Ingibjörg Björnsdóttir, minning

Ég var fjarri fósturjarðarströndum þann 19. ágúst s.l., þegar Ingibjörg Björnsdóttir var kvödd hinstu kveðju. En mér rennur bóðið til skyldunnar að minnast hennar fáeinum vel völdum orðum,  því að hún var eftirminnilegur samstarfsmaður minn þann skamma tíma,  sem ég gegndi embætti fjármálaráðherra (1987-88).

Það var stuttur tími, en við bættum það upp með því að koma gríðarlega miklu í verk. Orðið „skattkerfisbylting“ er ekki fjarri sanni. Seinna, þegar ég lýsti þessari kerfisbreytingu á fundi fjármálaráðherra Norðurlanda, sagði sænskur starfsbróðir, Kjell-Olov Feldt, að í Svíþjóð hefðu svo umfangsmiklar breytingar í ríkisfjármálum tekið a.m.k. 9 ár.

Þegar ég mætti til fyrsta vinnudags í Arnarhvoli,  sjálfsagt nokkuð verkkvíðinn, mætti mér brosmild kona, full af lífsgleði og starfsþrótti, og bauð mig velkominn til starfa. Ég gleymi ekki fyrsta vinnueginum. Eftir að hafa lýst verkferlum og vinnutilhögun, dró hún upp úr pússi sínu béfabunka og hellti yfir borðið hjá mér. Þegar ég spurði, hverju sætti, svaraði hún: „Þetta eru bréf til þín, fjármálaráðherrans. Forveri þinn byrjaði daginn ævinlega á því að svara þessu. Þetta eru allra handa erindi um fyrirgreiðslu, lán, styrki, vinnu o.s.fr.“ Þegar ég spurði hana, hvort það væri ekki einhver hér í ráðuneytinu, sem hefði tíma til að sinna svona kvabbi, sagði hún með brosi á vör: „Ég skal bara gera það sjálf“.  Í staðinn fékk hún verkáætlun um skattkerfisbyltingu og kvadd til fyrsta fundar.

Þegar kom að kveðjustundinni, 14  mánuðum síðar, lá við, að skjalakassarnir rúmuðust ekki á vörubílspallinum hjá Oddi, staðarhaldara.

Ég vildi fá Ingibjörgu með mér til að halda uppi fjörinu í Utanríkisráðuneytinu. Hún hugleiddi það um stund, en afþakkaði pent að lokum. Innst inni vissi ég, að það var rétt ákvörðun hjá henni. Hún var orðin svo hagvön í sínu ráðuneyti við að stýra ríkisfjármálunum – sem henni fannst mestu máli skipta – að hún gat ekki, þegar á reyndi, slitið sig frá þeim. Þess vegna var ég bara sjötti fjármálaráðherrann hennar Ingibjargar. Á 34 ára starfsferli hennar í Fjármálaráðuneytinu átti hún enn eftir að fóstra fimm fjármálaráðahera, en þeir urðu alls 11, áður en yfir lauk.

Vinátta okkar, hert í eldi „stritsins fyrir málefnunum sjálfum“  hélst til  hinsta dags. Ég kveð Ingibjörgu Björnsdóttur þakklátum huga með söknuði og virðingu.

Jón Baldvin Hannibalsson