UM SAMKEPPNISHÆFNI ÞJÓÐA

Aðgát skal höfð í nærveru fjármagns. Þetta er kjarninn í kennisetningum frjálshyggjunnar. Við verðum að hlú að fjármagninu. Annars gæti það fyrtst og flúið þangað, sem betur er að því búið. Eftir sæti þá hnipin þjóð í vanda. Hagvöxtur mundi daprast, störfum fækka, atvinnuleysi héldi innreið sína.

Samkvæmt fagnaðarerindinu skal markaðurinn ríkja frjáls. Þá mun allt annað veitast yður: Hagvöxtur, erlendar fjárfestingar, nýsköpun og auðsköpun. Að vísu mun auðurinn safnast á fáar hendur. En hafið ekki áhyggjur: Molarnir munu um síðir hrjóta af borðum hinna ríku. Hafið því biðlund. Alla vega er engra annarra kosta völ: Velferðarríkið, með sín miklu ríkisafskipti og háu skatta, er dauðadæmt.

Þessi hugmyndafræði hefur verið kennd sem vísindaleg hagfræði við háskóla á Vesturlöndum seinustu áratugina. Eftir að hægri bylgjan, kennd við Reagan og Thatcher, hélt innreið sína, varð þetta viðtekin venjuviska. Helstu stjórnarstofnanir alþjóðafjármála hafa reynt að troða þessum trúarbrögðum upp á afganginn af heiminum með hörmulegum afleiðingum. Með valdatöku Davíðs Oddssonar í Sjálfstæðisflokknum, fékk þessi átrúnaður fótfestu í íslenska valdakerfinu, auk þess sem hann gegnsýrir fjölmiðlaumræðuna.

Dómur staðreyndanna.

Á undanförnum áratugum hafa sprottið upp stofnanir, sem meta frammistöðu þjóða á samræmdu prófunum. Þjóðum eru gefnar einkunnir fyrir samkeppnishæfni, gæði menntunar, tæknistig, nýsköpun, aðbúnað erlendra fjárfesta, gæði innviða (logistic), framleiðni á vinnustund o.s.frv. Allt er vegið og metið, sem styrkt getur stöðu þjóða í alþjóðlegri samkeppni.

Nú brá svo við, að upp úr miðjum seinasta áratug fóru að birtast fréttir úr óvæntri átt. Allt í einu dúkkaði Finnland upp sem samkeppnishæfasta þjóðfélag í heimi, með bestu menntagæði og hæsta tæknistig. Svíþjóð var eitt árið útnefnd sem númer eitt í nýsköpun og tækniframförum. Danir urðu eitt árið númer eitt í nýsköpun starfa. Þetta er hætt að vera einleikið. Það er alveg sama, hvenær birtar eru niðurstöður samanburðarkannana á flestum sviðum: Norrænu velferðarríkin standa sig yfirleitt alltaf best á samræmdu prófunum. Á seinasta ári voru þrjú þeirra í fjórum efstu sætunum með Sviss. Þau eru ekki bara samkeppnishæfustu þjóðfélög í heimi, heldur bjóða þau upp á bestu lífsgæðin, þá sjáldan annað er metið en krónur og aurar, t.d. heilsufar, jafnrétti karla og kvenna, lífslíkur o.s.frv.

Hugsjónir og hindurvitni.

Hvernig má þetta vera? Er ekki nauðsynlegt að koma böndum á (lýðræðisleg) ríkisafskipti og lækka skatta og laun til þess að reynast samkeppnishæf? Getur verið að fyrirtækin séu að leita að einhverju öðru en lágum sköttum og litlum afskiptum? Getur verið að þau sækist eftir háu menntunarstigi, traustri tæknikunnáttu, afkastamiklum fjarskiptakerfum, gegnsæjum stjórnvaldsákvörðunum, traustum innviðum, sem felast t.d. Í snurðulausum samgöngum og ódýrri orku?
Getur verið að fyrirtækin þurfi að reiða sig á sjálfstæða dómstóla og vandaða stjórnsýslu, auk þess sem þau reyni að forðast þjóðfélög, sem eru heltekin af spillingu og glæpastarfsemi? Getur verið að öflugt lýðræðislegt ríkisvald, ríkisrekið skólakerfi, vel menntaðir (og vellaunaðir) kennarar, greiður aðgangur að heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags, jöfn tækifæri fólks til mennta og starfsframa – getur verið að þetta allt saman skipti sköpum um samkeppnishæfni þjóða? Getur verið að norrænu velferðarríkin skari svona fram úr í alþjóðlegri samkeppni, – ekki þrátt fyrir velferðina, heldur beinlínis vegna hennar? Mikið rétt. Skattar eru nefnilega það verð, sem við borgum fyrir að búa í siðmenntuðu samfélagi.