Árni Gunnarsson: Brosað gegnum tárin, ritdómur

BÓKIN HENNAR BRYNDÍSAR.
Bryndís Schram, þjóðþekkt kona og umtöluð, hefur skrifað nýja bók, sem hún nefnir “Brosað gegnumtárin”. Efni bókarinnar; líf hennar sjálfrar og með eiginmanninum Jóni Baldvin Hannibalssyni. Frásögn hennar spannar allmörg ár, en tími sögunnar afmarkast ekki endilega af ártölum, fremur af atburðum, verkefnum eiginmannsins og ferðalögum.
Í upphafi bókar rifjar hún upp hamingjusama bernsku sína, fjallar um ástríka foreldra, árin í MR, ballettnám og þátttöku í leiksýningum. Fátt skyggir á gleði hennar. Hún á sér drauma um frekara nám og þátttöku í heimi leiklistar. Dansinn er hennar mesta gleði og ástríða.

Í vöggugjöf hefur hún fengið flest, sem ungar konur sækjast eftir; fegurð, sjálfstæða hugsun og vilja. Öll framganga hennar er frjálsleg, hún lærir mörg tungumál og verður ósjaldan öðrum eftirsóttari á hverskonar mannamótum. Þessir hæfileikar eru henni mikilvægir, þegar hún fylgir manni sínum; utanríkisráðherra og sendiherra, um víðan völl stjórnmála og við embættisverk. Hvervetna vekur hún athygli og er manni sínum ómetanleg hjálparhella.
En þrátt fyrir –og kannski vegna persónutöfra sinna – opnast gáttir öfundar í hennar garð. Öfundinni fylgir svo umtal, sem skjótt breytist í óhróður og illmælgi, sem á sér fá takmörk. Saga hennar tekur breytingum, verður sorgar- og harmsaga. Dauði og veikindi breyta og færa úr lagi allt fjölskyldulífið. Síðan bætast við fullyrðingar um ósæmilega framgöngu manns hennar, kærumál og átök.

Þegar hér er komið sögu breytist allt. En Bryndís á í fórum sínum kjark og þorog hún er eins og klettur við hlið manns síns í átökum hans við einstaklinga, sem telja það eitt af sínum helstu verkefnum, að ausa hann ásökunum og illmælgi. Það slettist á Bryndísi og hún er ásökuð um meðvirkni og kaldlyndi.

Hennar viðbrögð eru að skrifa þessa bók. Þar dregur hún ekkert undan, hlífir hvorki sjálfri sér né öðrum. Það er sagt, að það sér enginn vandi að vera kjarkaður ef maður er ekki hræddur. Og Bryndís er óttalaus. Hún er að verja sjálfa sig og fjölskylduna. Fyrir bragðið er hún hreinskiptin og frásögn hennar útskýrir ýmislegt, sem flestum hefur verið hulið.
Bókin er lipurlega skrifuð og hún er lærdómsrík; kemur hvað eftir annað við kviku og hlýtur að vera sársaukafull. Bryndís leynir ekki ást sinni á eiginmanninum og hún minnir á kvenhetjur fornsagnanna, sem öllu fórnuðu til varnar fjölskyldum sínum og vinum. Þetta er bók um skelfilegar afleiðingar öfundar, óhróðurs og jafnvel haturs. Bókin er holl lesning.

Árni Gunnarsson.