Styrmir Gunnarsson, minning

Hann var sjálfum sér líkur til hinsta dags. Þrátt fyrir heilsuáfall, sem hefði knúið flesta menn til að biðjast vægðar, neitaði hann að gefast upp  fyrr en í fulla hnefana. Hann neytti sinna seinustu krafta til að ljúka við laugardagsgreinina, sem birtist að honum látnum. Þannig var hann allt sitt líf, skyldurækinn og  kröfuharður – en fyrst og fremst við sjálfan sig.

Okkar kynni hófust í öðrum bekk í gaggó, nánar tiltekið í hinum alræmda Skeggjabekk í Laugarnesskólanum. Ég kom að vestan og frá vinstri. Hann kom úr Vesturbænum og lengst til hægri. Okkur lenti saman á fyrsta degi. Sú rökræða hefur senn staðið, með hléum,  í meira en hálfa öld. Henni var enn ekki lokið, þegar fundum okkar bar seinast saman.  Hann var stríðinn og rökfastur,  en hlustaði á mótrök og tók rökum – oftast nær.  Það var ekki til í honum snobb. Uppskafning og yfirborðsmennska var eitur í hans beinum, sem og hégómaskapur og látalæti. Hann var hreinskilinn og hreinskiptinn og fór ekki í manngreinarálit.

Það átti líka við um hina, sem þarna háðu sitt kalda stríð:  Ragnar  Arnalds, verðandi  formann Alþýðubandalagsins, Halldór Blöndal, fulltrúa Engeyjarættarinnar og þjóðrækið íhald til hinsta dags, Svein Eyjólfsson, síðar fjölmiðlamógúl og Magnús Jónsson, kvikmyndagerðarmann og lífskúnstner. Við gátum verið svarnir óvinir, ef því var að skipta, en létum andstæðinginn aldrei  gjalda skoðanaágreinings. Vináttuböndin hafa alltaf haldist, hvað svo sem á hefur dunið. Það reyndi ekki hvað síst á í samskiptum okkar Styrmis, en drengskapur hans brást aldrei.

Slíkur maður er auðvitað vel til forystu fallinn – reyndar sjálfkjörið foringjaefni. Hann hefði reynst andstæðingunum erfiður viðfangs. En þeir hefðu mátt treysta því, að hann léti þá aldrei gjalda skoðana sinna.  Það var sagt um Anthony Crosland – sem á tímabili á æskuárum  var minn mentor –  að hann hefði verið besti leiðtogi breska Verkamannaflokksins, sem flokkurinn  aldrei fékk. Sama máli gegnir með Styrmi. Hann var best til forystu fallinn af þeim sjálfstæðismönnum af hans kynslóð, sem ég hef kynnst. Á það reyndi aldrei, af ástæðum,  sem hér eru ekki til umræðu. En bók Styrmis, “Ómunatíð”, sem hann samdi í samvinnu við konu sína og dætur, skýrir það – og  ber drengskap hans fagurt vitni.

Nafn Styrmis er og verður með órjúfanlegum hætti  tengt Morgunblaðinu og ritstjóratíð þeirra Matthíasar Jóhannessen, sem var stórveldistímabil blaðsins. Saman breyttu þeir því úr flokksblaði í þjóðarvettvang. Saman tóku þeir, ásamt okkur jafnaðarmönnum, upp baráttuna fyrir því, að auðlindir Íslands  yrðu í stjórnarskrá lýstar þjóðareign. Og að þjóðin fengi í sinn hlut réttmætan arð af nýtingu þeirra. Því stríði er ekki lokið. Og það sem verra er: Blaðið, sem þeir Matthías beittu í þessari baráttu í þágu þjóðarhagsmuna,  er nú gefið út og kostað af þeirri nýríku yfirstétt, sem  hirt hefur auðlindararðinn í skjóli pólitísks valds.

Það var Styrmi líkt, að hann hélt áfram, eftir að hann stóð upp úr ritstjórastólnum, að láta til sín taka til stuðnings góðum málum til hinsta dags.

Við Bryndís kveðjum bernskuvin okkar þákklátum huga með virðingu og söknuði.

Jón Baldvin og Bryndís