AÐ SKJÓTA FYRST EN SPYRJA SVO

Í tilefni af helgarblaðsviðtali Fb. 16. jan.við Rögnu B. Björnsdóttur, sem kynnt er til sögunnar sem fyrrv. frambjóðandi Kvennalistans, vil ég taka fram eftirfarandi:

Blaðamaður  beindi nokkrum fyrirspurnum til mín um efnið, sem var óhróður um mína persónu, og krafðist svara í tímapressu. Hún fékk svör svo til samstundis, enda hafa þau legið fyrir lengi, aðgengileg fyrir áhugasama. En þótt blaðamaður hafi beðið um og fengið svör, stakk hún efni þeirra undir stól og lét nægja að vísa til þess, hvar þau mætti finna. Vegna þessara vítaverðu vinnubragða beini ég þeirri sjálfsögðu kröfu til ritstjóra Fréttablaðsins, Jóns Þórissonar, að hann birti svörin í næsta tölublaði Fréttablaðsins. Af tillitssemi við ritstjóra fylgja svörin hér með, í styttri útgáfu.

„Hópur kvenna hefur sem kunnugt er birt opinberlega frásagnir sínar af samskiptum sínum við mig (og Bryndísi konu mína í 9 tilvikum) á undanförnum árum. Sumar þeirra taka ábyrgð á orðum sínum með því að vitna undir nafni. Þeim hef ég þegar svarað (sjá www.jbh.isSöguburður).

Hinar – 16 talsins – fela sig undir nafnleynd. Ýmsir fjölmiðlar hafa birt þessar sögur, athugasemda – og gagnrýnilaust. Sameiginlega er þessum sögum ætlað að duga til að ræna mig og konu mína mannorðinu og útskúfa okkur úr íslensku samfélagi. Af þessu tilefni höfum við Bryndís höfðað meiðyrðamál á hendur RÚV (og heimildakonu þess til vara) um svívirðilegustu ásakanirnar. Vonir okkar standa til þess, að óhlutdrægur dómari, skeri úr um sannleiksgildið. Það bíður síns tíma.

Í upphafi taldi ég mig vera varnarlausan, líkt og jafnan er um þá, sem vegið er að úr launsátri. En við nánari skoðun kom á daginn, að unnt var að sannreyna eina söguna út frá stað og stund. Sú saga reyndist vera hreinn skáldskapur. Þá vaknaði spurningin: Gegnir sama máli um allar hinar? Svarið við þeirri spurningu er þetta :

Vandleg skoðun og könnun á staðreyndum og sannleiksgildi fullyrðinga leiðir í ljós, að tólf af sextán þessara frásagna eru sannanlega uppspuni eða fá ekki staðist, af öðrum tilgreindum ástæðum. Hinar sem eftir standa eiga það sammerkt, að þar er ekkert sem hönd á festir – hvorki hvar eða hvenær, né hverjar eigi hlut að máli. Eða eins og lögreglustjóri og saksóknari komust að orði af sama tilefni, að þess væri enginn kostur að rannsaka sannleiksgildi vitna, sem ekki kæmu fram undir nafni. Slíkur söguburður væri „ómarktækur“.

Boðflenna í Ráðherrabústað?

Þá er komið að sögu kvennalistaframbjóðandans, sem á að hafa gerst í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu árið 1996. Ég er sagður haf verið sauðdrukkinn og síðbúinn veilsugestur. Undir lokin er ég sagður hafa kallað yfir salinn: „Mig mig vantar kvenmann“. Þegar ekki var orðið við þessum óskum, á ég að hafa ruðst fram í eldhús og áreitt þar unga stúlku undir lögaldri. Yfirmaður staðarins á að lokum að hafa skorist í leikinn og vísað mér á dyr.

Ég vissi fyrir víst, að ég hafði ekki stigið fæti inn fyrir dyr á Ráðherrabústaðnum árum saman, eftir að ég lét af störfum utanríkisráðaherra fyrir mitt ár 1995. Ég spurði því veisluhöld ríkisins, sem annaðist veitingar þar á þessum árum, hvort hann gæti staðfest þetta. Vottfest svar hans hljóðar svo:

„Að gefnu tilefni vil ég undirritaður veisluhöldur ríkisins í Borgartúni og Ráðherrabústað taka fram eftirfarandi:

  • Jón Baldvin Hannibalsson var aldrei gestur í Ráðherrabústað á umræddu ári og þar af leiðandi aldrei vísað þaðan út.
  • Enginn starfsmanna minna kannast við umrædda frásögn
  • Enginn í starfsliði mínu var undir lögaldri

Sagan viðist því vera uppspuni frá rótum.

  1. 02.19. Elías Einarsson (sign)

Við þetta má svo bæta eftirfarandi:

Elías Einarsson stendur við sína vottfestu yfirlýsingu.

Sjálfur veit ég, að ég kom ekki inn fyrir dyr í Ráðherrabústaðnum, eftir að ég kvaddi Utanríkisráðuneytið í apríl/maí 1995, fyrr en að lokinni átta ára dvöl erlendis. Það var af því tilefni, að utanríkisráðherra Eistlands, sem þá var hér í opinberri heimsókn, óskaði eftir fundi með mér. Það er í besta falli misskilningur hjá Rögnu, að engir gestalistar séu til um þá sem sækja veislur í Ráðherrabústað. Ráðuneyti leggja fram sína gestalista. Utanríkisráðuneytið hefur m.a.s. í sinni þjónustu sérstakan „prótókoll-meistara“, sem raðar gestum til borðs.

Meira hef ég ekki að segja um þessa aldarfjórðungsgömlu gróusögu.

Afvegaleidd umræða

Í svari mínu til blaðamanns Helgarblaðs Fb. fylgdi síðan rökstuðningur fyrir því,  að ellefu aðrar sögur eftir nafnlausum heimildakonum, sem birtar eru undir vörumerki Metoo-hreyfingarinnar, eru undir sömu sök seldar: Þær eru ýmist hreinn tilbúningur eða fá ekki staðist „af þar til greindum ástæðum“. Ég sleppi því, að svo stöddu, að biðja ritstjóra Fb. að birta þessi svör.

Ég hef áður greint frá því, hvers vegna þær fjórar sögur sem eftir standa, og hafðar eru eftir nafnleysingjum, teljast ómarktækar, að mati saksóknara. Sögum hinna, sem taka ábyrgð á orðum sínum undir nafni, hef ég fyrir löngu svarað (sjá www.jbh.isSöguburður).

Lokaorðin í svari mínu til blaðamanns helgarblaðs Fb., sem hún ekki birti, eru þessi:

„Hvað stendur þá eftir? Að því er varðar meðferð staðreynda og sannleiksgildi  stendur ekki eftir steinn yfir steini. En af því að ljúgvitnin koma fram undir merkjum Metoo-hreyfingarinnar hafa þau unnið málstað hreyfingrinnar óbætanlegt tjón með þessum vítaverðu vinnubrögðum. Og það sem verra er: Það er verið að grafa undan trúverðugleik þeirra kvenna, sem hafa orðið fyrir raunverulegu kynferðisofbeldi (nauðganir, heimilisofbeldi eða kúgun á vinnustöðum).

Um líkt leyti og fjölmiðlaherferðin gegn okkur Bryndísi stóð sem hæst í ársbyrjun 2019, birti Stígamót ársskýrslu  sína um þolendur kynferðisofbeldis, sem til þeirra höfðu leitað á árinu 2018. Þar kom m.a. fram, að 321 kona kvaðst hafa orðið fyrir nauðgun eða nauðgunartilraun, og 127 sögðust vera þolendur sifjaspells. Með öðrum orðum: 448 konur leituðu sér hjálpar vegna grófra ofbeldisverka, sem þær höfðu orðið fyrir, að eigin sögn.

Þetta náði í fréttir þann daginn. En síðan ekki söguna meir. Segir þetta ekki allt sem segja þarf um afvegaleidda fjölmiðlaumræðu? Upplognar sögur og óhróður um þekkta einstaklinga kunna að vera fín söluvara. En þegar þær reynast ekki vera á rökum reistar, er enn og aftur verið að grafa undan trúverðugleik þeirra, sem eru þolendur raunverulegs kynferðisofbeldis.

Er svo komið málum í okkar þjóðfélagi, að við stöndum uppi varnarlaus frammi fyrir skipulagðri aðför að æru og heiðri, af hálfu fólks, sem af ýmsum ástæðum er heltekið af hatri og hefndarhug? Mínu mannorði í þetta sinn, þínu kannski á morgun.

Ætlum við virkilega að láta þetta yfir okkur ganga? Eða lifir enn vonin – þótt á veiku skari sé –  um að leita megi réttlætis frammi fyrir óháðum dómstólum?

Jón Baldvin Hannibalsson

(höfundur er m.a. fyrrverandi kennari og skólameistari, blaðamaður og ritstjóri, alþingismaður og ráðherra, sendiherra og háskólakennari).