AFHJÚPUNIN

Hrun efnahagslífsins, sem íslenska þjóðin upplifir nú með vaxandi sársauka frá degi til dags, þýðir að framvegis verður ekkert eins og var. Nú verður ekki lengur undan því vikist að horfast undanbragðalaust í augu við staðreyndir um það sem miður hefur farið í okkar þjóðlífi og við höfum hingað til viljað leiða hjá okkur eða látið liggja milli hluta.

Við þurfum að uppræta hina eitruðu spillingu klíkuveldisins, sem lengst af hefur viðgengist í venslum stjórnmála og viðskipta á lýðveldistímanum. Hrun bankanna á trúlega eftir að afhjúpa ýmislegt sem þolir lítt dagsins ljós. Óeðlilegt útlánaaukning bankanna seinustu mánuðina fyrir hrun til eignarhaldsfélaga í eigu forkólfa helstu auðklíkna vekur upp spurningar um hvað varð af þessum gríðarlegu fjármunum? Mun þeirra sjá stað í raunverulegum eignum auðkýfinganna erlendis? Eða rann stór hluti þessara fjármuna eftir leynilegum leiðum inn á felureikninga gervifélaga í skattaparadísum í Karabíska hafinu, á Kýpur og víðar?

Erlendir aðilar sem fást við að rannsaka ferla rússneskra mafíupeninga um Norðurlönd beina sjónum sínum að eignarhaldsfélögum rússneskra mafíuforingja á eyjum í Karíbahafi. Í leiðinni hafa þeir rekið augun í fjölda eignarhaldsfélaga, þar sem ráða má í íslenskan uppruna þrátt fyrir náið sambýli við rússneska ólígarka. Mun rannsókn á starfsháttum íslensku bankanna hér heima og erlendis fyrir hrun þeirra leiða í ljós að þar hafi verið ástunduð viðskipti báðum megin við landamæri hins glæpsamlega? Mun slík rannsókn einnig leiða í ljós að vottun virtra endurskoðunarfyrirtækja um fjárhagslegt heilbrigði bankanna var ekki pappírsins virði? Á það eftir að koma á daginn að tök fáeinna auðjöfra á öllum helstu auðsuppsprettum íslensks efnahagslífs og stofnunum þeirra voru slík að þeir komust upp með hvað sem var í skjóli leynilegs valds yfir mönnum og stofnunum?

Hvernig voru klíkuvenslin milli stjórnmálaforystunnar og viðskiptajöfranna þar sem á reyndi bak við birgðar dyr? Var þar sömu sögu að segja á landsvísu og gilti á sveitarstjórnarstiginu um hreðjatök fjárfesta og verktaka á sveitarstjórnarmönnum? Verður niðurstaðan sú að innviðir og aðalstofnanir íslenska lýðveldisins hafi verið gegnrotnar af spillingu? Var þetta eitthvað sem okkur bauð í grun að gæti verið satt en þorðum ekki að horfast í augu við? Er tími til kominn að efna til allsherjar hreingerningar á stofnunum íslenska lýðveldisins og moka út öllum skítnum sem þar hefur hlaðist upp á bak við áferðarfalleg fortjöld.

Við getum ekki lengur slegið því á frest að endurskoða stjórnarskrá ríkisins og grundvallarþætti stjórnskipunarinnar. Þær stjórnarskrárbreytingar sem eru mest aðkallandi fyrir næstu kosningar eru þessar: Ákvæði sem felur í sér heimild til Alþingis og ríkisstjórnar um að Ísland geti tekið þátt í fjölþjóðlegu samstarfi sem kveður á um takmarkað fullveldisframsal gegn hlutdeild í samþjóðlegu valdi fjölþjóðastofnana eins og t.d. ESB. Hitt ákvæðið þarf að kveða upp úr um það með afdráttarlausum hætti að auðlindir innan íslenskrar lögsögu svo sem fiskistofnar og orkulindir, séu ævarandi sameign þjóðarinnar.

Stjórnkerfisbreytingar

Nú er tími til kominn að dusta rykið af gömlum tillögum um að kjósa beri forsætisráðherra ríkisins beinni kosningu (franska kerfið) eins og Vilmundur lagði til forðum daga; og að þjóðkjörinn forsætisráðherra velji sér síðan ráðherra utan þings sem beri ábyrgð fyrir þinginu. Enginng egni embætti forsætisráðherra lengur en tvö kjörtímabil. Forsetaembættið er pjattrófuembætti sem þjónar engum tilgangi, en getur orðið til ama og leiðinda sem sýnishorn sýndarmennsku og uppskafnings þegar verst lætur. Það ber því að afnema. Forseta þjóðþingsins verði framvegis falið að annast gestamóttöku á vegum ríkisins.

Alþingi hefur brugðist. Það hefur reynst vera umkomulaus samastaður fyrir áhrifalitlar málfundaæfingar en er að öðru leyti undirdánug afgreiðslustofnun framkvæmdavaldsins. Við þurfum að breyta kosningakerfinu. Við eigum að afnema prófkjör, sem eru gróðrarstía spillingar, og hafa auk þess reynst ófær um að beina hæfileikafólki að stjórnmálaþátttöku. Annaðhvort er að taka upp einmenningskjördæmi, sem tryggir persónukjör, en mun væntanlega leiða til tveggja flokka kerfis að ensk/amerískum sið. Það hefur mikla annmarka. Betra væri að fara að fordæmi Þjóðverja og kjósa helming þingmanna persónukjöri en helming með hlutfallskosningum á landsvísu. Auk þess ætti að fækka þingmönnum um helming en tryggja þeim aðstoðarmenn í staðinn um leið og strangari kröfur eru gerðar um löggjafarhlutverk þingsins.
Ráðuneytin þarf að stokka upp og fækka ráðherrum í fimm til sjö. Setja verður miklu strangari reglur um val í opinberar trúnaðarstöður og herða viðurlög við brotum á þeim reglum. Ráðuneytin og stofnanir ríkisins eru nú fullar af fólki sem hefur það til síns ágætis helst að geta hampað viðeigandi flokksskírteini. Yfirleitt hefur dugað að tilheyra Flokknum. Grunur um hæfni til sjálfstæðrar hugsunar hefur yfirleitt reynst vera alvarlegt handikapp.

Í ljósi þess að fámiðlar í eigu auðkýfinga eru hættulegir lýðræðinu, svo sem reynslan sýnir bæði hér og í Rússlandi , ber að endurskoða hlutverk ríkisfjölmiðilsins. Það þarf að breyta ríkisútvarpinu í sjálfseignarstofnun og beita öllum ráðum til að auka faglegt sjálfstæði stofnunarinnar. Um leið ber að gera strangar kröfur um að stofnunin gegni skyldum sínum sem sjálfstæður gagnrýnandi og frumkvöðull upplýstrar þjóðfélagsumræðu.

Núverandi kerfi fiskveiðistjórnunar ber að endurskoða með það fyrir augum að það samræmist grundvallarreglum stjórnskipunarinnar um jafnræði fyrir lögum og atvinnufrelsi. Veiðiheimildir samkvæmt núverandi kvótakerfi verði innkallaðar smám saman og afnotarétturinn síðan leigður á markaðsverði.

Loks þarf að skipa óháða rannsóknarnefnd undir forystu erlendra sérfræðinga til þess að rannsaka ofan í kjölinn orsakir þjóðargjaldþrotsins sem nú er orðið staðreynd. Það er frumforsenda þess að þjóðin geti hafið uppbyggingarstarfið á traustum grunni. Þegar stjórnmálaforystan hefur brugðist þjóðinni með jafnátakanlegum hætti og raun ber vitni duga engar viðbárur lengur gegn því að leggja málin á ný undir dóm þjóðarinnar. Þjóðin þarf ekki aðeins að velja sér nýja forystu. Hún þarf að gefa þeim sem hún velur til trúnaðarstarfa ný fyrirmæli um það hvernig byggja eigi upp stofnanir þjóðfélagsins á ný á rústum þeirra sem nú eru hrundar. Auk þess þarf þjóðin að kveða upp úr um það hvar Íslendingar vilji skipa sér í sveit í framtíðinni í samfélagi þjóðanna.Forystumönnum þeirra stjórnmálaflokka sem hafa brugðist trúnaði þjóðarinnar á ekki að líðast það að hindra að þjóðarviljinn nái fram að ganga.