BÆKLAÐ LÝÐRÆÐI: Grundvallarregla lýðræðis er „einn maður, eitt atkvæði“. Skv. þessari grunnreglu hafa Íslendingar alltaf búið við vanskapað lýðræði. Misvægi atkvæðisréttar var og er svo gróft, að það er í blóra við búsetuþróun í landinu. Kjördæmaskipunin, byggð á misvægi atkvæðisréttar, ein og sér ýtir undir fyrirgreiðslupólitík og hagsmunapot, þ.e. spillingu. Allar tilraunir til að draga úr misvægi atkvæðisréttar eftir búsetu hafa endað í hrossaskaupum um fjölgun þingmanna. Þingmenn eru núna allt of margir. Sjálfur atkvæðisrétturinn hefur verið gerður að verslunarvöru í pólitískum hrossakaupum.
HVAÐ ER EIGINLEGA AÐ?
Þór Saari: Hvað er eiginlega að þessu Alþingi? Skrudda, 2016.
ALMENNT:
Við lestur kversins kom mér í hug húsgangur eftir óþekktan höfund – en í anda Káins: (Þetta er ekki þjóðrækni – þaðan af síður guðrækni – heldur íslensk heiftrækni – og helvítis bölvuð langrækni). Pólitíska útgáfan í anda Káins er hins vegar svona (og gæti þess vegna verið mottó fyrir bókina): Þetta er ekki þingræði – þaðan af síður lýðræði – heldur bara bráðræði – og bölvað endemis fláræði.Mér sýnist þungamiðjan í gagnrýni Þórs snúast um tvennt: Annars vegar er bæklað lýðræði (líkt og í þriðja lýðveldinu franska fyrir endurkomu De Gaulles). Veigamikil rök eru færð fyrir því, að lýðræði verði ekki vakið aftur til lífsins nema með róttækri uppstokkun á grundvelli nýrrar stjórnarskrár. Hin þungamiðjan er gagnrýni á stjórnmál undir hæl harðsvíraðra sérhagsmuna, sem ráða því, sem þeir vilja ráða. Þetta kallast á ensku „crony-capitalism“, sem bætist við frændhygli okkar hefðbundna ættasamfélags. Helmingaskiptareglan – sem síðar er vikið að – staðfestir þetta. Í skjóli hennar þrífst meiri spilling en séð verður með berum augum (vöntun á gagnsæi). Afhjúpun spillingarinnar samkvæmt Panamaskjölunum verður fastur liður eins og venjulega næstu vikur og mánuði.