1. Pólitík snýst um völd og áhrif
Það fer ekki á milli mála, að vald eigenda fjármagns og fyrirtækja er gríðarlegt í kapítalísku hagkerfi. Ákvörðunarvaldið um fjárfestingar og framkvæmdir, sem afkoma okkar allra byggir á, er að stærstum hluta í þeirra höndum. Valdið á vinnumarkaðnum til að ráða og reka er í höndum þeirra. Ef stéttarfélög eru veikburða – eða jafnvel ekki til – fær vinnandi fólk litlu sem engu ráðið um þessar ákvarðanir.
Sívaxandi samþjöppun fjármálavalds í höndum stjórnenda risavaxinna fjölþjóðafyrirtækja (þau stýra um helmingi allra heimsviðskipta) ræður miklu um þann veruleika, sem jarðarbúar búa við. Það er því afar villandi, þegar menn tala í síbylju um „frjálsa markaði“. Veruleikinn er allur annar. Þar stöndum við frammi fyrir einokun og fákeppni.
Þetta ofurvald fjármagnseigenda hefur á seinustu áratugum nýfrjálshyggjunnar vaxið raunhagkerfinu – og þar með flestum þjóðríkjum – yfir höfuð. Fjármagnseigendur gera út stjórnmálaflokka til þess að gæta hagsmuna sinna innan þjóðríkja. Í örríkinu íslenska sér Sjálfstæðisflokkurinn að mestu um þessa hagsmunagæslu. Eftir Hrun SÍS hefur pólitískt eignarhaldsfélag um arfleifð SÍS beitt Framsóknarflokknum í sama skyni, í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.
Ef þetta samþjappaða fjárhagsvald nær pólitíska valdinu undir sig líka, er lýðræðið sjálft í hættu. Hættan er sú, að lýðræðið breytist í auðræði. Þetta er að gerast fyrir augunum á okkur, t.d. í Bandaríkjum Trumps og Rússlandi Pútins. Sömu sólarmerkin sjást nú þegar á Íslandi Engeyjarættarinnar.
2. Hvað er svona sérstakt við norræna módelið?
Það er þetta: Hægri flokkar (hagsmunagæsluaðilar sérhagsmuna) hafa lengst af verið þar í minnihluta. Þeir hafa ekki náð að sölsa undir sig pólitíska valdið líka. Hinn pólitíski armur verkalýðshreyfingarinnar – norrænu jafnaðarmannaflokkarnir – hafa verið í meirihluta áratugum saman á mótunarárum hins norræna velferðarríkis.
Þetta er einstakt í veröldinni. Þetta skýrir grundvallarmuninn, sem er á norræna módelinu og t.d. hinu félagslega markaðskerfi Þýskalands, sem kenna má við kristilega demókrata. Sú staðreynd, að flokkur íslenskra jafnaðarmanna hefur aldrei náð því að verða ráðandi fjöldaflokkur, í nánu samstarfi við launþegahreyfinguna, skýrir það líka, hvers vegna Ísland varð aldrei norrænt velferðarríki, þrátt fyrir viðleitni okkar til að stefna í þá átt.
Eitt af því sem einkennir norræna velferðarríkið er, að þótt hagkvæmni markaðslausna á samkeppnismörkuðum undir lýðræðislegri stjórn og eftirliti sé vissulega viðurkennd, eru ákveðin svið skilgreind sem opinber samfélagsþjónusta, þar sem einkarekstur í gróðaskyni á ekki heima. Þetta gildir t.d. um skólakerfið, heilbrigðisþjónustu, orkuvinnslu og dreifingu, vatnsveitur, samgöngukerfi, auðlindanýtingu o.s.fr. Þetta eru grundvallarreglur. Frá þeim eru vissulega frávik, en þau eru undantekningar sem sanna regluna.
Þetta, ásamt stighækkandi skattkerfi, er meginástæðan fyrir því, að tekju- og eignaskipting er jafnari á Norðurlöndum en víðast hvar annars staðar í heiminum, þótt neikvæðra áhrifa nýfrjálshyggju og hnattvæðingar gæti þar sem annars staðar.
3. Gróðaöflin
Gróðaöflin halda nú uppi æ stríðari þrýstingi í þá átt að mega hasla sér völl á þessum sviðum. Það hefur tekist í nokkrum tilvikum, en heyrir samt sem áður til undantekninga. Um þetta mun stríðið standa, ekki hvað síst á næsta kjörtímabili. Útkoman ræðst af því, hverjir fara með ríkisvaldið. Ef ríkisvaldið er í höndum stjórnmálaflokka, sem gerðir eru út af eigendum fjármagns og fyrirtækja, þarf ekki að spyrja að leikslokum.
Misbeiting ríkisvaldsins í þjónustu fjármagnseigenda náði hámarki í nýliðnu Hruni, þegar skattgreiðendur víða í ríkjum ESB voru látnir taka yfir skuldir fjármagnseigenda. Þetta getur gerst hér í næsta Hruni, ef ekki er gripið til fyrirbyggjandi ráðstafana í tæka tíð.
Það er séríslenskt fyrirbæri, að verðtrygging langtímaskulda firrir fjármagnseigendur (lánadrottna) mestallri áhættu, en leggur hana kyrfilega á herðar skuldurum, sem margir hverjir verða skuldaþrælar ævilangt. Þegar við þetta bætist skattkerfi, sem leggur meginþunga skattbyrðarinnar á millistéttina, en lætur afskiptalausan fjárflótta fjármagnseigenda og undanskot í skattaparadísum, þá sitjum við uppi með kerfi, sem er sérhannað til að stuðla að vaxandi misskiptingu auðs og tekna.
4. Þetta er ekki náttúrulögmál
Þetta er rökrétt niðurstaða af samþjöppun valds fjármagnseigenda og pólitísku forræði þeirra fyrir atbeina stjórnmálaflokka, sem þeim eru handgengnir.
Hrikalegasta dæmið um þetta er, að arðurinn af sjávarauðlindinni – auðlindarentan, sem hlýst af ríkisverndaðri einokun – og nemur tugum milljarða á ári hverju – hefur ekki runnið til almannaþarfa, heldur í sjóði nýríkrar yfirstéttar. Þannig hefur orðið til nýr lénsaðall, sem safnar auði í skjóli pólitísks valds. Þessi nýríka yfirstétt fékk vildarkjör á hagstæðu gengi til að kaupa upp fasteignir og fyrirtæki í stórum stíl m.a. gegnum peningaþvætti í skjóli Seðlabankans, gegn því að skila hluta af huldufénu heim. Kaupmáttaraukning kjarasamninga vegna uppsveiflu er tekin til baka með leiguokri og skuldaþrældómi hluta þjóðarinnar.
Gróðamyndunarkvörn sérhagsmuna af þessu tagi, sem þrífst í skjóli póitísks valds, væri óhugsandi í norrænu velferðarríki. Til þess að sannfærast um það nægir að kynna sér auðlindapólitik Norðmanna, bæði að því er varðar olíuauðlindina og sjávarútveginn. Þar er ólíku saman að jafna.
5. Þetta snýst allt um pólitískt vald
Þegar fjármagnseigendur og forstjóraveldi fyrirtækjanna nær því að sölsa undir sig stjórnmálavaldið líka, stendur almenningur eftir berskjaldaður og varnarlaus á pólitísku berangri. Svona er Ísland í dag. Vinnandi fólk á Íslandi má vita það, af fenginni reynslu, að það getur ekki rétt sinn hlut í glímunni við forréttindahópa fjármagnseigenda, nema það sameinist í nýrri mannréttindahreyfingu – undir merkjum sígildrar jafnaðarstefnu – og með öflluga verkalýðshreyfingu að bakhjarli.
Norræna módelið vísar enn veginn.
Höfundur er fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins – flokks íslenskra jafnaðarmanna.