Ásdís Bergþórsdóttir: Brosað gegnum tárin, ritdómur

Sæl og blessuð Bryndís mín

Nú verð ég að útskýra smávegis. Ég vinn tvö störf annars vegar sem forritari og hins vegar sem sálfræðingur (reyndar er ég í því þriðja sem krossgátuhöfundur) og það hefur verið brjálað að gera hjá mér.

Nema hvað – af því að ég er bóhemi og fylgi fáum forskriftum samfélagsins þá ákvað ég fyrir nokkrum mánuðum að ég ætlaði að kaupa mér infra-rauða saunu og setja upp í borðstofunni minni! Það er búið að vera snarbrjálað að gera hjá mér – ég vinn 12-14 tíma á virkum dögum. Ég ákvað að borðstofan yrði vinnuherbergi, hvíldarherbergi og gestaherbergi. En þegar ég kom í sauna-klefann þá hafði ég allt í einu tíma – í staðinn fyrir að vera á útopnu, æðandi á milli verka þá var ég róleg og allt í einu fattaði ég – þetta er brillant tími til að lesa! Þannig tókst mér að klára bókina þín í infra-rauðum sauna klefa.

Eftir að hafa lesið þessa bók hef ég eina spurningu fyrir þig – Hefurðu velt fyrir þér hvernig leikkonan sem mun leika þig í framtíðinni mun standa sig? Fyrir mér er augljóst að einhver mun skrifa leikrit/sjónvarpsþátt/kvikmynd um þetta – kannski bara eftir 200 ár – ímyndaðu þér Ragnheiði Brynjólfsdóttur. Mig grunar að samfélagið eftir 200 ár muni sjá okkar tíma öðruvísi. Það er tilhneiging til að galdraveiða í nútímanum og við getum lítið gert við því. Framtíðin getur horft gerólíkum augum á ykkur hjónin.

Jón mun alltaf eiga EES-samningin og Eystrasaltslöndin. Enginn getur tekið það af honum. En þú er kannski meira spennandi ef það þarf að setja þetta á svið – þú ert listakona og tilfinningavera. Þú getur borið upp heilt leikrit bara á tilfinningum þínum. Þó nútíminn skilji þig ekki þá þarf framtíðin ekki að vera slík. Sannleikurinn er í orðum Davíðs Stefánssonar: “Fáir njóta eldanna, sem fyrstir kveikja þá.” Það sjáum við ítrekað í sögunni.

Farðu vel með þig Bryndís, vonandi getum við hittst þegar covid er búið.

kveðja
Ásdís