Kjartan Jóhannsson, minning

Ísafjörður og Hafnarfjörður – þessi tvö bæjarfélög – skipa sérstakan sess í sögu jafnaðarstefnunnar á Íslandi.

Í báðum þessum bæjarfélögum fóru jafnaðarmenn með meirihlutavald svo til óslitið í aldarfjórðung, lengst af á krepputímum.

Í báðum þessum bæjarfélögum náðist óvenjulegur árangur við að vinna bug á helsta böli kreppuáranna – atvinnuleysinu. Það tókst í krafti samtakamáttar vinnandi fólks og þótti til fyrirmyndar um land allt.

Flestir forystumenn jafnaðarmanna á landsvísu voru fóstraðir í ranni rauðu bæjanna, Hafnarfjarðar og Ísafjarðar. Þeir vísuðu veginn.

Við Kjartan Jóhannsson – hann Hafnarfjarðarkrati, en ég Ísafjarðarkrati – tókum við kefli formennskunnar fyrir flokki okkar jafnaðarmanna, hann á árunum 1974-84, framan af sem varaformaður, en ég á árunum 1984-1996. Keppinautar, já – en óbrigðulir samstarfsmenn undir merkjum jafnaðarstefnu alla tíð. Þar bar aldrei skugga á.

Kjartan var maður skarpgreindur, gagnmenntaður og vel verki farinn. Hann lærði sína verkfræði í heimalandi móður sinnar, Svíþjóð, en lauk doktorsprófi í rekstrarverkfræði eftir framhaldsnám og rannsóknir í Bandaríkjunum árið 1969. Kjartan var því óvenjulega vel undir það búinn að sinna stjórnunarstörfum, þegar heim var komið að námi loknu, fyrir utan kennslu í sínum fræðum á háskólastigi. Brátt hlóðust á hann skyldustörf, sem hann gegndi öllum af stakri skyldurækni.

En pólitíkin er miskunnarlaus og aðgangshörð. Þegar til lengdar lét, þoldi Kjartan illa álagið í návígi íslenskrar stjórnmálabaráttu, sem var reyndar sérlega illskeytt á miklu umbrotatímabili á formannstíma hans. Eftir á að hyggja er mér nær að halda, að Kjartan hafi fundið til léttis, þegar forystuhlutverkinu var létt af hans herðum 1984.

Þar með hófst nýr kapituli á starfsferli hans, þar sem meðfæddir hæfileikar og verkkunnátta fengu notið sín til fulls. Sem dæmi má nefna verkstjórn hans á vegum þingsins við undirbúning staðgreiðslukerfis skatta og upptöku virðisaukaskatts. Annað dæmi var húsbréfakerfið, sem tryggði nýja tekjustofna til húsnæðislána, og Kjartan var helsti höfundur að.

Það segir meira en mörg orð um það traust sem hann ávann sér af verkum sínum, að ríkisstjórnir allra EFTA-ríkjanna sammæltust um að fela honum starf aðalframkvæmdastjóra EFTA í Genf árið 1993 og fram til aldamóta. Verkstjórnin við að innleiða EES-samninginn um aðild þessara þjóða að innri markaði Evrópusambandsins hvíldi því á hans herðum. Í þessu brautryðjendastarfi kom þekking hans og reynsla að fullum notum í þágu aðildarþjóðanna allra.

Að leiðarlokum þakka ég Kjartani Jóhannssyni farsælt samstarf og votta Irmu og einkadótturinni, Maríu, og fjölskyldum þeirra hlýjar samúðarkveðjur.

Jón Baldvin Hannibalsson