Rökræða um framtíðina

ALÞJÓÐLEG SAMTÖK áhugafólks um borgaralaun (Basic Income Earth Network – BIEN) skilgreina almenn borgaralaun með eftirfarandi hætti: Borgaralaun eru tiltekin fjárupphæð greidd reglulega (mánaðarlega) öllum á einstaklingsgrundvelli, án tillits til efnahags og án skilyrða (t.d. tekjutenginga) og vinnukvaðar. Áherslan er m.ö.o. á sameiginleg borgaraleg réttindi til aðgreiningar frá styrkjum eða bótum, sem eru greiddar þeim sem sannanlega eru þurfandi.

Hugmyndin er engan veginn ný af nálinni. En það eru ýmsar veigamiklar ástæður fyrir því að áhugi á þessari hugmynd hefur vaknað á ný, svo mjög að til er orðin alþjóðleg hreyfing til að vinna hugmyndinni framgang, einnig með félag hér á landi. Veirufaraldurinn sem nú herjar á mannkyn hefur afhjúpað hversu innbyrðis tengt og brothætt heimskerfið er. Það hefur vakið marga til umhugsunar um, hvort almenn borgaralaun séu hugmynd, hvers tími er nú í nánd. En meginástæðurnar eru eftirfarandi:

  1. TÆKNIBYLTING: Við lifum á tímum örra tæknibreytinga. Fjórða iðnbyltingin er á fullu allt í kringum okkur. Hún mun fyrirsjáanlega hafa djúpstæð áhrif á samfélagsgerð okkar og lifnaðarhætti. Athyglin beinist að margvíslegum áhrifum gervigreindar og sjálfvirknivæðingar. Fyrir liggja áætlanir um að allt að helmingur þeirra starfa sem við þekkjum í dag, verði ekki lengur til innan fárra áratuga. Enginn veit með vissu hvort þessar áætlanir standist. Reynslan af fyrri stigum iðnbyltingarinnar sýnir að ný störf hafa orðið til fyrir áhrif tæknibreytinga sem leystu hin gömlu af hólmi. En nú er talað um að vélmennin leysi mannshöndina af hólmi. Það vekur upp margar spurningar, þar með talið spurninguna um: Hverjir munu eiga vélmennin? Hverjir fjármagna tæknibyltinguna? Mestan part eru það stjórnvöld (skattgreiðendur). Hverjir eiga að uppskera ávinninginn? Fámennur hópur fjármagnseigenda eða allur almenningur? Það er kominn tími til að svara spurningum af þessu tagi. Framundan eru róttækar breytingar á vinnumarkaði sem munu ráða miklu um atvinnustig, vinnutíma, tekjuskiptingu og starfshætti velferðarríkisins.
  2. HNATTVÆÐING: Önnur megin ástæða snýst um samtvinnuð áhrif ráðandi hugmyndafræði – nýfrjálshyggjunnar – og hnattvæðingar. Áhrif hnattvæðingar á vinnumarkað á Vesturlöndum lýsa sér m.a. í því að tveir milljarðar láglaunafólks hafa á skömmum tíma bæst við vinnumarkað heimsins í þróunarlöndum (Kína, Indland o.fl.). Frjálst flæði fjármagns hefur stuðlað að flutningi á framleiðslustarfsemi til láglaunasvæða og flutningi fólks þaðan, sem undirbjóða kjör á vinnumarkaði ríku landanna. Vesturlönd eru að afiðnvæðast. Allt hefur þetta dregið úr getu þjóðríkjanna til að tryggja þegnum sínum félagslega vernd á umbrotatímum.
  3. NÝFRJÁLSHYGGJAN: Við þetta bætast áhrif nýfrjálshyggjunnar: Markaðsöfl hafa verið leyst úr læðingi leikreglna og eftirlits af hálfu ríkisins; fjármagnið flæðir þangað sem lægri laun eða skattfríðindi eru í boði.  Hinn faldi auður þjóðanna, með skráð eignarhald og heimilisfesti í skattaskjólum, hefur með „skattasamkeppni niður á við“ kippt fjárhagsstoðum undan velferðarríkjunum. Skattapardísir hinna ofurríku nálgast nú að verða þriðja stærsta hagkerfi heimsins. Einkavæðing ríkisstofnana í stórum stíl, einkum varðandi auðlindanýtingu og félagslega þjónustu, sem áður var rekin utan einkageirans og án hagnaðarsjónarmiða, hefur skapað nýja stétt kapítalista. Þeir hafa tryggt sér einkaáskrift að þjónustu við almenning (orka, vatn, einkaleyfi (patent), upplýsingaiðnaðurinn, o.fl.). Þessu er helst að líkja við lénsaðal fyrri tíma, sem hafði lagt undir sig alla landareign og heimti leigutekjur af ánauðugum leiguliðum. Tekjur án vinnuframlags eru vaxandi hluti auðsöfnunar í þessari tegund kapítalisma.
  4. NÝ ÖREIGASTÉTT: Til er orðin ný „öreigastétt“ sem nýtur takmarkaðrar félagslegrar verndar, hvort heldur er á vinnumarkaðnum eða af hálfu þjónustustofnana ríkisins. Þetta fólk er ýmist án atvinnu eða í óvernduðum hlutastörfum, án umsaminna réttinda af hálfu stéttarfélaga (enginn uppsagnarfrestur, engin lífeyrisréttindi o.s.frv.).  Þetta er að gerast í hinum „ríku“ samfélögum Evrópusambandsins. Atvinnuleysi ungs fólks er í sumum tilvikum frá þriðjungi til helmings fólks á vinnualdri. Heildarniðurstaðan er sú að á tímabili nýfrjálshyggjunnar (s.l. fjóra áratugi) hefur orðið gríðarleg tilfærsla auðs og valda frá handhöfum vinnuaflsins til eigenda fjármagnsins, þar sem fjármálastofnanir hafa vaxið raunhagkerfinu gjörsamlega yfir höfuð. Þegar árið 2015 áttu 62 einstaklingar, skv. Oxfam, jafnmikinn auð og hinn efnaminni helmingur mannkynsins. Ríkasta eina prósentið átti jafnmikinn auð og afgangurinn af mannkyninu.
  5. VELFERÐARRÍKIN EIGA Í VÖK AÐ VERJAST: Þau eru víðast hvar í fjársvelti, undirmönnuð, þar sem biðlistarnir lengjast sífellt og einkarekin þjónustufyrirtæki hlaupa í skarðið til að þjónusta hina ríku. Þetta ýtir undir það að velferðarþjónustan er í vaxandi mæli skert og skilyrt. Viðtakendur verða að sanna fátækt sína. En þeim er harðlega refsað ef þeir afla viðbótartekna og festast því í „fátæktargildru“ eða freistast til að leita eftir svartri vinnu. Þessu fylgir mikil skriffinnska og oft niðurlægjandi framkoma af hálfu kerfisins við skjólstæðinga sína.

Í ljósi alls þessa er skiljanlegt að menn leiti nýrra lausna. Það er skýringin á vaxandi áhuga á borgaralaunum sem róttækri kerfisbreytingu.

KOSTIRNIR: Höfuðkosturinn er talinn vera sá að þarna er ekki farið í manngreinarálit. Allir eiga borgaralegan rétt á lágmarkslaunum, e.t.v. breytilegar upphæðir eftir aldri og hjúskaparstöðu, en óafturkræft og án skilyrða. Engar refsingar fyrir að afla meiri tekna, engin fátæktargildra. Lágmarksskriffinnska. Kerfið er einfalt í framkvæmd. Þar með hafa allir sameiginlegan grunn til að standa á í lífsbaráttunni. Aukið valfrelsi telst til kosta kerfisins. Með því að lágmarksafkoma er tryggð er aukið valfrelsi til að leita eftir vinnu að eigin vali og afla þar með viðbótartekna. Atvinnurekendur verða undir þrýstingi um að bjóða áhugaverð störf, ella verði þeim hafnað. Það er engin nauðung að taka hvaða starfi sem er. Allt telst þetta til áhugaverðra kosta.

GAGNRÝNI: En þetta er ekki gallalaus lausn. Fyrsta gagnrýna spurningin sem kemur upp í hugann er þessi: Hvers vegna ætti samfélagið að borga fólki fyrir að gera ekki neitt? Við höfum vanist þeirri hugsun að réttindum fylgi skyldur. Og að launafólk standi sjálft undir flestum áunnum réttindum sínum. Vinnandi fólk borgar í sjóð til að tryggja sig fyrir atvinnuleysi. Grundvallarreglan er gagnkvæmni. Við borgum ýmist iðgjöld eða skatta og fáum í staðinn gjaldfrjálsan aðgang að menntun og heilbrigðisþjónustu. Vinnandi fólk er veitendur, ekki þiggjendur. Það hefur hingað til verið mórall verkalýðshreyfingarinnar. Mórall sem hefur orðið til í hörðum skóla lífsbaráttu fyrri tíðar.

ÖNNUR SPURNING: Hvers vegna á að borga þeim peninga, sem þurfa ekkert á þeim að halda? Svar: Af því að þetta eru mannréttindi en ekki ölmusur, auk þess sem það einfaldar framkvæmdina. Þar að auki er sagt að hinir ríku muni endurgreiða sín borgaralaun og gott betur með sínum háu sköttum. En þar bregðast rökin hrapalega.

Þessi hugsun byggir á þeirri forsendu að skattkerfið sé stighækkandi (progressívt) eftir efnum og ástæðum. En eftir áratuga forræði nýfrjálshyggumanna í hinum ríku þjóðfélögum er skattkerfið í vaxandi mæli orðið „regressívt“ (það þýðir að hinir efnaminni borga hærra hlutfall af tekjum sínum í skatt en hinir ríku).

NIÐURSTAÐA: Að óbreyttu skattkerfi er ólíklegt að hugmyndin um almenn borgaralaun njóti nægilegs stuðnings. Framkvæmdin er því háð að hún byggi á solidariteti „samhyggð“ með hinum verst stöddu. Það er frumskilyrði þess að almenningur sætti sig við hærri skatta til að fjármagna þau. Þá fyrst, þegar við höfum breytt skattkerfinu, geta borgaralaun stuðlað að auknum jöfnuði í þjóðfélaginu. Það kallar á pólitíska samstöðu. 

NORRÆNA MÓDELIÐ: Það vekur athygli að þau velferðarríki, sem fremst standa í heiminum – Norræna samfélagsmódelið – hafa ekki tekið upp borgaralaun. Samt hafa þau, fyrir áhrif verkalýðshreyfinga og jafnaðarmannaflokka, skapað þau þjóðfélög, sem að flestra mati þykja eftirsóknarverðust fyrirmynd í samtímanum, þar sem saman fer hagkvæmni og jöfnuður. Skv. norræna módelinu er verulegum fjármunum varið til að tryggja hinum verst settu lágmarksafkomutryggingu. Þar sem tiltölulega fáir eiga í hlut er þessi afkomutrygging mun hærri en flestar hugmyndir um borgaralaun hafa snúist um hingað til. Takmörkuðum fjármunum er með öðrum orðum betur varið en ef þeim væri skipt milli allra, líka þeirra sem sannanlega þurfa ekki á þeim að halda. Og það eru engar skerðingar vegna tekjuöflunar samkvæmt norræna módelinu.  Engar skerðingar og engin skilyrði. Bæturnar eru skilgreindar sem mannréttindi og rökstuddar á grundvelli reglunnar um gagnkvæmni. Við leggjum öll fram okkar skerf til sameiginlegra þarfa. Og við njótum öll góðs af, að allir njóti góðrar menntunar og njóti góðrar heilsu.

GEGN SKRIFFINNSKU OG ÖLMUSU: Hinar öru tæknibreytingar raska ekki bara óbreyttu ástandi heldur koma að góðum notum til að bæta úr ágöllum þess. Upplýsingatæknin gerir okkur nú kleift að beina takmörkuðu fjármagni til þess að leysa þarfir hinna verst settu, án þess að því fylgi niðurlægjandi yfirheyrslur eða óþarfa skriffinnska. Enda er það einkum í þeim þjóðfélögum, sem verst hafa verið leikin á undanförnum áratugum af pólitískum veirufaraldri nýfrjálshyggjunnar, þar sem hugmyndin um borgaralaun, róttæka kerfisbreytingu, nýtur helst stuðnings. Það er í Bandaríkjunum og á Bretlandseyjum.

***

EFTIR STENDUR SPURNINGIN: Hverjir eiga að borga? Hingað til hafa sósíaldemókratar svarað þessari grundvallarspurningu með eftirfarandi hætti: Við borgum inn í sameiginlega sjóði eftir efnum og ástæðum. Það stenst því miður ekki lengur af því að skattkerfið er ekki lengur prógressívt (eftir efnum og ástæðum) heldur þvert á móti. Ritarinn borgar hærra hlutfall af launum sínum í skatt en forstjórinn. Fjármagnstekjur bera lægri skatta en laun fyrir vinnu. Á tímabili nýfrjálshyggjunnar hafa hinir ofurríku sagt sig úr lögum við samfélagið. Þeir borga víðast hvar í hinum ríku þjóðfélögum lægra hlutfall af tekjum sínum en launþegar. Og hinir ofurríku borga í reynd enga skatta vegna fjárflóttans í skattaskjól. En njóta í mörgum tilvikum dulinna niðurgreiðslna og styrkja í skjóli ríkisvaldsins.

SAMKEPPNI ÞJÓÐRÍKJANNA um fjárfestingar og atvinnusköpun knýr þau í vaxandi mæli til að bjóða fyrirtækjum vildarkjör ýmist í formi lægri skatta eða jafnvel beinna styrkja. Þetta þýðir að óbreyttu að millitekjuhópnum (millistéttinni) verður ætlað að fjármagna borgaralaunin. Hinir ofurríku munu að óbreyttu ekki borga sinn skerf. Þar með er hætt við að samstaða almennings bresti; að umbætur, sem í upphafi áttu að auka þjóðfélagslega samstöðu, kyndi undir sundrungu og sundurvirkni. Er þá ekki verr af stað farið en heima setið?

EITT ER VÍST: Þeir sem vilja beita sér fyrir borgaralaunum, sem róttækri kerfisbreytingu á augljósum göllum velferðarþjónustunnar, verða að gera nákvæma grein fyrir því, hvað einstakir þjóðfélagshópar leggja af mörkum og hvað þeir fá í staðinn. Það reikningsdæmi mun nefnilega leiða í ljós að við þurfum pólitískan vilja til að gera grundvallarbreytingar á skattkerfinu til þess að auka jöfnuð í tekju- og eignaskiptingu. Annað væri að byrja á öfugum enda.

Og að því er varðar nýtingu á sameiginlegum auðlindum okkar þjóðar, hafa frændur okkar Norðmenn gefið heiminum gott fordæmi til eftirfylgni. Auðlindarentan hefur þar í landi runnið í þjóðarsjóð, sem nú er öflugasti fjárfestingarsjóður heims. Þeir yrðu því ekki í vandræðum með að svara spurningunni um, hvernig á að fjármagna borgaralaun. En það mun vefjast meira fyrir okkur, sem höfum látið það líðast að auðlindarentunni er að stærstum hluta úthlutað til fáeinna fjölskyldna í skjóli pólitísks valds. Byrjum á byrjuninni, breytum því fyrst. Svo skulum við ræða um borgaralaunin í framhaldinu.

Jón Baldvin Hannibalsson

Höfundur var formaður Alþýðuflokksins 1984 – 1996 og fjármálaráðherra í fjórtán mánuði.