1. Auðlindapólitík í almannaþágu
Vissir þú, að þegar olía og gas fannst í umtalsverðu magni í lögsögu Noregs upp úr 1970, ákváðu Norðmenn, að olíuauðhringarnir sem buðu í nýtingarréttinn að hinni nýju auðlind yrðu að greiða fyrir það leigugjald – auðlindagjald – sem rynni í Þjóðarsjóð Norðmanna.
Vissir þú, að þessi þjóðarsjóður er nú öflugasti fjárfestingarsjóður í heimi? Og að Norðmenn eru fyrir löngu skuldlaus þjóð? Og að jafnvel eftir að olíu- og gaslindir þeirra verða uppurnar, mun arðurinn af fjárfestingum þjóðarsjóðsins halda áfram að mala þeim gull.
Vissir þú, að Alaska – nyrsta fylki Bandaríkjanna – fór að dæmi Norðmanna, þegar olía fannst innan þeirra lögsögu? Þeir létu auðlindagjöldin renna í sameiginlegan þjóðarsjóð. Hluti af arði þjóðarsjóðs Alaska er reyndar greiddur út sem mánaðarleg borgaralaun íbúa fylkisins. Þess vegna sker Alaska sig úr meðal 50 fylkja Bandaríkjanna að því leyti, að þar ríkir meiri efnahagslegur jöfnuður en annars staðar í Bandaríkjunum.
Það er ólíku saman að jafna auðlindapólitík Norðmanna (og Alaskabúa) eða botnlausu arðráni moldríkrar og gerspilltrar yfirstéttar víðast hvar í alræðisríkjum (eins og Rússlandi) eða fyrrverandi nýlendum (eins og í furstadæmum Mið-Austurlanda). Í Noregi nýtur þjóðin öll arðsins af auðlindinni. Einkavæðing auðlinda Rússlands fyrir spottprís, í skjóli pólitísks valds, hefur verið kennd við
2. Lærum af reynslunni
Hvorum hópnum viljum við Íslendingar tilheyra? Getum við eitthvað af þessu lært? Íslendingar eru ríkir af náttúruauðlindum. Við búum við auðug fiskimið, hreina og endurnýjanlega orku í fallvötnum og jarðvarma, óþrjótandi (?) uppsprettur af tæru og hreinu vatni, fyrir utan rómaða náttúrufegurð, sem laðar að fjölda ferðamanna.
SPURNING: Hvers vegna höfum við ekki mótað okkur framsýna auðlinda-stefnu eins og grannar okkar, Norðmenn? Í auðlindastefnu felst, að lögfesta grundvallarreglur um eignarhald, umráðarétt og nýtingu auðlinda, með það að markmiði að tryggja sjálfbærni; og að arðurinn af nýtingu auðlindanna renni til þjóðarinnar allrar – en ekki til spilltrar forréttindastéttar.
VISSIR ÞÚ, að nú þegar er svo komið, vegna offjölgunar íbúa í mörgum helstu stórborgum heimsins, sem telja tugi milljóna íbúa, að drykkjarhæft vatn er á þrotum? Öll vitum við, að hrein og endurnýjanleg orka verður æ verðmætari með hverjum degi sem líður, vegna þess að mengandi orkugjafar eru á þrotum, eða áframhaldandi nýting þeirra kyndir undir ógnandi loftslagsvá í náinni framtíð?
VIÐ JAFNAÐARMENN höfum fyrir löngu mótað okkur skýra auðlindastefnu. Aðalatriðið er, að allt land, utan bújarða í einkaeign, er rétt eins og fiskimiðin, skilgreint í lögum sem sameign þjóðarinnar. Það þýðir í reynd, að umráðaréttur og nýting auðlinda ræðst ekki af gróðasjónarmiðum einstaklinga til skamms tíma, heldur af almannahagsmunum til lengri tíma.
Einkavæðing auðlinda þjóðarinnar kemur ekki til greina, enda reynslan af því á alþjóðavísu hörmuleg.
Er Ísland til sölu?
Ásókn fjárfesta, innlendra jafnt sem erlendra, í kaup á landi, virkjunarkostum og vatnsréttindum, klingir þegar viðvörunarbjöllum. Umræðan um „Orkupakka þrjú“ um að innleiða löggjöf um orkumarkað meginlands Evrópu í innlenda löggjöf, þrátt fyrir að Ísland hafi engin tengsl við þann markað; og hafi óvéfengdan rétt skv. EES-samningnum til að hafna löggjöf, sem á ekki við hér á landi, eða samræmist ekki íslenskum þjóðarhagsmunum, er af sama toga.
Ísland var ekki nauðbeygt til að innleiða þessa löggjöf. Okkur er í sjálfsvald sett að hafna einkavæðingu orkulinda og að reka orkuvinnslu og dreifingu sem samfélagsþjónustu, eins og við höfum gert hingað til með góðum árangri.
Það er ekki ráð nema í tíma sé tekið.
Við þurfum að ná um það samstöðu með meirihluta á Alþingi eftir næstu kosningar að móta okkur auðlindastefnu til framtíðar að norskri fyrirmynd. Takist það ekki, getur það orðið um seinan.
Ætlar þú að bera ábyrgð á því?
Höfundur er fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins – flokks íslenskra jafnaðarmanna og fyrrverandi utanríkisráðherra.