Fimm hundruð milljarða spurningin – Í næstu kosningum

Orðalagið í auðlindaákvæðinu í einkafrumvarpi forsætisráðherra um breytingar á stjórnarskránni er vitagagnslaus sýndarmennska. Sagan sýnir, að Vinstri græn hafa brugðist í þessu stórmáli. Þú þarft að þekkja þessa sögu – og draga af henni réttar ályktanir. Þetta er nefnilega 500 milljarða spurningin í næstu kosningum.

Vissir þú, að þegar núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi var lögfest (1988) settum við jafnaðarmenn það að skilyrði fyrir samþykkt þess, að fiskveiðiauðlindin innan okkar lögsögu yrði lýst SAMEIGN ÞJÓÐARINNAR? Ef við hefðum ekki gert þetta þá, væri 30 ára stríðið um eignarrétt þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni þegar tapað.

Vissir þú, að þegar sjávarútvegsráðherra Framsóknarflokksins beitti sér fyrir lögfestingu á framsalsrétti leyfishafa á veiðiheimildum (1990-91), settum við jafnaðarmenn það að skilyrði, að „úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndi aldrei eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum“.

Vissir þú, að þar með var leitt í lög, að „tímabundinn nýtingarréttur myndaði hvorki lögvarinn eignarrétt né bótaskyldu á ríkið“, ef úthlutun veiðiheimilda yrði breytt síðar, eins og segir í greinargerð, og dómstólar hafa vitnað til sem vilja löggjafans.

Gerir þú þér grein fyrir því, að þetta er 500 milljarða spurningin í íslenskri pólitík, sem verður að svara á næsta kjörtímabili? Hvað eigum við við? Svarið er þetta: Fémæti úthlutaðra veiðiheimilda á s.l. áratug, umfram allan fjárfestinga- og rekstrarkostnað, þ.m.t. skatta og afskriftir útgerðarfyrirtækja, hefur numið um 50 milljörðum króna á ári s.l. áratug – eða um 500 milljörðum alls. Á sama tíma hefur málamyndaleigugjald fyrir nýtingarréttinn varla dugað fyrir kostnaði skattgreiðenda af þjónustu við sjávarútveginn (landhelgisgæsla, hafrannsóknir, hafnaraðstaða, eftirlit o.fl.).

Fjölskyldurnar sjö

Vissir þú, að meira en helmingur þessara ævintýralegu auðæfa hafa á s.l. tveimur áratugum safnast í eigu sjö fjölskyldna, sem í trássi við gildandi lög hafa komist upp með að meðhöndla tímabundnar veiðiheimildir sem einkaeign, sem gengur kaupum og sölum, er veðsett fyrir lánum og gengur loks að erfðum? Allt þetta hafa fjölskyldurnar sjö þegið að gjöf í skjóli pólitísks valds Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, með þegjandi samþykki Vinstri grænna. Krónískur rekstrarhalli Morgunblaðsins, sem er málgagn hinnar nýju auðstéttar, telst vera smáaurar, sem borgar sig margfaldlega sem smávægilegur stríðskostnaður.

Vissir þú, að til að bæta gráu ofan á svart hafa sægreifarnir nýtt hluta af arðinum af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar til að kaupa veiðiheimildir, t.d. í Afríku og S – Ameríku og falið hagnaðinn af þeim viðskiptum á leynireikningum í skattaskjólum? Þannig launar kálfurinn ofeldið.

Finnst þér þetta vera í lagi? 

Ef þér finnst þetta ekki vera í lagi, skaltu vita, að það eru að verða seinustu forvöð fyrir þig í næstu kosningum að vísa þeim stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum, sem ábyrgð bera á þessari gerspilltu stjórnsýslu, út úr stjórnarráðinu.

Fyrir þar næstu kosningar getur það verið orðið of seint. Hafi dómstóll þegar kveðið upp þann úrskurð, að vanræksla stjórnvalda á að framfylgja gildandi lögum, hafi þar með áunnið sægreifunum hefðbundinn og lögvarinn eignarrétt og þar með talið bótaskyldu á ríkið, verði forréttindin af þeim tekin.

Ætlar þú að bera ábyrgð á því?

Höfundur er fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins, flokks íslenskra jafnaðarmanna.