Minning: Finnbogi Rútur Valdimarsson bankastjóri Andlátsfregn Finnboga Rúts föðurbróður míns barst mér í þann mund sem utanríkisráðherrar
V-Evrópuríkja settust á rökstóla í höll Evrópubandalagsins í Brussel – í salarkynnum sem þeir kenna við Karlamagnús.
Mér var hugsað til frænda míns um leið og ég lagði hlustir við orðræðu starfsbræðra minna, í þessari nýju höfuðborg gömlu Evrópu. Mér varð hugsað til þess, að hér hefðihann notið sín öðrum mönnum betur við að sækja og verja málstað Íslendinga í alþjóðamálum og etja kappi við mannvitsbrekkur annarraþjóða, með galdri og kúnst. Hannhefði ekki þurft að nýta neitt túlk unarkerfi, fljúgandi fær sem hann var í höfuðtungum álfunnar: frönsku, spænsku, þýsku og ítölsku (Guðrún dóttir hans hefði kannski þurft að hjálpa upp á rússneskuna). Sérfróður um alþjóðalög og rétt; lifandi alfræðibók um sögu og menningu, hugsunarhátt, hugsjónir, hagsmuni og hindurvitni þeirra þjóða, sem hér áttu fulltrúa viðborðið.
Menntunar sinnar vegna og hugsjóna var Finnbogi Rútur Evrópusinni, í bestu merkingu þess orðs. Hann nam fræði sín í París, Berlín, Genf og Róm við skóla, sem var alþjóðleg stofnun – rekinn af Þjóðabandalaginu gamla. Lífsskoðun hans var þrauthugsuð og pólitískur vilji hans hertur í eldi einhvers mesta mannraunatímabils í sögu Evrópu. Hugsjón hans var alþjóðlegt öryggis- og friðargæslu kerfi, þar sem öfl mannvits og mannréttinda fengju haldið afturaf tortímingaröflum heimsku og ofstækis, sem ævinlega eru reiðubúin að hleypa veröldinni í bál og brand af minnsta tilefni.
Það var því ekki að tilefnislausu sem mér varð hugsað til þessa fjölgáfaða og margbrotna frænda míns um leið og ég hlustaði á fulltrúa hinnar nýju Evrópu reifa ýmsa þætti Evrópuhugsjónarinnar – í nýrri útgáfu. Þetta eru spennandi tímar. Fámenn þjóð eins og okkar þarf nú sem aldrei fyrr á að halda fleiri mönnum eins og Finnboga Rút Valdimarssyni, til þess að sjá fótum sínum forráð í samskiptumvið hið rísandi Evrópustórveldi. Og til þess að nema stóru drættina í þeirri nýju heimsmynd, sem smámsaman er að verða til fyrir augum okkar.
Þversagnirnar í lífi og starfi Finnboga Rúts hljóta að hafa rekist harkalega á, á stundum: sérfræðingur í alþjóðamálum, sem gerðist tribunus populus fátæks fólks í berangri Kópavogs; hinn róttæki vinstrisinni sem fyrirleit kommúnista og alla þeirra fólsku og fordæðuskap; hinn margræði menntamaður og einfari, sem gerðist mesti kosningasigurvegari lýðveldissög unnar og naut einstakrar lýðhylli alþýðufólks. Klassíker, sem gerðist byltingarmaður í blaðamennsku og áróðurstækni. Hæfileikarnir voru svo miklir og margvíslegir að það var ekki einfalt mál, til hvers ættiað nota þá. Og útilokað að fella þá í einn farveg þar sem þeir gætu streymt fram í friðsæld og lygnu.
Að loknu fundaþrasi í Osló, Kaupmannahöfn, Brussel og Strasbourg, tókum við Bryndís næturlest til Mílanó og eyddum þremur dögum í litlu miðaldaþorpi á ítölsku strandlengjunni skammt frá Genúa. Einnig þetta umhverfi vakti upp minningar um frænda minn. Á þessum slóðum eyddi hann mörgum sumrum á námsárunum, við þröngan kost en fullur af lífsþorsta og fróðleiksfýsn. Saga Evrópu verður hvergi betur skilin en frá miðpunkti markaðstorgsins í miðaldaþorpi við Miðjarðarhafið. “The Glory that was Greece and the Grandeur that was Rome” – af þeirri rót er það allt saman upprunnið. Af þessum slóðum sneri hann ungur heim, brenndur af suðrænni sól, framandlegur í hugsun og háttum, en ráðinn í að leggjafram sinn skerf í lífsbaráttu þess útkjálkafólks, sem ól hann.
Alþýðuflokkurinn og vinstrihreyfingin á Íslandi á Finnboga Rút mikið upp að unna. Það var Jón Baldvinsson sem kvaddi Finnboga Rút ungan heim til starfa í þágu Alþýðuflokksins og verkalýðshreyfingarinnar. Finnbogi Rútur gerði Alþýðublaðið að stórveldi á einni nóttu. Hann ruddi brautina fyrir mesta kosningasigur Alþýðuflokksins fyrr og síðar og þar með fyrir ríkisstjórn hinna vinnandi stétta, sem vann stór afrek við að létta alþýðu manna lífsbaráttuna á tímum heimskreppu og í aðdraganda heimsstyrjaldar. Síðan skildi leiðir, en málstaðurinn var hinn sami: Þjóðfélag jafnaðarstefnu, mannréttinda og mannúðar. Þeim málstað þjónum við enn. Og senn liggja allar leiðir til Rómar æsku hugsjónarinnar á ný.
Fyrir hönd Alþýðuflokksins flyt ég ekkju Finnboga Rúts, Huldu Jakobsdóttur, vinum hans, afkomendum og aðdáendum fjölmörgum dýpstu samúðarkveðjur.
Jón Baldvin Hannibalsson,
formaður Alþýðuflokksins.