Ríki óttans

Ég átti mér einskis ills von þennan fagra föstudagsmorgun. Sólhvítur himinninn rann saman við hafið bláa, sem bærðist varla í logninu. Við vorum að aka eftir N340, sem er gamla þjóðbrautin með sjónum á milli Malaga og Almeríu. Vegurinn ýmist hangir utan í snarbröttum klettaveggjum eða beygir inn í djúp gljúfur, þar sem jafnvel sólin sjálf nær ekki að skína í morgunsárið. Ég sat undir stýri. Við ætluðum á markaðinn í Almunécar.

Sem ég er að beygja burt undan sólinni og inn í eitt gljúfrið, stendur ekki groddalegur karlmaður, merktur Guardia Civil. Hann stendur við vegkantinn og gefur okkur merki um að nema staðar. – Satt að segja fæ ég alltaf smáhræðslukast, þegar spænska löggan er annars vegar. Og frá því var engin undantekning að þessu sinni, þó svo að ég væri bæði bláedrú, með beltið spennt og glænýtt ökustírteini í töskunni. Maðurinn var merktur Guardia Civil, nota bene – ekki Policia local (staðarlögregla). Þeir eru komnir aftur – falangistarnir – hin sauðtryggu handbendi ógnarstjórnarinnar, sem voru þekkt fyrir algert miskunnarleysi í samskiptum við saklaust fólk.

Lesa meira

Ríki Óttans

Ég átti mér einskis ills von þennan fagra föstudagsmorgun. Sólhvítur himinninn rann saman við hafið bláa, sem bærðist varla í logninu. Við vorum að aka eftir N340, sem er gamla þjóðbrautin með sjónum á milli Malaga og Almeríu. Vegurinn ýmist hangir utan í snarbröttum klettaveggjum eða beygir inn í djúp gljúfur, þar sem jafnvel sólin sjálf nær ekki að skína í morgunsárið. Ég sat undir stýri. Við ætluðum á markaðinn í Almunécar.

Sem ég er að beygja burt undan sólinni og inn í eitt gljúfrið, stendur ekki groddalegur karlmaður, merktur Guardia Civil. Hann stendur við vegkantinn og gefur okkur merki um að nema staðar. – Satt að segja fæ ég alltaf smáhræðslukast, þegar spænska löggan er annars vegar. Og frá því var engin undantekning að þessu sinni, þó svo að ég væri bæði bláedrú, með beltið spennt og glænýtt ökustírteini í töskunni. Maðurinn var merktur Guardia Civil, nota bene – ekki Policia local (staðarlögregla). Þeir eru komnir aftur – falangistarnir – hin sauðtryggu handbendi ógnarstjórnarinnar, sem voru þekkt fyrir algert miskunnarleysi í samskiptum við saklaust fólk.

Lesa meira

Að gefnu tilefni

Tengdafaðir minn, Hannibal Valdimarsson, var einhver umdeildasti stjórnmálamaður Íslands, meðan hann lifði. Vestfirðingur í húð og hár, eins og flestir vita. Þegar ég var unglingur í Vesturbæ Reykjavíkur, sá ég oft myndir af honum í Morgunblaðinu. Þessum myndum fylgdi yfirleitt einhver skætingur og níð um persónu hans – en aldrei þó, að hann væri barnaníðingur, merkilegt nokk!

Ég man það ekki núna, hvort ég lagði einhvern trúnað á það sem ég las eða hvort það snerti mig yfirleitt nokkuð. Þó leyni ég því ekki, að mér stóð hálfgerður stuggur af honum, þegar við hittumst í fyrsta sinn. Danasleikja, landráðamaður, laumukommi, uppreisnarseggur, lýðskrumari, kvennabósi, lygari, óþverri – eflaust hafa öll þessi orð komið upp í huga mér. Ég hafði lesið þau í Blaðinu – blaði allra landsmanna – svo oft, svo oft.

Lesa meira

Árin okkar í Ameríku – fáein vel valin orð af gefnu tilefni.

Æran
félagi Orðrómur
félagi Orðrómur
margur hefur það heyrt
sem hefur verið fleygt að…
(Þröstur J. Karlsson í ljóðabókinni: Einn apaköttur sagði þá, afskaplega er gaman)

Í áranna rás höfum við Jón Baldvin vanist því að lesa um okkur – annað hvort eða bæði – allra handa óhróður, oftast nær nafnlaust. Mest af þessu flokkast undir pólitískt skítkast og fylgir starfslýsingu stjórnmálamannsins. Menn læra smám saman að taka því eins og hverju öðru hundsbiti. Stundum er þetta runnið undan rifjum fólks, sem á af einhverjum ástæðum bágt og finnur hjá sér þörf að kenna öðrum um eigin ófarir.

Það er hins vegar nýtt fyrir mér að sjá níðið klætt í viðhafnarbúning fræðimannsins, eins og reynt er að gera í nýlegri bók eftir Björn Jón Bragason. Þar eru gróusögurnar bornar á borð með vísan í ónafngreinda heimildamenn (sjá skrá yfir heimildamenn aftast í bókinni). Með öðrum orðum: rógberarnir þora ekki að standa við orð sín undir nafni. Einstaklingar, sem þannig koma fram gagnvart öðrum, dæma sig sjálfir. Þeir eru ekki svaraverðir. Samt neyðist maður til að leiðrétta gróusögurnar, svo að saklaust fólk glepjist ekki til að trúa þeim.

Lesa meira

KOMIN HEIM Í HEIÐARDALINN

Það er sunnudagur síðdegis þegar þau koma til fundar við mig, sparibúin og glæsileg, enda að fara út að borða og síðan í leikhús. Bryndís Schram lítur út eins og ung fegurðardís og Jón Baldvin Hannibalsson brosir, líka með augunum, nokkuð sem mér finnst hann ekki gera nógu oft í viðtölum. Brosið þá er svona meira út í annað munnvikið og mér hefur stundum sýnst að hann finni jafnvel til með þeim fréttamanni sem hefur hann í viðtali. Við setjumst við lítið fundarborð. Sitjum í þríhyrning, þau hvort á móti öðru og skiptast á augnaráði sem fyllir mig öfund. Þegar þau hafa horfst í augu dágóða stund líta þau bæði á mig spyrjandi.

-Hvernig var að koma heim?
Bryndís lítur af mér og horfir litla stund þögul á hann Jón sinn, kannski eins og hún sé að bíða eftir því að hann svari fyrst, en hann brosir bara út í annað og þegir. Kannski er þögnin merki til Bryndísar um að tala, samsæri þagnarinnar er óþarft núna. Þau eru ekki lengur sendiherrahjón með þagnarskyldu.
Bryndís hallar sér fram og krossleggur langa píanistafingur, stór hringur áberandi vottur um dýran smekk. Um háls hennar er eins konar skrautkeðja sem fer vel við dökkan kjólinn, andlitið eitt varlegt bros sem síðan hverfur vegna alvöruþunga orðanna. Hér talar fyrrverandi sendiherrafrú Íslands í Bandaríkjunum og Finnlandi.
“Það var mikið áfall að koma heim!”

Lesa meira

SAGAN EINS OG HÚN BLASIR VIÐ ÚT UM GLUGGA SÍBERÍUHRAÐLESTARINNAR

Ferðasaga Bryndísar og Jóns Baldvins. Þessi ferðasaga er tileinkuð gestgjöfum okkar,
Gunnari Snorra Gunnarssyni í Beijing og Mörtu Snæfríðardóttur Brancaccia í Berlín.

I.

Jón Baldvin:

Það eru 22 ár frá því við vorum seinast i Kína. Það var árið 1996. Við heimsóttum ellefu borgir á þremur vikum, fórum þvers og kruss um þetta meginland, sem Kína er. Þegar Mao skildi við, árið 1976, eftir rúman aldarfjórðung við stjórnvölinn, voru lífskjör í Kína svipuð og í Bangladesh, ca. 160 dollarar á mann á ári, segir Alþjóðabankinn.
Þegar við vorum hér þá, hafði Deng Xiaoping verið við völd í hálfan annan áratug. Umskiptin voru þá þegar sýnileg í helstu borgum og sveitahéruðum, sem brauðfæddu borgirnar. Opnun Dengs – virkjun markaðsafla undir styrkri stjórn – er stórtækasta og hraðskreiðasta þjóðfélagsbylting, sem sagan kann frá að greina. U.þ.b. 700 milljónum manna (af þessum 1.3 milljarði) hafði verið lyft upp úr miðaldaörbirgð til mannsæmandi lífskjara á undraskömmum tíma. Á liðnum árum hef ég reynt að lesa mér til um þessa super-byltingu af öllum tiltækum gögnum, en vissi þó, að þekking mín var gloppótt.
Vissi varla á hverju ég átti von.

Bryndís

Heimsmeistarakeppnin í fótbolta stóð sem hæst. Jafnvel í Máraþorpinu okkar, efst á þessum hvíta kletti við hafið í Andalúsíu, var allt á öðrum endanum. Karlar á öllum aldri, sem annars virðast aldrei eiga erindi út fyrir hússins dyr – jafnvel konur og börn – þyrptust inn á torgið, þegar leið á kvöldið. Það var búið að koma fyrir stórum sjónvarpsskjá framan við nýja barinn, sem heitir reyndar Boteka, af því að þarna stóð einu sinni apótek. Það var á þeim tíma, sem þorpið á klettinum var og hét.

Þetta var kvöldið sem Ísland datt út úr keppni. Og líka kvöldið, sem nágranni minn gaf mér blómstrandi kaktusafleggjara í sárabætur. Ég hafði aldrei séð blómstrandi kaktus fyrr. Stakk eins og naðra við minnstu snertingu, en í toppinn bar hann rauð blóm, ofurmjúk viðkomu. Nágranninn sagði við mig: Íslendingar eru eins og kaktusinn – harðgerðir, ódrepandi – en blómstra samt. Það síðasta sem ég gerði, áður en við kvöddum húsið okkar að þessu sinni, var að setja afleggjarann í moldarpott á þakinu. Nú er að vita, hvort hann lifir sumarið af.

Lesa meira

Vestfjarðagöng sálarlífsins

Bryndís Schram skrifar um leikritið Svartalogn sem frumsýnt var í Þjóðleikhúsinu 27. apríl síðastliðinn.

Byggt á skáldsögu Kristínar Marju Baldursdóttur
Leikgerð: Melkora Tekla Ólafsdóttir
Leikstjórn: Hilmir Snær Guðnason
Leikmynd: Gretar Reynisson
Búningar: María Th. Ólafsdóttir
Tónlist: Markéta Irglova og Sturla Mio Þórinsson
Lýsing: Halldór Örn Óskarsson
Hljóðmynd: Elvar Geir Sævarsson og Aron Þór Arnarsson

Þar sem ég virti fyrir mér þessa hógværu og lítillátu konu, Kristínu Marju Baldursdóttur, höfund Svartalogns, þar sem hún stóð brosandi fremst á sviðinu, umkringd leikurum og handverksmönnum í lok sýningar, fór ég ósjálfrátt að velta því fyrir mér, hvernig henni liði á þessari stundu. Var hún ánægð? Fannst henni bókin sín, það er að segja skilaboð bókarinnar, komast til skila í leikgerð Melkorku Teklu Ólafsdóttur?

Svartalogn – „himnesk kyrrð, þegar fjöllin þegjandalegu spegla sig í haffletinum, svo hann verður svartur“, segir á einum stað í bók Kristínar Marju. Einmitt þannig upplifði ég sjálf endur fyrir löngu margar stundir í djúpum firði, þar sem fjöllin eru svo há, að enginn kemst yfir þau nema fuglinn fljúgandi.

Lesa meira

Hefur eitthvað breyst?

Leiklestur Í Hannesarholti: Hvað er í blýhólknum?
Höfundur: Svava Jakobsdóttir
Stjórnandi: Þórhildur Þorleifsdóttir
Persónur og leikendur:
Guðbjörg Thoroddsen,
Anna Einarsdóttir,
Jón Magnús Arnarsson,
Ragnheiður Steindórsdóttir,
Arnar Jónsson,
Sigurður Skúlason,
Hanna María Karlsdóttir

Um þessar mundir eru nákvæmlega fimmtíu ár síðan stúdentar við Sorbonne háskóla gerðu byltingu og hættu ekki fyrr en París logaði í óeirðum og götubardögum – einhverjum þeim mestu í sögu borgarinnar. Verkamenn lögðu niður vinnu, flykktust út á götur til liðs við námsmennina og heimtuðu frelsi, jafnrétti og bræðralag. Konur fóru líka út á götu, steyttu hnefann og æptu: við erum líka manneskjur! Simone de Beauvoir var í fararbroddi, boðberi nýrra tíma hinnar frjálsu konu.

Nokkrum árum fyrr minnist ég þess, þegar stúdínur við Edinborgarháskóla fóru í kröfugöngu og heimtuðu pilluna – meira frelsi, jafnrétti og bræðralag. Sú krafa þótti slíkt hneyksli, að virðulegar og sómakærar húsfreyjur í höfuðstað Skotlands fóru huldu höfði og afneituðu kynsystrum sínum.

Lesa meira

Samviskubit?

Höfundur: Florian Zeller
Leikstjóri: Kristín Jóhannesdóttir
Leikarar: Eggert Þorleifsson, Edda Arnljótsdóttir, Harpa Arnardóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson, Þröstur Leó Gunnarsson
Leikmynd: Stígur Steinþórsson
Búningar: Þórunn María Jónsdóttir
Lýsing: Halldór Örn Óskarsson
Tónlist: Borgar Magnason
Hljóðmynd: Elvar Geir Sævarsson og Borgar Magnason
Þýðing: Kristján Þórður Hrafnsson

Mér varð óneitanlega oft hugsað til míns eigin föður í gærkvöldi, þar sem ég sat í leikhúsinu og ýmist grét eða hló yfir ömurlegum elliglöpum André gamla (sem er leikinn af Eggerti Þorleifssyni) – hvernig hann smám saman gefst upp fyrir ellinni, er yfirbugaður, kominn á stofnun og hættur að vera til.

Tvisvar verður gamall maður barn, segir máltækið. „Þú ferð aldrei á elliheimili, ég skal passa þig,“ sagði ég oft við pabba minn á góðum stundum. Þá var hann enn í fullu fjöri, átti heiminn, glæsilegur, örlátur og stórhuga – sterkur persónuleiki. Að vísu ekki verkfræðingur, eins og André, heldur stórkaupmaður, sem átti fyrir mörgum að sjá. En þrátt fyrir stór orð og fögur fyrirheit, þá endaði pabbi sitt líf á dvalarheimili aldraðra. Þar sáu góðar konur – ókunnugar konur – um, að hann tæki lyfin sín, hreyfði sig og borðaði reglulega. Ég var víðs fjarri, stungin af. Ég brást honum, þegar á reyndi. Hann sem var alla tíð svo góður við mig, elskaði mig ofurheitt – en ég brást. Og ég hef aldrei fyrirgefið sjálfri mér.

Lesa meira

Við þurfum að hugsa allt upp á nýtt

Þetta viðtal tók Kolbrún Bergþórsdóttir árið 2017. Það birtist í DV.

Þegar Bryndís samþykkti að koma í viðtal tók hún fram að hún nennti ekki að endurtaka sig og tala um hluti sem hún hefði margoft rætt um: „Mér finnst ég alltaf vera spurð sömu spurninganna“.

Viðtalið hefst því á spurningu um lífið í dag og hvers vegna þau hjón kjósi að búa hluta árs í litlu þorpi á Spáni.

„Þetta var gamall draumur,“ segir Bryndís. Ég hafði mikinn áhuga á latínu í menntaskóla og stóð mig vel í frönsku líka, sem er latneskt mál. Seinna tók ég háskólapróf í báðum þessum tungumálum. Ítölsku lærði ég af því að vinna í fimm sumur sem leiðsögumaður fyrir Ingólf í Útsýn á Ítalíu.

Svo kom að því, mörgum árum seinna, að maðurinn minn varð sendiherra í Bandaríkjunum, þar sem við áttum fimm góð ár. Vegna starfa hans kynntumst við Suður-Ameríku. Það var í fyrsta sinn, sem ég var í löndum, þar sem ég gat ekki tjáð mig á máli heimamanna. Fannst það óþægilegt. Svo að ég ákvað að gera eitthvað í málinu. Fann mér argentínskan kennara, unga kvikmyndagerðarkonu, Andreu, sem kenndi mér málfræði í stofunni sinni, og þegar ég útskrifaðist frá henni, gat ég sótt tíma í George Washington háskólanum.

Lesa meira