baráttan fyrir gjaldtöku fyrir nýtingu auðlinda Íslands þegar töpuð.

Vegna þessarar varðstöðu okkar um þjóðarhagsmuni er stríðið enn ekki tapað.

Við minnumst þess með ánægju frá þessum tíma, að þá áttum við jafnaðarmenn bandamenn í baráttunni fyrir þessum málstað, sem voru ritstjórar Morgunblaðsins, þeir Matthías Jóhannessen og Styrmir Gunnarsson. Það má því segja, að nú sé hún Snorrabúð stekkur, þegar Morgunblaðið er orðið að purkunarlausum áróðursmiðli fyrir sérhagsmunum sægreifanna, sem borga með brosi á vör fyrir hallarekstur blaðsins undir ritstjórn fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins.

Það er því vægast sagt ankannalegt, að Styrmir Gunnarsson skuli varla opna svo munninn um þau mál, sem hér hafa verið gerð að umtalsefni, án þess að halda því fram, gegn betri vitund og til að bera blak af Sjálfstæðisflokknum, að vinstristjórn Steingríms Hermannssonar (1988-91) beri á því alla ábyrgð að hafa leitt hina nýju auðstétt til valda á Íslandi.

9. Að flýja ábyrgð og kenna öðrum um

Styrmir spyr, hvers vegna vinstristjórnin lagði ekki á veiðileyfagjöld, um leið og framsalið kom til framkvæmda (1991). Svar: Vegna þess að andlag veiðileyfagjalds – auðlindarrentan – var ekki til. Það tók sjávarútveginn nokkur ár að gera upp skuldir eftir fjárfestingafyllirí fyrri ára og að ná sér á strik eftir aflabrest og versnandi viðskiptakjör kreppuáranna 1988-94. Til að hraða batahorfum lagði Viðeyjarstjórnin á „þróunargjald“. Það rann í sjóð til að standa undir úreld-ingu flotans og þar með lækkun sóknarkostnaðar. Það var ekki fyrr en þessar aðgerðir voru farnar að bera árangur, þegar nær dró aldamótum; og EES-samningurinn var farinn að ryðja brautina fyrir nýju hagvaxtarskeiði, sem auðlindarrentan fór að skila sér. Og þar með forsend-urnar fyrir auðlindargjaldi. Þá naut Alþýðuflokksins ekki lengur við í ríkisstjórn.

Hér kemur listinn yfir þá sjávarútvegsráðherra, sem bera á því ábyrgð, að veiðileyfagjaldið hefur aldrei risið undir nafni – verið nánast til málamynda – og varla dugað fyrir samfélags-kostnaði af sjávarútveginum. Þeir heita: Þorsteinn Pálsson, Árni Mathiesen, Einar Guðfinnsson, Steingrímur J. Sigfússon, Jón Bjarnason, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Kristján Þór Júlíusson. Kannski gleymi ég einhverjum. Ég kannast ekki við, að þarna sé neina jafnaðarmenn að finna.

Kannski Styrmir vilji skella skuldinni á þá Steingrím J. og Jón Bjarnason. En erum við ekki einmitt að komast að því þessi dægrin, að Vinstri græn eru hvorki græn né til vinstri? Þau koma mér nú orðið fyrir sjónir sem pólitískir sveimhugar, sem sætta sig við að vera til skrauts í póli-tískum sýndarveruleika. Hvað liggur eftir þau til að bæta meinsemdir og auka jöfnuð í okkar þjóðfélagi?

Jú, víst eitt: Steingrímur J. Sigfússon reyndist búa yfir þrjósku sauðkindarinnar og seiglu útkjálkamannsins sem fjármálaráðherra við að hreinsa út skítinn eftir flottræfilsbruðl hrunverja íhalds og framsóknar. Það verður aldrei af honum skafið. Þar fyrir utan er hann hvorki vinstri né grænn, heldur stóriðjusinni og varðhundur landbúnaðarkerfis, sem náttúruvísindamenn telja helsta eyðingarafl okkar viðkvæma gróðurfars vegna ofbeitar og uppblásturs.

10. Seinustu forvöð?

Sannleikurinn er sá, að þótt Ísland sé dæmigert auðlindahagkerfi, hafa ráðandi öfl ekki markað þjóðinni neina trúverðuga auðlindastefnu til frambúðar. Við, jafnaðarmenn, vorum eini stjórn-málaflokkurinn sem það gerði og fylgdi því eftir, meðan við fengum því ráðið. Það kemur því úr hörðustu átt, þegar helsti hugmyndafræðingur gamla Sjálfstæðisflokksins, sem nú er ekki lengur til, ber okkur á brýn að hafa brugðist í þessu máli. Það er einfaldlega ósatt.

Mér sýnist, með vísan til þess sem að framan er sagt, að íslenska þjóðin standi nú á tímamótum, þar sem reyna muni á styrk lýðræðisins – þjóðarviljans – í reynd. Ég spurði í upphafi, samanber fyrirsögn greinarinnar, hvort við viljum heldur skipa okkur í sveit með hinum norrænu velferð-arríkjum eða una því að vera, nauðug viljug, arðrænd nýlenda í eigin landi. Næstu kosningar eiga að snúast um fátt annað. Kannski verða þær kosningar seinasta tækifærið sem við fáum til að reka af okkur slyðruorð þrælsóttans (svo að ég vitni til orða frænda míns Bergsveins Birgis-sonar (höfundar Svarta víkingsins), sem ættaður er af Norðurströndum).

Höfundur var formaður Alþýðuflokksins – Jafnaðarmannaflokks Íslands – 1984-1996.

Kjarninn, 14. desember 2019.