UM PÓLITÍSKAR DRAUMARÁÐNINGAR OG VERULEIKAFIRRINGU

Kjartan Ólafsson: Um kommúnistaflokkinn og Sósíalistaflokkinn – draumar og veruleiki – stjórnmál í endursýn. Mál og menning.

Þetta er mikill doðrantur, 568 bls. í stóru broti, ríkulega myndskreytt. Þótt þarna sé hvergi að finna hugmyndalegt uppgjör við sovéttrúboð og hollustu kommúnistaflokks og sósíalistaflokks, eins og seinna verður vikið að, er engu að síður mikill fengur að þessari bók. Höfundurinn á þakkir skyldar fyrir þá elju, sem hann leggur á sig á efri árum við að halda til haga gögnum og heimildum og fyrir að sýna okkur í nærmynd persónur og leikendur í þessum dramatíska harmleik. Þetta er ekki þurr og blóðlaus skýrsla fræðimanns, sem þykist vera hlutlaus. Þetta er lifandi frásögn manns, sem var á tímabili sjálfur í innsta hring, einn fremsti fulltrúi annarrar kynslóðar, sem tók Sovéttrúboðið í arf, en hafði ekki til að bera nægan andlegan heiðarleika eða pólitískan kjark til að gera upp við það hugmyndalega þrotabú og varð því „kynslóð án skýrrar pólitískrar sjálfsmyndar, sögulega séð“, eins og Kjartan sjálfur orðar það.

Kjartan velur þann kost að leiða lesandann á fund þeirra þriggja einstaklinga, sem seinni tíma menn hafa gjarnan kallað „hina heilögu þrenningu“ þessa safnaðar. Það eru þeir Einar Olgeirsson, Brynjólfur Bjarnason og Kristinn E. Andrésson: Merkisberinn og spámaðurinn, innsiglisvörður rétttrúnaðarins og menningarpáfinn, eins og Kristinn var gjarnan nefndur. Þetta gefur lesandanum persónulega nánd við sögupersónurnar. Við fáum smám saman innsýn í hugarfar, hugsunarhátt og breytni, viðbrögð við ytri atburðum, fremur en bara fullnaðardóma af sjónarhóli seinni tíma. En örlögin láta ekki að sér hæða, hæfileikaríkir hugsjónamenn enda að lokum feril sinn sem afvegaleiddir draumóraglópar. Þear á reynir, brestur þá þrek til að bregðast við og bera sannleikanum vitni. Það sem tekur við undir lokin er auvirðilegur pólitískur feluleikur, eins og gjarna vill verða með sértrúarsöfnuði, sem staðna í kreddu, leysast þeir upp í „litlar ljótar klíkur“, sem berast á banaspjót í fáfengilegum orðhengilshætti. En sagan er vissulega þess virði að segja hana, fyrst og fremst öðrum og seinni tíma mönnum til viðvörunar.

Kjartan Ólafsson varð seinasti framkvæmdastjóri Sameiningarflokks alþýðu-sósíalistaflokksins (1962-68) , þegar flokkurinn skipti um nafn og númer. Kjartan má því með réttu kallast útfararstjóri hans. Hann var ráðinn til verka af Einari Olgeirssyni, hinum aldna leiðtoga Kommúnistaflokks Íslands og Sósíalistaflokksins. Verkefni Kjartans var að sjá um, að leifarnar af Sósíalistaflokknum dagaði ekki uppi sem lítinn sértrúarsöfnuð hinna sovéthollu, þegar Alþýðubandalaginu yrði breytt úr kosningabandalagi í fullburðugan stjórnmálaflokk.

Það hafði áður verið kosningabandalag Sósíalistaflokks og fylgismanna Hannibals (1956- 19689, sem urðu viðskila við Alþýðuflokkinn, eftir að Hannibal tapaði formannskjöri á flokksþingi 1954. Það var í þriðja sinn, sem Alþýðuflokkurinn klofnaði. Þegar hér var komið sögu sögðu fylgismenn Hannibals skilið við kosningabandalagið við sósíalista, sem hafði vissulega forðað Sósíalistasflokknum frá hruni í kosningunum árið 1956. Það sem síðan gerðist var fyrst og fremst nafnbreyting – pólítískt kennitöluflakk. Sósíalistaflokkurinn tók upp nafnið Alþýðubandalag 2.

Hannibalistar stofnuðu Samtök frjálslyndra og vinstrimanna (SFV). Þeim samtökum varð nægilega vel ágengt í kosningum 1971 til að fella Viðreisnarstjórnina (samstjórn Sjálfstæðis- og Alþýðuflokks, sem hafði varað í þrjú kjörtímabil, eða í tólf ár). Svo var mynduð vinstri stjórn undir forystu Framsóknar, þar sem fyrrum féndur sameinuðust á ný. Upprifjun þessara nánast ósjálfráðu umbrota á vinstri – væng íslenskra stjórnmála á þesum tíma hlýtur að vekja upp spurningar, hvort mönnum hafi yfirleitt verið sjálfrátt á þessari vegferð.

Kennitöluflakk

Er hægt að lýsa þessum umbrotum sem uppgjöri við vafasama fortíð Kommúnistaflokks Íslands og Sameiningarflokks Alþýðu-Sósíalistaflokksins? Það er af og frá. Reyndar þvert á móti. Þetta brambolt allt saman skýrist helst af því, að meirihlutinn, sem eftir sat undir nýju nafni og kennitölu, vildi koma í veg fyrir, að slíkt uppgjör færi fram við arfleifð Sovéttrúboðsins á Íslandi. Þú þarft ekki að hafa mín orð fyrir því. Þetta staðfestir Lúðvík Jósefsson, sem gegndi lykilhlutverki í þessari leiksýningu og var almennt talinn raunsærri í pólitík en flestir samstarfsmenn hans. Kjartan vitnar í hann í bók sinni, (bls. 472):

Litlu áður en Einar Olgeirsson gekk á minn fund (1972) til að biðja mig um gætni í skrifum (Þjóðviljans) um Sovétríkin, var Lúðvík Jósefsson staddur í Austur-Berlín og ræddi þá Maskowski, yfirmann Alþjóðatengsladeildar miðstjórnar austur-þýska valdaflokksins. Lúðvík sagði í því samtali, að breytingin frá Sósíalistasflokknum yfir í Alþýðubandalagið hefði „aðeins verið formlegs eðlis“ og tók fram að Alþýðubandalagið vildi gjarnan bæta samskiptin við hina austur-þýsku valdhafa“.

Kjartan segir, að þarna hafi Lúðvík talað þvert a stefnu flokksins. En orð Lúðvíks sanna, að stefnuyfirlýsing Alþýðubandalagsins um tengslaslit við Sovétríkin og leppríki þeirra eftir innrás þerira í Tékkóslóvakíu til að kæfa vorið í Prag 1968 var bara til heimabrúks – partur af feluleiknum. Veruleikinn var allur annar, eins og víða kemur fram í frásögn Kjartans. Þótt Kjartani sé mjög í mun að sýna fram á, að hann persónulega hafi verið orðinn fráhverfur Sovéttrúboðinu, þegar hér var komið sögu upp úr 1960, neitar hann því ekki, að hin aldraða sveit í forystu flokksins sat föst við sinn keip. Það á við um hina heilögu þrenningu, sem veitt hafði hreyfingunni andlega forystu frá stofnun Kommúnistaflokksins frá árinu 1930 til hinsta dags Sósíalistaflokksins 1968. Flokkurinn skipti bara um nafn og númer, og feluleikurinn hélt áfram. Alþýðubandalagið sigldi áfram „með líkið í lestinni“, eins og ekkert hefði í skorist. Það á líka við um næstu kynslóð, sem tók við þessu andlega þrotabúi, eftir leyniræðu Krústjoffs um glæpi Stalíns, uppreisnina í Ungverjalandi 1956 og vorið í Prag 1968. Sjálfur lýsir Kjartan þessu í afmælisgrein um forvera sinn sem framkvæmdastjóra Sósíalistaflokksins, Inga R. Helgason (29.07.84):

„Fall þeirrar kynslóðar, sem þú tilheyrðir, var slíkt sem við þekkjum,vegna þess að menn létu hollustu of lengi standa í vegi fyrir því hugmyndalega upppgjöri, sem kall tímans krafðist. Þegar brýn þörf kallaði á djúptæka, vægðarlausa endurskoðun og nýtt brautryðjendastarf, þá dvöldum við of lengi sem sporgöngumenn, og urðum kynslóð án skýrrar pólitískrar sjálfsmyndar, sögulega séð“.

Þetta er hverju orði sannara og virðingarverð hreinskilni. Gallinn er bara sá, að þetta var skrifað nokkrum áratugum of seint, til þess að það skipti nokkru máli, „sögulega séð“.

Pólitískur feluleikur

Kjartan nefnir sjálfur skýrasta dæmið um þetta, sem er örlög SÍA-hópsins svonefnda. SÍA stendur ekki fyrir „CentraI Intelligence Agency“, heldur stendur það fyrir Sambandi íslenskra austantjaldsstúdenta. Þetta á við um býsna fjölmennan hóp íslenskra námsmanna, sem fóru upphaflega á vegum Flokksins til náms í Sovétríkjunum og Austur-Evrópu (Austur-Þýskalandi, Póllandi, Ungverjalandi, Tékkóslóvakíu og víðar). Þar fengu þessir ungu menn tækifæri til að kynnast framtíðarlandi sósíalismans af eigin reynslu. Þetta voru menn, sem seinna áttu eftir að láta að sér kveða, eins og t.d. Árni Bergmann, Hjörleifur Guðttormsson, Svavar Gestsson o.fl.

Það hefði verið lærdómsríkt, ef þessir menn hefðu verið virkjaðir sem fréttaritarar Þjóðviljans í Moskvu, Austur-Berlín og Leipzig, eða hinir sem voru vistaðir í Prag, Varsjá, eða í Beijing. Þegar leynibréfum, sem þeim fóru í milli, var stolið og Morgunblaðið fór að birta valda kafla úr þeim fyrir kosningar 1962, olli það, að sögn Kjartans

„þó nokkru uppnámi í röðum Sósíalistaflokksins. Margur spurði, hvers vegna er það sem þarna er fjallað um, ekki tekið til umræðu hér heima á opinskáan hátt? Svarið við þeirri spurningu er, að margir forystumenn flokksins óttuðust, að opinskáár upmræður um þessi mál myndu valda þvílíkri sundrungu, að flokkurinn yrði ófær um að rækja hlutverk sitt. Árin 1962 voru átökin um, hvort leggja ætti flokkinn niður rétt að hefjast, og menn þorðu ekki að kveikja nýja elda í nánd við þá púðurtunnu“.

Reyndar var Sósíalistaflokkurinn þá þegar fullkomlega ófær um a ðrækja nkkurt pólitískt hlutverk í stjórnmálum, enda hafði hann ekki boðið fram í kosningum undir eigin nafni svo árum skipti. Hann þótti ekki lengur frambærilegur, þegar hér var komið sögu. Um þetta segi ég í bók minni „Tæpitungulaust – lífsskoðun jafnaðarmanns“, (sjá bls.61):

„Uppgjörið við fortíðina fór því aldrei fram. Það varð því ekki fyrr en Berlínarmúrinn var fallinn, Þýskaland var endursameinað, Austur-Evrópa varð frjáls undan Sovétokinu og Eystrasaltsþjóðirnar höfu endurheimt sjálfstæði sitt, að vandamálið leystist af sjálfu sér. Sovétríkin voru ekki lengur til. Þau leystust upp í frumparta sína. Leiðtogar Eystrasaltsþjóða trúa því, að endurheimt sjálfstæði þeirra hafi verið upphafið að endalokum Sovétríkjanna. Það er nokkuð til í því. Segjá má, að frumkvæði Íslands að viðurkenningu alþjóðasamfélagsins á endurreistu sjálfstæði þessara smáþjóða við Eystrasalt hafi verið endapunkturinn á þessum harðvítugu deilum, sem hér hafa verið gerðar að söguefni, um afstöðuna til Sovétríkjanna. Það var ekkert lengur til að deila um“. Sovétríkin einfaldlega lognuðust út af – þau fyrirfóru sér – án þess að blóðug styrjöld brytist út.

Sundrungarafl

Alþýðuflokkurinn og Alþýðusambandið voru upphaflega ein og sama hreyfingin, stofnuð árið 1916, í miðri Fyrri heimsstyrjöld, og áður en brast á með rússnesku byltingunni 1917. Þetta var mannréttindahreyfing fátæks fólks. Verkalýshreyfingin þurfti að berjat fyrir samningsrétti um kaup og kjör, vinnutíma og starfsöryggi. Alþýðuflokkurinn átti að berjast fyrir bættum lífskjörum fólks gegnum pólitíkina í sveitarstjórnum og á Alþingi. Almannatryggingar og húsnæði á viðráðanlegum kjörum voru stærstu málin fyrstu árin. Þessi hreyfing boðaði ekki byltingu heldur hægfara umbætur í krafti lýðræðis. Alþýðuflokkurinn er því móðurflokkur lýðræðislegrar jafnaðarstefnu á Íslandi.

En þar kom, að hugsjónamenn töldu, að þetta gengi of „grátlega seint“. Þeir stofnuðu kommúnistaflokk árið 1930. Hann var útibú frá Komintern – alþjóðasambandi kommúnista – og stjórnað beint frá Moskvu. Þetta var fyrsti klofningur Alþýðuflokksins. Kommúnistar skilgreindu lýðræðisjafnaðarmenn sem höfuðóvini sína. Þeir væru helstu hjálparkokkar auðvaldsins. Hægfara umbætur myndu bara framlengja arðráðn kapítalismans. Það þyrfti byltingu að sovéskri fyrirmynd. Og engar málamiðlanir.

Þegar uppgangur þýska nazismans var farinn að ógna framtíð Sovétríkjanna, sneru Kremlverjar við blaðinu. Kommúnistar áttu að fylkja liði með jafnaðarmönnum gegn fasismanum. Sú samfylking leiddi til stofnunar sameiningarflokks Alþýðu, Sósíalistaflokksins 1938. Sósíalistaflokkurinn var varla fyrr stofnaður en Hilter og Stalín gerðu með sér friðarsáttmála. Þeir skiptu Evrópu milli sín. Eystrasaltsþjóðirnar og Finnland – eitt Norðurlanda – komu í hlut Sovétríkjanna. Þar með var stríðið komið að bæjardyrum okkar. Þar með klofnaði Alþýðuflokkurinn í annað sinn. Umbótaafl Alþýðuflokksins og verkalýðshreyfingarinnar beið enn á ný verulegan hnekki.

Hitler hernam bæði Noreg og Danmörku og hóf síðan innrás í Sovétríkin. Þar með var Stalín orðinn bandamaður Vesturveldanna. Sósíalistaflokkurinn naut vinsælda Rauða hersins, sem reyndist sigursæll í viðureign við þýska nazismann. Stóra stundin í sögu Sósíalistaflokksins var nýsköpunarstjórnin 1942-44, þar sem innsiglisvörður rétttrúnaðarins í Sóvéttrúboðinu, varð menntamálaráðherra undir forsæti Ólaf Thors. Þar með var Sósíalistaflokkurinn orðinn stærri en móðurflokkurinn, Alþýðuflokkurinn. Og hélt þeirri stöðu undir nýju nafni Alþýðubandalagsins frá 1968 þar til 1987.

Þessi atburðarás skýrir hvers vegna stjórnmálaþróun á Íslandi varð öll önnur en annars staðar á Norðurlöndum. Flokkar atvinnurekenda urðu ráðandi flokkar á lýðveldistímanum, en flokkur lýðræðis-jafnaðarmanna var minnsti flokkurinn í fjórflokkakerfinu og glataði forystuhlutverki sínu í verkalýðshreyfingunni. Þess vegna náði Ísland því aldrei að verða raunverlulegt norrænt velferðarríki. Þess vegna er Ísland meira ójafnðarþjóðfélag en önnur Norðurlönd og framtíð okkar meiri óvissu undirorpin.