Þegar Jón Baldvin er spurður hvort hann standi enn við þessa yfirlýsingu sína svarar hann: „Við skulum ræða um foringja og ábyrgð og alvöru málsins. Ég heimsótti son minn til Afríku síðastliðið sumar og fór með honum í þorp á þurrkasvæðum. Þar hitti ég særingameistara sem á að hafa ítök hið efra til að sjá um að nógu mikið rigni úr himinhvolfinu til að koma í veg fyrir að jörðin skrælni, uppskeran bregðist, búsmalinn falli og hungursneyð verði í landinu. Þarna hafa verið miklir þurrkar í tvö ár og ég sá í augum hans að hann óttaðist það að ef ekki færi að rigna þá myndi hann ekki kemba hærurnar sem trúnaðarmaður fólksins. Svona er ábyrgin í frumstæðum þjóðfélögum og svona er ábyrgðin í lýðræðinu hjá okkur. Þeir sem sækjast eftir umboði fólks til að stjórna eiga að bera ábyrgð. Ef þeir vinna verk sín vel svo fólki vegni vel þá geta þeir gert sér vonir um endurkjör. En ef þeim mistekst, ég tala ekki um mistekst hrapalega, þá eru þeir eru ekki á vetur setjandi.
Sástu Hard Talk um daginn? Þar var reyndur, aðgangsharður og nokkuð skarpskyggn spyrjandi sem spurði fyrrverandi forsetisráðherra Íslands spurningar sem hann þurfti að endurtaka út allt samtalið en fékk aldrei svar við: „Hvað gerðir þú herra forsætisráðherra til að koma í veg fyrir það að Ísland, sem var í hópi ríkustu þjóða heims, yrði bónbjargarríki eins og það er í dag?“ Forsætisráðherra Íslands var eins og hengdur upp á þráð, fór undan í flæmingi og talaði eins og steríll embættismaður um að þetta væri Evrópusambandinu að kenna. Þarna var ekki pólitískur foringi sem tók ábyrgð.
Nú erum við að tala um býsna alvarlega hluti. Viðskilnaður fyrrverandi ríkisstjórnar er svo svakalegur að helst er að líkja því við ástand sem getur hlotist af hernaðarátökum. Það er búið að leggja þjóðfélagið í rúst og það er bókstaflega enginn sem viðurkennir að bera ábyrgð á því. Auðvitað vitum við að ábyrgð Sjálfstæðisflokksins er sýnu mest, hann var við völd í átján ár samfelld en Samfylkingin bara í átján mánuði. Hugtakið ábyrgð er hins vegar þess eðlis að það er mjög erfitt að deila því niður í prósentureikningi. Hrunið varð ekki bara á vakt Sjálfstæðisflokksin heldur líka á vakt Samfylkingarinnar. Formenn eru valdamestir í ríkisstjórnum á Íslandi. Ég hef varpað fram einni samviskuspurningu og hún er þessi: Ef við gerum réttilega þá kröfu til annarra stjórnmálaleiðtoga að þeir viðurkenni mistök sín og víki eigum við þá ekki að gera sömu kröfu til okkar sjálfra? Ég held að það liggi í augum uppi hvert svarið við þeirri spurningu er.“
Ef þú býður þig fram til formanns Samfylkingar áttu þá von á að ná þeim árangri sem þú sækist eftir?
„Það eru ekki miklar líkur á að á það reyni. Ég geng út frá því nánast sem gefnu að annað hvort fyrir landsfund eða á landsfundi muni formaður Samfylkingar svara samviskuspurningunni og víkja. Ef það gerist þá er kona sem er hinn raunverulegi foringi Samfylingarinnar og situr í embætti forsætisráðherra: Heilög Jóhanna. Ég er ánægður með að hafa gefið Jóhönnu þessa heiðursnafnbót. Hún fer henni vel. Flokkar eru þeirrrar náttúru að þeir rísa ekki gegn sitjandi forsætisráðherra úr sínum röðum í aðdraganda kosninga þannig að það yrði sjálfgefið að Jóhanna tæki við undir því kjörorði að hennar tími væri kominn. Þá verður spurningin um forystu Samfylkingarinnar fyrst og fremst spurningin um hver tæki við varaformannssætinu og þá væntanlega forystu flokksins á næsta kjörtímabili.Ef Ingibjörg Sólrun heldur til streitu kröfu sinni um forystuna og víkur ekki þá mun ég bjóða mig fram. Ég hef engu að tapa en allt að vinna. Samfylkingin hefur líka allt að vinna.“
Af hverju ætti samfylkingarfólk að kjósa þig til forystu?
Samfylkingin tók í arf frá Alþýðuflokknum þá stefnu að Ísland ætti að sækja um aðild að Evrópusambandinu og taka upp evru. Ég hef verið að hamra á því að undanförnu að við eigum að sækja um aðild að Evrópusambandinu með upptöku nothæfs gjaldmiðils og grið hvað varðar skuldirnar. Spurning um Evrópusambandsaðild er þess vegna hluti af lausn á bráðavandanum. Hún er ekki framtíðarmúsík sem við eigum að dansa eftir einhvern tímann seinna. Á næsta kjörtímabili er stóra verkefnið að ganga í Evrópusambandið og tryggja Íslandi aðild að gjaldmiðilsvörnum Evrópusambandsins sem myndi gerbreyta kjörum almennings á Íslandi. Það væri ekki svo vitlaust að kalla á vanan mann sem kann til verka við það.
Hefurðu rætt við Ingibjörgu Sólrúnu eftir að þú lýstir yfir að þú myndir fara í formannsframboð ef hún viki ekki?
„Nei. Ingibjörg hefur ekki verið í stjórnmálasambandi við mig eftir að hún steig í dansinn við Geir eftir kosningarnar 2007. Ég lagði nokkrum frambjóðendum Samfylkingarinanr lið fyrir síðustu kosningar en enginn úr forystu Samfylkingarinanr hefur átt orðastað við mig eftir kosningar.“
Hvernig meturðu Ingibjörgu Sólrúnu sem stjórnmálamann?
„Ég hef ekkert nema gott um hana að segja. Ég studdi hana sem formann Samfylkingarinnar á sínum tíma vegna þess að hún hafði sameinað sundurleita hjörð vinstri manna í Reykjavíkurlistanum og hélt þeim meirihluta þrátt fyrir harðar atlögur valdakjarna Sjálfstæðisflokksins. Það er hennar stóra afrek. Síðan fór hún í landsmálapólitíkina og þar tókst ekki betur til en svona. Staðreyndin er sú að á hennar vakt hrundi þetta allt saman. Og pólitíkin er harður húsbóndi.“
Af hverju ertu viss um að Ingibjörg Sólrún dragi sig í hlé og hleypi Jóhönnu að?
„Ég sagðist ekki vera viss um það, ég sagðist ganga út frá því sem gefnu. Ingibjörg Sólrún hefur á ferli sínum lagt áherslu á að hún sé ekki venjulegur valdstreitupólitíkus sem keppi að völdum valdanna vegna og sitji á valdastóli hvað sem í hefur skorist. Stundum hefur hún lagt áherslu á að konur í stjórnmálum séu öðruvísi en karlmenn og ég held að það sé alveg rétt hjá henni að konur hafa ríkulegri ábyrgðartilfinningu en karlmenn. Alla vega á það við um þær konur sem ég þekki.“
Hefurðu talað við Jóhönnu Sigurðardóttur nýlega?
„Nei.“
Ætlar þú í prófkjör fyrir Samfylkinguna eða einhvern annan flokk?
„Ég veit ekkert hvernig Samfylkingin ætlar að haga sínum framboðsmálum. Ef hún gerir það með prófkjöri innan flokks þá útiloka ég það ekki. Og ef efnd verða loforð um að breyta kosningalögum á þann veg að kjósandinn fái loks þann lýðræðislega rétt að velja sér einstaklinga, með öðrum orðum að persónukjör verði leyft, þá finnst mér framboð vel koma til greina. En það hugnast mér ekki að fara í prófkjörsbaráttu með auglýsingamennsku, glimmer og skrípalátum. Ég er vaxinn upp úr því.“
En þú stefnir aftur í pólitík?
„Ég hitti Hjörleif Guttormsson á götu um daginn. Hann sagði: „Sá maður sem sækist eftir því að fara í pólitík núna er náttúrlega ekki með öllu mjalla. Er það ekki rétt, Jón Baldvin?“ Ég svaraði: „Jú, mikið rétt, Hjörleifur, en leitar ekki klárinn þangað sem hann er kvaldastur. Og getum við horft upp á þetta ógrátandi?“
Ýmsir telja að þú getir ekki skorast undan því að bera ábyrgð á því hvernig komið er þar sem þú stofnaðir til Viðeyjarstjórnarinnar og komst þar með Davíð Oddssyni til valda.
„Viðeyjarstjórnin var mynduð um eitt stórt mál, EES-samninginn. Fyrir kosningarnar 1991 gerðist það undur að samstarfsflokkar mínir, Framsóknarflokkur og Alþýðubandalag, hlupust brott frá ábyrgð sinni á þessum samningi og notuðu kosningabaráttuna til að afflytja hann og saka mig nánast um landráð og gengu sumir svo langt að það var engin leið að treysta því að þeir myndu greiða EES samningnum atkvæði eftir það sem þeir höfðu um hann sagt. Til að tryggja þessum samningi framgang átti ég ekki annarra kosta völ en að spyrja Davíð Oddsson hvort hann væri tilbúinn að falla frá andstöðu við samninginn og tryggja honum framgang. Um það var stjórnin mynduð. Það var bráðnaðsynlegt á þeim tíma að mínu mati.
Nú heyrast raddir sem segja að EES-samningurinn hafi verið upphafið að hruninu. Menn eru á harðahlaupum við að finna skýringar annars staðar en þar sem skýringar er að finna. EES-samningurinn breytti öllu. Ég tek alla ábyrgð á því. EES-samningurinn er örugga hraðbrautinn með margar akreinar sem við byggðum til grannlanda okkar. Hann beintengdi okkur við innri markað Evrópusambandsins og við tókum upp alla löggjöf Evrópusambandsins á sviði viðskipta með vörur og þjónustu o.fl..
Þeir sem nú segja, eins og Geir Haarde og Björn Bjarnason, að öll þessi ósköp hafi byrjað með EES-samningnum réttlættu það áður að Ísland þyrfti ekki að ganga í Evrópusambandið með því að segja: „EES-samningurinn er svo góður að við þurfum ekki að ganga í Evrópusambandið“. Er samningurinn allt í einu orðinn svo vondur að hann orsaki hrun þjóðfélagsins fimmtán árum seinna? Ef EES-samningurinn orsakaði þetta hrun hvernig stendur þá að því að ekkert land á evrópska efnahagssvæðinu er hrunið, nema Ísland? Þarna eru menn hlaupandi um víðan völl, segja eitt í gær og annað í dag, leitandi að skýringum aftur í fortíð. Hvar ætli þeir staðnæmist á flóttanum: Við lýðveldistökuna 1944 eða við landnámið 874?”
Ef það verða slys á hraðbraut vegna ölvunaraksturs eða ofsaaksturs eins og gerðist hjá mönnunum sem áttu og stýrðu bönkunum, er þá sá sem lagði veginn dreginn fyrir dóm og dæmdur? Ekki í réttarríkjum. Lögreglan hefur sitt hlutverk, í þessu tilviki Seðlabankinn og eftirlitsstofnanirnar, og á að handsama þá sem brjóta reglur. Það er ekki EES-samningurinn sem gaf mönnum frelsi með ábyrgð sem er sökudólgur eða undirrót. Það er fjarstæða að halda því fram. Það eru íslenskar stofnandir sem brugðust. Þar var ekki farið að reglum.
Tökum Icesave málið. Lykilspurningin þar er hver er skúrkurinn og hver er fórnarlambið? Hverjir voru skúrkarnir? Það voru eigendur og bankastjórar Landsbankans sem gerðu það sem þeir gerðu vitandi vits um að ábyrgðin myndi að lokum lenda á íslensku þjóðinni. Hverjir voru féflettir? Það voru sparifjáreigendur í Bretlandi og Hollandi og að lokum skattgreiðendur á Íslandi. Svo koma þessir menn og segja: „Þetta var allt reglugerðum frá Evrópusambandinu að kenna.“ Þvílíkir eymingjar, þeir ættu að skammast sín!“
Þú fagnar sjötugsafmæli þínu í dag með málþingi í Iðnó. Umræðuefnin þar eru Norræna velferðarríkið og óvinir þess og Endurreisn í anda jafnaðarstefnu. Af hverju þetta efni?
„Ég mátti velja efnið og valdi mín hjartans mál. Hafi einhvern tíma verið ástæða til umræðu um norræna velferðarríkið sem fyrirmynd og sameiginlega framtíð okkar Evrópu þá er það núna. Við þurfum að hafna skrípamyndinni að amerískum kapítalisma sem nú er hvort eð er hruninn á Íslandi en óð hér uppi árum saman. Stjórnmálamenn þurfa að fá að ræða við þjóðina í rólegheitum og með rökum um það hvers vegna Evrópa er ekki óvinur heldur sameiginlegur vettvangur lýðræðisríkja þar sem við eigum að skipa okkur í sveit til framtíðar. Þetta eru málin sem við eigum að ræða í kosningabaráttunni.“