Styrmir Gunnarsson: Brosað gegnum tárin, ritdómur

Kynni okkar Bryndísar Schram hófust haustið 1948, þegar hún settist í 10 ára bekk í Melaskólanum, sama bekk og við Atli Heimir Sveinsson, síðar tónskáld, höfðum verið í frá átta ára aldri. Þá þegar fóru sögur af henni, sökum glæsileika og persónutöfra. Ekkert okkar þriggja vissi þá, að við ættum eftir að verða vinir til æviloka. Við strákarnir héldum okkur í hæfilegri fjarlægð frá þessari „primadonnu“, sem þá var að verða til. Höfum sennilega verið hræddir við hana og það sama sýndist mér eiga við um menntaskólaárin.

Fyrir skömmu kom út bók eftir Bryndísi, sem heitir Brosað gegnum tárin, sem er eins konar uppgjör hennar við stormasamt líf. Framan af er bókin lifandi og skemmtileg. Svo tekur sársauki og harmleikur við.
Hvort ætli móti okkur öll meira – velgengni eða erfiðleikarnir í lífinu?

Sjálfur held ég að það séu erfiðleikarnir, sem um leið eru þroskandi. Þeir gera okkar að öðru vísi einstaklingum, en við ella hefðum orðið. Ég hef kynnzt Bryndísi betur við lestur þessarar bókar en á þeim 72 árum, sem við höfum þekkzt. Í henni er að finna meiri dýpt en ég hef áður orðið var við í hennar fari. Kannski er það mótbyrinn og erfið lífsreynsla, sem hefur kallað hana fram.

Við strákarnir sem vorum samtíma henni í skóla, litum upp til hennar og bárum mikla virðingu fyrir henni.
Þeirri upplifun lýsti ég í bók minni, Í köldu stríði – Barátta og vinátta á átakatímum – sem út kom hjá Veröld 2014 með þessum orðum:
„En þrátt fyrir sívaxandi pólitísk umsvif höfðu þeir okkar sem heima sátum, tíma til að fara í Þjóðleikhúsið þessi misseri – aftur og aftur, sátum þar gjarnan á fremsta bekk og störðum – orðlausir af aðdáun –á hina nýju primaballerínu Þjóðleikhússins, Bryndísi Schram, svífa um sviðið.“

Samfélag okkar á þeim árum var bæði fordómafullt og þröngsýnt. Þegar samband þeirra Jóns Baldvins Hannibalssonar og Bryndísar var orðið lýðum ljóst, man ég eftir umtali um þessa vini mína, þar sem furðu var lýst yfir því, að að heildsaladóttir úr Vesturbænum tæki saman við son alþýðuhetjunnar Hannibals Valdemarssonar.
Þeir fordómar og sú þröngsýni birtust líka í því, sem fram kemur í bókinni og ég fylgdist með á þeim tíma, að þegar Jón Baldvin kom heim frá námi, með háskólapróf í hagfræði, fékk hann hvergi vinnu vegna þess að hann var sonur Hannibals. Þess vegna fór hann að kenna í Hagaskóla.

Að þessu leyti hefur okkur farið fram. Í dag væru ekki gerðar athugasemdir við slíkt samband „heildsaladóttur“ og son þekkts stjórnmálaforingja á vinstri kantinum. Og slíkur einstaklingur mundi ekki vera útilokaður frá starfi á sínu sviði – eða hvað?

Lifandi lýsingar Bryndísar af Vesturgötunni og fólkinu þar og frá Ísafirði eru skemmtilegar sem og margvíslegar frásagnir hennar af samskiptum þeirra Jóns Baldvins við erlenda stjórnmálamenn, þekkta og óþekkta.
Þegar ég var að lesa bókina rifjuðust upp fyrir mér orð, sem skólabróðir minn úr Melaskólanum, Hörður heitinn Sigurgestsson, síðar forstjóri Eimskipafélagsins, lét einu sinni falla í samtölum okkar: Umtalið er grimmt sagði Hörður.
Og það er rétt. Umtalið í svona fámennu samfélagi getur verið ótrúlega grimmt. Og það er sú grimmd, sem Bryndís á erfitt með að sætta sig við. Umfjöllun hennar um þann þátt mannlífsins vekur upp þá spurningu, hvort viðkvæmni hennar hafi verið og sé slík, að hún hafi þolað illa þá grimmu pólitísku veröld, sem var veröld þeirra Jóns Baldvins.
Fyrir allmörgum árum flutti ég ræðu á ársfundi Rotary-félaga í Kópavogi. Þema þeirrar ræðu var: Ef þið viljið eiga farsælt líf, haldið ykkur frá fjölmiðlum. Að sumu leyti má segja, að þau Jón Baldvin hafi lifað lífi sínu í fjölmiðlum – ekki vegna þess að þau hafi sótzt eftir því, heldur vegna þess, að þau gátu varla hreyft sig án þess, að fjölmiðlar væru á eftir þeim. Og reyndar ekki bara fjölmiðlar.

Fyrir nokkrum áratugum fór ég með þeim á milli nokkurra öldurhúsa. Alls staðar þyrptist fólk að þeim báðum og ég gat ekki betur séð en það væri samkeppni á milli þeirra um athyglina. Hún vann alltaf.
Fyrr á árum voru ekki til margar slíkar „stjörnur“ á Íslandi. Og það er ekki endilega farsælt að vera „stjarna“. Það eru líka dökkar hliðar á þeirri tilveru.

En allt eru þetta aukaatriði í lífi þeirra Bryndísar og Jóns Baldvins, sem skipta engu máli þegar kemur að alvöru lífsins. Fráfall Snæfriðar, dóttur þeirra í blóma lífsins, er áfall sem aldrei hverfur og sá harmleikur, sem tengist Aldísi dóttur þeirra ólýsanlegur.

Ég man vel eftir því, þegar Aldís fæddist. Í mig hringdi æskuvinur okkar allra, Ragnar Arnalds, síðar formaður Alþýðubandalagsins, þingmaður og ráðherra og sagði: Veiztu hver eignaðist barn í gær? Nei, sagði ég. Bryndís Schram sagði hann. Það getur ekki verið sagði ég, hitti hana í fyrradag og hún var ekki ófrísk.
Aldís fæddist og fyrir nokkrum árum töluðum við saman á fundi í Iðnó. Það var upplifun að sjá persónutöfra móður hennar og ræðusnilld föður hennar sameinast í einni og sömu manneskju.

Fyrir u.þ.b. þremur áratugum sátu þau feðgin í stofunni heima hjá mér, við Jón Baldvin rifumst eins og við höfum gert alla tíð og ég staðhæfði að hann hefði aldrei orðið sami alþýðuforingi og pabbi hans, Hannibal, var. Þá sagði Aldís:
„Hann pabbi? Hann hefur aldrei keppt við neinn annan en pabba sinn“. Mér varð litið á Jón Baldvin, þegar hún sagði þetta og sá, að hún hafði hitt hann í hjartastað.

Bryndís hefur í bók sinni tilhneigingu til að kenna sjálfri sér um. Staðreynd er hins vegar að þegar við vorum ung var lítið vitað um sálarlíf barna. Á síðustu rúmri hálfri öld hafa margvíslegar rannsóknir leitt margt í ljós, sem þá var ekki vitað, sem gjörbreytir öllum viðhorfum. Barnaverkefni Ásmundar Einars Daðasonar, barnamálaráðherra, sem mun birtast á Alþingi í haust, snýst um að taka á málum, sem enginn vissi neitt um í þá daga.
Bók Bryndísar Schram er verðugt innlegg í þær umræður, sem framundan eru um þau mál.
Styrmir Gunnarsson