Mig hafði aldrei órað fyrir því, að ég mundi einn góðan veðurdag standa á Maidan, þessu sögulega torgi í Kyiv, höfuðborg Úkraínu, þar sem óþreyjufullir borgarar komu saman fyrir rétt rúmu ári í uppreisn gegn spillingu stjórnvalda – heimtaði réttlæti og sanngirni, betra líf, bjartari framtíð – á torginu, þar sem byltingin breyttist í blóðbað og hinir hugdjörfu féllu fyrir byssukúlum leigumorðingja, forsetinn flúði land, boxarinn, Klitschko, varð borgarstjóri, og súkkulaðikóngurinn, Poroschenko forseti.
Hvítar steinhellurnar bera enn lit blóðsins, fánarnir standa uppi og myndir af hinum föllnu blasa við forvitnum ferðalöngum. “En hvar eru öll blómin”, spurði ég leiðsögukonuna. “ Þú átt við blómin, sem fólk bar að til að heiðra minningu hinna föllnu? Hér var mikið blómahaf, alveg rétt, en í skjóli nætur voru blómin hirt og seld aftur sem ný daginn eftir”, sagði hún og glotti. Ég horfði á hana undrandi og hrygg – jafnvel á örlagastundu er maðurinn samur við sig.
Sólin var komin hátt á loft. Samt andaði köldu, miður apríl. Það var hrollur í mér.
Að vísu höfðum við haft einhvern pata af því, að gestgjafar okkar væru bankamenn með einhver umsvif í Eistlandi. Þess vegna spurðum við eistneska vini frá fornu fari, hvort þetta væru fjárplógsmenn? Þeir fullvissuðu okkur um, að þessi náungar væru O.K. Engin furða. Það sem vakti fyrir ólígarkanum, sem átti bankann, var að koma því til skila til hinna ofurríku – og hinna næstum því ríku í Úkraínu – að peningarnir þeirra væru í öruggu skattaskjóli í Eistlandi. Eistland væri hið nýja Sviss norðursins. Bara öruggara!
Lesa meira