Lögreglan endursendi Aldísi, lögfræðingi, skjalið með þeim ummælum að sögur ónafngreindra aðila væru ómarktækar, þar sem ekki væri unnt að kanna sannleiksgildi nafnlausra frásagna. Það eina sem er nýtt er að í upphafi árs 2019 komu sömu konur loks fram undir nafni í fjölmiðlum. Þar voru sögurnar birtar, án athugasemda, gagnrýninna spurninga eða sannprófunar af neinu tagi og án þess að virða andmælarétt hins meinta sökudólgs. Í kaflanum sem hér fer á eftir birtast svör mín við þessum söguburði.
Söguburður
Haustið 2013 birti DV (helgarblað 27.-29. sept) kæru Aldísar Schram á hendur JBH til kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þar er að finna allar sömu sögurnar sem Stundin og aðrir fjölmiðlar hafa nú rifjað upp sex árum síðar. Sömu nöfn – sömu sögur. Eina undantekningin er sviðsetning Carmenar Jóhannsdóttur „á þakinu“ sem fjallað er um í upphafi. Hinar sögurnar fjórar eru sagðar af höfundi kærunnar, Aldísi Schram. Það ætti að vekja athygli athugulla lesenda að þarna er hvergi að finna kærur vegna áreitni við hana sjálfa eða dóttur hennar, systur hennar, móðursystur né vinkonur sem áður voru á hennar sakaskrá.