LAND TÆKIFÆRANNA

Það fer vart fram hjá neinum, að nýfrjálshyggjuliðið í Sjálfstæðisflokknum heyr nú kosningabaráttu sína undir kjörorðinu: „Land tækifæranna“. Það rifjar upp fyrir mér, að fyrir nokkrum árum birti tímaritið Economist sérstaka skýrslu um norræna módelið. Höfundarnir komust að þeirri niðurstöðu, að norræna módelið væri „the most successful socio-economic model on the planet“, á öld hnattvæðingar.Í því hefði tekist að sameina andstæðurnar „hagkvæmni og jöfnuð“. Norræna módelið væri hvort tveggja í senn, samkeppnishæfasta og mesta jafnaðarþjóðfélag á jarðríki. Það hefði afdráttrlaust leyst Ameríku af hólmi sem „land tækifæranna“. En höfundur skýrslunnar, hr. Wooldridge, reyndist vera illa smitaður af bakteríu nýfrjálshyggjunnar eins og fleiri. Hann reyndi því að gera sitt besta til að þakka sænskum íhaldsmönnum, sem hafa verið við völd skamma hríð á seinustu árum, fyrir þennan óviðjafnanlega árangur. Sannleikurinn er hins vegar sá, að sænska velferðarríkið, þessi völundarsmíð sænskra jafnaðarmanna, stendur óhögguð. Sænskir íhaldsmenn hafa ekki dirfst að hagga við undirstöðunum, heldur orðið að láta sér nægja að fitla við smábreytingar á jaðrinum. Ég sendi því bréf til ritstjórans með rökstuddri gagnrýni á þessi áróðrsbrögð. Það segir sína sögu um ritstjórnarstefnu Economist, að þrátt fyrir að þeir hafi óskað sérstaklega eftir viðbrögðum lesenda sinna, stungu þeir athugasasemdum mínum undir stól. Ég þykist vita, að Kjarninn þori að birta það sem ritstjóri Economist þorði ekki að trúa lesendum sínum fyrir. Hér kemur það: Hr. Ritstjóri: Tilraun hr. Wooldrigde til að skýra ótvíræðan árangur norræna módelsins á öld hnattvæðingar sem einhvers konar frjálshyggjufix á seinustu árum (sjá special report: The Nordic Model, feb.2. 2013) er ekki einasta fjarri sanni, heldur beinlínis aumkunarvert. Norræna módelið er ekki um það að uppræta kapitalismann, heldur um að beisla hann. Það er ekki um það að útrýma markaðskerfinu, þar sem það á við, heldur um það að viðhalda samkeppni með viðeigandi ríkisíhlutun, í þágu almmannahagsmuna. Það er ekki hvað síst fyrir þá sök, að forystumönnum á Vesturlöndum, undir áhrifum nýfrjálshyggjunnar, hefur láðst að fylgja þessu fordæmi, sem veldur því, að Bandaríkin og Evrópusambandið eru nú í djúpri kreppu. Það er eins og Tage Erlander, forsætisráðherra Svía í tæpan aldarfjórðung og einn helsti umbótafrömuður jafnaðarmanna á seinustu öld sagði: Markaðurinn er þarfur þjónn en óþolandi húsbóndi“. Öfugt við breska Verkamannaflokkinn og sósíalistaflokka á meginlandi Evrópu þjóðnýttu sænskir jafnaðarmenn nánast ekkert í atvinnulífinu, þótt þeir tryggðu sameign þjóðarinnar að lögum á landi og auðlindum. Sem ráðandi stjórnarflokkur í u.þ.b. 70 ár byggðu þeir eitt mesta jafnaðarþjóðfélag á jarðríki. Þeir gerður það m.a. með stighækkandi skattlagningu, gjaldfrjálsum aðgangi að menntun og heilbrigðisþjónustu, skylduaðild að lífeyrissjóðum, virkri vinnumarkaðspólitík til að uppræta atvinnuleysi, nægu framboði félagslegs húsnæðis á viðráðanlegum kjörum og með margvíslegum aðgerðum til að tryggja jafnræði kynjanna í reynd. Með þessum úrræðum útvíkkuðuð þeir frelsi einstkaklingsins í verki, eins og Olof Palme var óþreytandi að minna á, og komu í veg fyrir, að frelsið væri í reynd forréttindi fárra. Það sem skilgreinir sérstöðu norræna módelsins er þetta: Fulltrúar vinnuaflsins – ekki eigendur fjármagnsins – byggðu jafnaðarsamfélag í krafti lýðræðis, í stað þess að sætta sig við þann ójöfnuð, sem óheftur markaður skapar. Þetta er eina þjóðfélagsgerðin, sem mótuð var í hugmyndafræðilegum átökum seinustu aldar og staðist hefur dóm reynslunnar á öld alþjóðavæðingar – með yfirburðum. Hr. Wooldridge viðurkennir þetta með eftirfarandi orðum: „Þjóðfélög Norðurlandabúa hafa það umfram flesta aðra að virkja hæfileika því sem næst allra… Þar er langmestur félagslegur hreyfanleiki (e. social mobility) í heiminum, þ.e. getan til að vinna sig upp úr fátækt til bjargálna. Samanburður háþróaðra þjóðfélaga, sem mælir félagslegan hreyfanleika, leiðir í ljós, að Norðurlönd (Danmörk, Noregur, Svíþjóð og Finnland) skipa 4 efstu sætin. Bandaríkin og Bretland, höfuðvígi nýfrjálshyggjunnar, sitja eftir á botninum. Og Woolbridge heldur áfram: „Norðurlanda búar eru að mestu lausir við þjóðfélagsmein, sem hrjá Bandaríkin. Nánast sama á hvaða mælikvarða við metum heilbrigði þjóðfélagsins – á hagræna mæilkvarða eins og framleiðni og tækniframfarir eða félagslega kvarða eins og um ójöfnuð og glæpastarfsemi – eru Norðurlöndin í fremstu röð“. Með öðrum orðum: Norræna velferðarríkið skarar langt fram úr Ameríku sem „land tækifæranna“ – sem einu sinni átti að vera holdgerving ameríska draumsins. Viðleitni hr. Wooldridge til að þakka þennan eftirbreytniverða árangur nýfrjálshyggju- trúboðum í röðum íhaldsmanna, sem hafa notað tækifærið til að krukka í kerfið hér og þar, en hafa ekki dirfst að hagga undirstöðunum, er misráðin, svo að ekki sé meira sagt. Norræna módelið blívur, þrátt fyrir margvísleg skemmdarverk markaðstrúboðsins. Sumar þeirra „umbóta“, sem hr. Woolbridge tíundar máli sínu til sönnunar, eins og t.d. samdráttur opinbera geirans og lækkun jaðarskatta, eru breytingar, sem voru vel á veg komnar í fjármálaráðherratíð Görans Person og síðan í forsætisráðherratíð hans. Aðrar, svo sem eins og einkavæðing á umönnun aldraðra, hefur að flestra mati reynst illa; flokkast undir mistök, sem þarf að leiðrétta. Norræna velferðarríkið – andstætt alræðishyggju kommúnismans og blindri markaðstrú nýfrjálshyggjunnar – er hið sögulega afrek verkalýðshreyfingarinnar og hins pólitíska arms hennar, jafnaðarmannaflokkanna á Norðurlöndum. Staðreyndirnar tala sínu máli. Þetta eru eftirsóknarverðustu þjóðfélög í heimi“. NIÐURSTAÐAN: Ef við viljum byggja upp „land tækifæranna“ á Íslandi, eins og annars staðar á Norðurlöndum, ber okkur að vísa trúboðum nýfrjálshyggjunnar á dyr út úr stjórnarráðinu í næstu kosningum. Því að til þess eru vítin að varast þau. (Höfundur var formaður Alþýðuflokksins – Jafnaðarmannaflokks Íslands – 1984-96)