Jón Baldvin kveðst aðspurður ekki ætla að áfrýja niðurstöðu héraðsdóms í meiðyrðamáli hans gegn RÚV og heimildarmanni þess. Hann segist í stórum dráttum vera sáttur við niðurstöðuna. Aðalatriðið er – og það er langmikilvægast – að svívirðulegustu ásakanirnar, bæði ósannar og gróflega ærumeiðandi, voru afdráttarlaust dæmdar dauðar og ómerkar. Það skiptir sköpum.
Hitt skiptir minna máli, þótt allskyns óhróður, hafður eftir sömu heimildum séu látin óátalin. Skýringin er sögð sú að hugsanlega hafi viðkomandi upplifað þetta svona. „Upplifun“ hefur að sögn málfróðra manna öðlast nýja merkingu: Hún lýsir ekki því sem gerðist heldur hinu sem maður heldur að hugsanlega gæti hafa gerst.
Ég hef að sjálfsögðu samúð með því sjónarmiði dómarans að standa vörð um tjáningarfrelsið. En tjáningarfrelsið er í réttarríki þrátt fyrir allt ekki ótakmarkað. Takmörkin eru þau að enginn maður þurfi að þola að vera borinn sannanlega röngum og ærumeiðandi sökum í nafni tjárningarfrelsisins. En í mínu tilviki er þetta réttlætt með því að ég teljist enn vera „opinber persóna“, þótt næstum aldarfjórðungur sé liðinn frá því að ég yfirgaf vígvöll stjórnmálanna. Ég á samkvæmt því að þola illmælgi betur en aðrir. Og það er rétt – ég er illu vanur en ég kvarta ekki.
Vonandi verður þetta þó ekki til þess að gefa út veiðileyfi fyrir falsfréttir og hatursumræðu um stjórnmálamenn í komandi kosningabaráttu. Er ekki nóg komið nú þegar?
AÐALATRIÐIÐ – og það langmikilvægasta – í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í meiðyrðamáli mínu (12. mars s.l.) gegn RÚV (og heimildamanni þess til vara), er að samkvæmt dómnum teljast þeir sem bera mér á brýn barnaníð, vera dæmdir ómerkingar.
Hitt skiptir minna máli, þótt allskyns óhróður, sem rekja má til sömu heimildar, sé látinn óátalinn á þeim forsendum, að hugsanlega hafi viðkomandi upplifað þetta svona. „Upplifun“ er að sögn málfróðra manna nýyrði yfir það, sem ekki gerðist, en maður heldur, að gæti hafa gerst. Þetta þykir nógu merkileg lífsreynsla til þess að verðskulda skilgreiningu á fagmáli sálfræðinga, sem „falskar minningar“.
Sýknun þeirra sálufélaganna, Sigmars og Seljan, fréttamanna RÚV, er því miður í ljósi staðreynda málsins, einfaldlega óskiljanleg. Það var leitt í ljós við yfirheyrslur í réttarhaldinu, að þeir félagar brutu ekki bara bara starfs- og siðareglur RÚV, heldur beinlínis lögin um hlutverk og skyldur útvarps allra landsmanna. Þar segir að leita verði „upplýsinga frá báðum aðilum og að sjónarmið þeirra (skuli) kynnt sem jafnast“ (3.gr., 2). Enn fremur að „sannreyna (skuli), að heimildir séu réttar“ (3.gr.,3)
Fjarvistarsönnun
Þeir kumpánar, Sigmar og Seljan, gerðu reyndar hvorugt, eins og leitt var í ljós við vitnaleiðslur. Þeir létu sér nægja einhliða frásögn, sem byggði á slúðri á Geðdeild Landspítalans. Ef þeir hefðu kynnt sér málið, hefðu þeir komist að því, að ódæðið (sifjaspell) átti að hafa átt sér stað á Geðdeild LHS árið 2002. Þá var ég búsettur í Bandaríkjunum og óvéfengt, að ég steig þar aldrei fæti inn fyrir dyr á því ári til að vitja dóttur minnar. Ekki nóg með það. Þetta slúður var hluti af kæru Aldísar og vinkvenna hennar árið 2013 til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Öllum þeim málabúnaði var vísað frá sem ótrúverðugum með úrskurði lögreglustjóra (13.jan. 2014). Áfrýjun til saksóknara leiddi til sömu niðurstöðu (28.feb.2014).
Með því að bera út óhróður, sem réttarkerfið hefur vísað á bug sem ótrúverðugum, hafa fréttamenn ríkisútvarpsins tekið sér hlutverk ákæruvaldsins. Það er ekki þeirra hlutverk. Þetta er eins skýrt og klárt lögbrot og verið getur. Þar með sýnast siðareglur RÚV vera bara fyrir siðasakir. „Vð ljúgum bara eins og logið er í okkur“ er orðið nær lagi sem starfslýsing fréttamannanna í þessu tilviki.
Þessi niðurstaða gefur vægast sagt varasamt fordæmi, þegar horft er fram á veginn. Með þessu er gefið til kynna, að dómsvaldið þori ekki að kalla yfir sig reiði fjórða valdsins; að dómsvaldið þori ekki lengur að verja grundvallarreglur réttarríkisins um, að allir skuli teljast saklausir, uns sekir fundnir fyrir dómi; og að tjáningarfrelsi gagnrýnandans takmarkist við æruvernd fórnarlambs gagnrýninnar.
Nú er okkur sagt, að það eigi við bara stundum – og fyrir suma.
Veiðileyfi
Þegar rökin þrýtur, er því borið við, samkvæmt fjölmörgum dómafordæmum á undanförnum árum, að ekki þurfi að halda grundvallarreglur réttarríkisins í heiðri, þegar um „opinbera persónu“ er að ræða. Þetta er sagt eiga við um stjórnmálamenn, a.m.k suma. Þetta á, samkvæmt dómsniðurstöðunni, að eiga við um mig, þótt ég hafi horfið af vígvelli stjórnmálanna fyrir tæpum aldarfjórðungi. Enginn fyrningarréttur þar! Þess vegna má bera mig sannanlega ósönnum og ærumeiðandi sökum – í nafni tjáningarfrelsisins. Og slúðurberarnir bera enga ábyrgð. Það tilheyrir bara starfslýsingu stjórnmálamannsins, samkvæmt forsendum dómsins.
Ég býð ekki í það, hvílíkar gáttir „falsfrétta“ og „hatursorðræðu“ í (samfélags)miðlum dómafordæmi af þessu tagi opna. Og kosningabaráttan er rétt að byrja!
Stjórnmálamaður, sem rís undir þeirri (umdeildu) nafnbót, á að eiga samtal – rökræður – við þjóð sína um lausnir á aðsteðjandi vandamálum. Eigi hann brýnt erindi er freistandi fyrir andstæðinga að gera hann óvígan með því að vega að æru hans/hennar – í trausti þess, að engum vörnum verði við komið. Hann er jú „opinber persóna“.
„Eigi leið þú oss í freistni“, stendur einhvers staðar skrifað. Að óbreyttri dómaframkvæmd lítur ekki út fyrir, að við verðum bænheyrð í bráð.
(Höfundur var formaður Alþýðuflokksins, flokks íslenskra jafnaðarmanna 1984-96).