Ég var eiginlega bara barn að aldri, þegar ég kynntist honum – milli tektar og tvítugs, eins og sagt er. Hann var þá nýkvæntur maður, guðfræðistúdent við Háskóla Íslands. Ég var á leið til Ameríku – á Löngufjöru – með viðkomu í höfuðborg heimsins, New York, en þar átti ég að dveljast í nokkra daga. Sigurður var kjörinn leiðsögumaður minn – eða fararstjóri.
Minning um Sigurð A. Magnússon, sem við kveðjum hinstu kveðju í Hallgrímskirkju í dag.
Þau eru að hverfa á braut hvert á fætur öðru – ganga út af leiksviði lífsins – gamlir vinir, bóhemar og artistar, sem voru í blóma lífsins á seinni hluta liðinnar aldar. Í daglegu lífi minntu þau á persónur úr skáldsögum, sem ekki fundu sér stað innan ramma hversdagsleikans – höfnuðu enda hversdagleikanum. Í þeirra augum var lífið – með öllum sínum sorgum og allri sinni gleði – óendanlegt yrkisefni, sem þau spunnu sinn þráð úr. Guðmunda Elíasdóttir og Bragi Ásgeirsson, bæði tvö nágrannar og vinir á Vesturgötunni, Thor Vilhjálmsson, sem kom alla leið úr Vogunum til að lesa upp úr nýjum bókum fyrir vini í gamla bænum. Öll nýgengin – og nú síðast Sigurður A. Magnússon, saddur lífdaga.