VIÐTAL KRISTJÁNS ÞORVALDSSONAR VIÐ JÓN BALDVIN FYRIR BIRTU, FYLGIRIT FRÉTTABLAÐSINS

“Ef við ætlum að taka á þeim vandamálum sem að steðja verður að leggja þau í dóm kjósenda,” segir Jón Baldvin Hannibalsson ákveðinn þegar hann er spurður hvað blasi við í íslenskum stjórnmálum um þessar mundir. Jón Baldvin er kvikur í hreyfingum og hugsunum sem aldrei fyrr þegar hann sest niður með blaðamanni Birtu undir hádegi á mánudagsmorgni á aðventunni, mitt í alvarlegustu efnahagskreppu sem herjað hefur á íslensku þjóðina.

EFTIRFARANDI VIÐTAL TÓK KRISTJÁN ÞORVALDSSON VIÐ JÓN BALDVIN FYRIR BIRTU, FYLGIRIT FRÉTTABLAÐSINS Í DESEMBER 2008.

Eitt af eilífðarumræðuefnum íslenskra stjórnmála er tilvist Jóns Baldvins Hannibalssonar, skoðanir hans og hugsanleg endurkoma hans í atvinnustjórnmálin. Það er einlæg ósk margra að Jón Baldvin snúi aftur en að sama skapi ekki laust við að sumir óttist það. Jafnt andstæðingar sem samherjar. Sjálfur hefur hann aldrei sagt alveg skilið við pólitík, þótt hann hafi um árabil starfað í diplómatíunni sem sendiherra og eigi nú að heita sestur í helgan stein. Upp á síðkastið hefur hann tekið fullan þáttí umræðunni og sent frá sér ítarlegar greinar um hið grafalvarlega ástand sem blasir við þjóðinni.

Jón Baldvin er síungur í hugsun og hefur stundum leyft sér að skipta um skoðun á lífsleiðinni. Það er kannski engin tilviljun að nýverið sat hann Heimsmót æskunnar sem haldið var við virtan háskóla í Þýskalandi. Reyndar ekki sem þingfulltrúi heldur sem annar tveggja fulltrúa Norðurlanda í panel þar sem æskufólk spurði reynda menn um ganga mál í ljósi kreppunnar sem ríður yfir. Þar var Jón Baldvin í essinu sínu og kunni vel að meta nálgun unga fólksins á viðfangsefnið.

Viðfangsefni æskumótsins var Jóni að skapi en fyrir ráðstefnuna höfðu um 30 þúsund svör borist hvaðanæva úr heiminum við þeirri krefjandi spurningu hvaða vandamál plöguðu helst heimsbyggðina. Svörin við stóru spurningunni sem Heimsmótið velti fyrir sér höfðu voru dregin saman og koma líklega ekki á óvart.

Að mati ungmennanna eru náttúrspjöll af mannavöldum á plánetunni stærsta vandamál heimsbyggðinnar. Númer tvö komu Bandaríkin undir Bush, í merkingunni eyðsla, sólund og ágengni á orkulindir jarðar, hernaðarofbeldi og algjört skilningsleysi á vandamálum heimsins af hálfu auðkýfinga. Númer þrjú var hungrið, númer fjögur vatnsskortur og í fimmta sæti kom mannskepnan sjálf.

Sumt í þessari upptalning er kannski ekki svo fjarri því sem Jóni Baldvin hefur verið tíðrætt um eftir að hann sneri heim sem sendiherra Íslands í Bandaríkjunum og Finnlandi.

“Það var viss léttir að komast aðeins frá Íslandi í þetta alþjóðlega umhverfi sem ríkti á þessari ráðstefnu, þótt ekki væri nema fyrir það að fá sönnun þess að það eru víðar vandamál en á Íslandi,” segir Jón Baldvin. “Engu að síður er það svo að þótt heimurinn standi frammi fyrir þeirri stóru spurningu hvort bandaríska bankakrísan geti hugsanlega verið að stefna heiminum í nýja heimskreppu, þá er litið á Ísland sem fyrsta fórnarlamb þeirrar kreppu sem hrundi algjörlega.”

Jón Baldvin segir að það sé engin tilviljun að menn horfi til Íslands sem sérstaks tilfellis í þessu sambandi. “Það sem vissulega hratt bankakreppunni af stað var stjórnlaus og hömlulaus útlánastarfsemi í bandaríska bankakerfinu. Það er bein afleiðing af stefnu undanfarandi ára, sem kennd hefur verið við Reagan og Thatcer, Friedman og Hayak og heitir markaðstrúboðið. Þetta er öfgastefna eða eins konar trúðboð í þágu auðkýfinga og á ekkert skylt við vísindi.”

Að mati Jóns Baldvins hefur þetta “trúboð” einfalda sýn á heiminn. „Ég kalla boðberana kommúnista með öfugum formerkjum.“ Hann segir að „trúboðið“ hafi verið ráðandi hugmyndafræði í Bandaríkjunum og náð til mikilvægra stofnana eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans. “Þetta hafa verið ríkjandi trúarbrögð í yfir tuttugu ár og algjörlega hömlulaus í tíð Bush. Bandaríska bankakreppan er bein afleiðing af þessari stefnu og þar gengu menn alltaf lengra og lengra í því að kalla fram sérfræðinga til þess að búa til nýja “vöru” sem innihélt fjárhagsskuldbindingar og vafninga sem hægt var að selja á markaði. Að lokum spannst þetta svo gjörsamlega úr höndunum á þeim, umsjónar- og eftirlitslaust. Sú staðreynd blasir við að forstöðumenn helstu fjármálastofnana heimsis vissu ekki hvað þeir voru að gera og skildu það ekki sjálfir.”

Þessi gróðamylla, sem Jón Baldvin lýsir, er að hrynja úti um alla veröld. En af hverju beina menn sjónum sínum jafn mikið til Íslands í þessu samhengi?

“Það er skýring á því. Hér var gerð tilraun undir formerkjum þessarar stefnu. Tilraunin fólst í því að reka minnsta myntkerfi í heiminum. Myntsvæði sem hafði að baklandi ríflega 300 þúsund manns með sjálfstæðan gjaldmiðil en á grundvelli starfsreglna sem giltu um fjármagnshreyfingar í galopinni veröld. Sú áhætta sem fólst í því að ætla sér að taka þátt í þessum tröllaleik alþjóðakapítalsins var eins og að ætla sér að fara út á Norður-Atlantshafið í manndrápsbyl og stormum á opinni skekktu og trúa því statt og stöðugt að það væri ekki áhættuför. Þetta gat ekki staðist og átti að vera mönum ljóst fyrir allmörgum árum síðan þegar íslenska bankakerfið var vaxið íslenska hagkerfinu yfir höfuð, allt að tólffalt frá því að vera um þriðjungur þegar bankarnir voru einkavæddir fyrir sex árum.”

Jón Baldvin segir að Ísland hafi verið fyrirhyggju- og varnarlaust í þessum leik því gjaldmiðillinn hafi aldrei getað staðist áhlaup þegar á reyndi. En má þá ekki spyrja hvort Íslendingar hefðu ekki farið fram úr sér með EES-samningnum fyrst ekki var skipt um gjaldmiðil í kjölfarið?

“Þrjátíu þjóðir hafa farið þessa leið í Evrópska efnahagssvæðinu, eins og við fórum fyrir fjórtán árum. Hefur þá ekki farið svipað fyrir þeim? Svarið er nei. Það er bara ein þjóð sem hefur hrunið og það er Ísland. Það bendir til þess að við séum að fást við sérstakt vandamál sem er heimatilbúið og tengist íslenska gjaldmiðilssvæðinu sem slíku. En, jú, menn spyrja líka hvort það hafi ekki verið áhættusamt að fara þessa leið án þess að stíga skrefið til fulls og byggja upp þær varnir sem felast í því að taka upp evruna og fullnægja þeim skilyrðum sem því fylgir. Svarið við því er afdráttarlaust já. Allt frá 1995 boðaði ég og minn flokkur þá stefnu. Nú er hægt að fullyrða að ef við hefðum farið þá leið og sótt um aðild að Evrópusambandinu og peningamálasamstarfinu einhvern tímann á árunum ´95 til 2002 og verið komin með evru í hendurnar væri öðruvísi komið fyrir okkur. Við fullnægðum öllum skilyrðum og hefðum notið stuðnings Evrópska Seðlabankans eftir einkavæðingu bankanna. Við komum því aftur og aftur að rótinni að hruninu sem nú blasir við, það er að við erum með ónýtan gjaldmiðil.“

En er hægt að tala um evruna sem patentlausn?

“Nei, því heldur enginn fram. En styrkur evrunnar og stoðkerfi hennar í Evrópska seðlabankanum eru þau varnarvirki sem nú reynir á hvort dugi í alþjóðlegri fjármálakreppu. Að sama skapi reynir á dollarsvæðið og Asíu. Við erum ekki búin að bíta úr nálinni með það að en vitum eitt, að þetta eru alvöru varnarvirki. Hitt er augljóst mál að okkar varnir voru engar og löngu fyrirsjáanlegt að okkar gjaldeyriskerfi var hrunið. Það hefur afhjúpað að eftirlitsstofnanir okkar dugðu ekki og efnahagsstefnan innanlands var fyrirhyggjulaus.”

Það sem þú ert að lýsa að hefði þurft að gera hafði ekki pólitískan hljómgrunn. Þannig fór Samfylkingn ekki í ríkisstjórn með það sem skilyrði að sækja um aðild að ESB og taka upp evru.

“Já, það er einn flokkur sem ber höfuðábyrgð á því hvernig fyrir okkur er komið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft forystu í sautján ár. Hann hefur vissulega verið í samsteypustjórnum allan þennan tíma en farið með forsætisráðuneytið öll árin ef undan eru skilin árin tvö sem Halldór Ásgrímsson sat. Efnahagsmálin heyra undir forsætisráðuneytið og allan tímann hefur Sjálfstæðisflokkurinn farið með fjármálaráðuneytið. Samstarf þessarara tveggja ráðuneyta er það sem mestu ræður um efnahagsmálastefnuna og auk þess er forsætisráðherra algjörlega ábyrgur fyrir peningamálastefnunni því seðlabankastjórar á þessum tíma hafa verið tveir og báðir forystumenn Sjálfstæðisflokksins. Ef menn meina eitthvað með hugtakinu póltísk ábyrgð, þá hefur ábyrgð Sjálfstæðisflokksins sannarlega verið mikil.”

Jón Baldvin segir að ábyrgð Sjálfstæðisflokksins sé meiri en þetta. “Hagstjórn flokksins hefur ekki bara mistekist. Goðsögnin um að flokknum sé einum treystandi í efnahagsmálum er auðvitað algjörlega fokin. Þá hefur oft verið haft að orði að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið forystuafl þjóðarinnar í efnahagssamstarfi við aðrar þjóðir. Það er önnur goðsögn sem stenst ekki. Hvernig hefur Evrópustefna Sjálfstæðisflokksins verið frá upphafi til þessa dags? Jú, hún hefur verið hringlandaháttur og þar hefur ekkert forystuhlutverk verið. Alþýðuflokkurinn undir forystu Gylfa Þ. Gíslasonar beitti sér fyrir inngöngunni í EFTA. Í lok níunda áratugarins setti Sjálfstæðisflokkurinn upp nefnd til að móta stefnu gagnart Evrópusambandinu. Nefndin laut forystu Davíðs Oddssonar þáverendi borgarstjóra og komst að þeirri niðurstöðu að Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið.”

Það breytti ekki því að í stjórnarandstöðu fram til ársins 1991 var Sjálfstæðisflokkurinn í andstöðu við EES-samningin og boðaði tvíhliða samning um markaðsaðgang fyrir fisk. “Það var ekki fyrr en formenn Alþýðubandalags og Framsóknar gerðu þau mistök fyrir kosningar ´91 að hlaupast frá EES-samningnum að ég var neyddur til þess að spyrja Davíð Oddsson hvort hann treysti sér til þess að tryggja samningnum framgang á Alþingi. Hann vildi til þess vinna og kúvenda stefnu Sjálfstæðisflokksins til þess flokkurinn kæmist í ríkisstjórn.”

Jón Baldvin segist hafa alið þá von í brjósti að Davíð, sem markaði framtíðarstefnu flokksins í Evrópumálunum 1989 með nefndarforystu sinni væri í raunini Evrópusinni. “Ég komst smátt og smátt að því að svo var ekki. EES-samningurinn náðist fram með naumum meirihluta og ekki var vilji til þess að ganga lengra.”

Sjálfstæðisflokkurinn er óstjórnhæfur um þessar mundir, að mati Jóns Baldvins. “Hann er getur ekki veitt forystu vegna að hann er heltekinn af innanmeinum. Flokkurinn hefur ekki getað gert upp hug sinn um stærsta mál samtímans, afstöðuna til Evrópusambandsins. Hann er ekki sá stefnufasti flokkur goðsagnarinnar sem getur haft forystu og tekið erfiðar og óvinsælar ákvarðanir í tæka tíð. Þar vantar þor og framtíðarsýn og Sjálfstæðisflokkurinn er á eftir þjóðinni.

Mitt á strandstaðnum erum við að upplifa, frá degi til dags, átakanleg birtingarform þess að Sjáfstæðisflokkurinn er forystulaus. Það er stöðugt rifrildi milli núverandi formanns og fyrrverandi sem situr í Seðlabankanum og hefur fyrirgert trausti innanlands og –utan á peningamálastjórn landsins. Þar er hann “sniper”, eins og skæruliði í rústunum og miðar á sinn gamla undirsáta og núverandi eftirmann sem virðist svo heltekinn af ótta við að flokkurinn klofni í þessum átökunum að honum er fyrirmunað að taka ákvarðanir. Heimilisbölið í Sjálfstæðisflokknum er þyngra en tárum taki. Ósanngirnin er sú að þjóðin situr uppi með lamaða ríkisstjórn af þessum völdum. Þegar svona háttar til er algjörlega óumflýjanlegt að skjóta málum í dóm þjóðarinnar.”

Eins og gefur að skilja getur Jón Baldvin ekkert sagt fyrir um væntanlega dóm þjóðarinnar eða hvort hreinar línur fáist í stjórnmálunum. Vinstri græn hafa opnað á það að kosið verði í þjóðaratkvæðagreiðslu bæði um umsókn að ESB og síðan samning ef til kemur. „Með öðrum orðum virðast forystumenn í flokknum jafnvel reiðubúnir að vera ekki með handjárn á flokksmenn í þessum efnum. Væntanlega stendur ekki á þeim virða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu. Af fenginni reynslu hef ég hins vegar litla trú á því að þótt sjálfstæðismenn haldi einhvern fund í lok janúar komi eitthvað út úr því annað en vífillengjur og frestanir. Innanmeinin og klofningurinn er svo djúpstæður að Sjálfstæðisflokkurinn á að taka sér tíma í innhverfa íhugun og endurhæfingu. Sem þverklofinn og forystulaus verður hann ekki stjórnhæfur á næstunni. En geta Samfylking og Vinstri græn starfað saman ef þeir verða stærstu flokkarnir að loknum kosningum í ríkisstjórn sem myndi vilja leggja samninga við ESB undir þjóðaratkvæði? Geta Vinstri græn sætt sig við það ef þjóðin kemst að þeirri niðurstöðu? Á það verður að láta reyna.“

Þú vilt sem sagt kosningar strax?
„Já, eins fljótt og kostur er. Snemma á næsta ári. Það er ekkert hald í því að segja að kosningar séu ekki tímabærar meðan róinn er lífróður. Það er enginn lífróður því við erum með ríkisstjórn sem er meira og minna sundurvirk og lömuð. Hún er lömuð af innbyrðis óáran og höfuðsetin af skæruliðum í Seðlabanknanum. “
Jón Baldvin segir fleytingu krónunnar nú með tilheyrandi gjaldeyrishöftum hreina fjarstæðu. „Krónan, þessi litla julla, er enn bundin við bryggju. Þess vegna er hún ekki sokkin en hún er ekki haffær. Flotholtið hennar er gjaldeyrishöft. Fyrr en síðar verðum við að leysa málin. Við eigum þann kost að lýsa því yfir að Ísland stefni að því eins og fljótt og mögulegt er að taka upp samningaviðræður við ESB um inngöngu. Það þýðir að við höfum markað stefnu um að við ætlum okkur að leysa gjaldeyrisvandamálin til frambúðar.“
Að mati Jóns Baldvins á Ísland sem EFTA-ríki að geta lokið samningum á u.þ.b. hálfu ári. Staðfestingarferlið hjá ríkjunum 27 gæti hins vegar orðið tímafrekt. En um leið og niðurstaða fengist á Íslandi yrði staða þjóðarinnar allt önnur. „Þá þyrftum við ekki nema þrjá mánuði til viðbótar til þess að breyta gjaldmiðilsástandinu og skapað okkur sömu stöðu og Danir sem eru með gjaldmiðil sem er bundinn við evruna með háum vikmörkum. Við værum komin inn í anddyri að peningamálasamstarfi Evrópu. Með öðrum orðum tæki þetta ferli um níu mánuði og fæli í sér lausn til frambúðar á okkar háskalegasta vandamáli.
Stöðugleiki breytir öllu og við verðum að gera mönnum ljóst að við ætlum ekki að fara í feigðarflanið með krónuna til frambúðar. Ríkisstjórn sem getur ekki tekið ákvörðun um þetta er lömuð. Þessa vegna þarf kosningar sem allra fyrst.“

En það er margt annað í lausu lofti, þar á meðal samningar um Icesave og greiðslubyrði af erlendum lánum?
„Ástæðan fyrir því að Seðlabankinn þorir ekki að fleyta krónunni og beitir gjaldeyrishöftum er sú að áhættan af því að fleyta henni á hið opna úthaf aftur er að þá gæti gjaldeyrissjóðurinn sem fenginn er á dýrum lánum horfið á augabragði.“

Andstæðingar ESB benda á að Evrópuþjóðir vilji nauðbeygja íslensku þjóðina vegna slóða bankanna erlendis. Menn halda þessu á lofti og telja það dæmi um það sem bíður okkar í samskiptum við risana í Evrópu.
„Hvað hefðum við gert ef evrópskir bankar hefðu leikið sama leikinn hér á landi og þeir íslensku ytra? Við hefðum auðvitað krafist þess að íslenskir sparifjáreigendur yrðu varðir. Spurningin núna er hins vegar um lagalegar skuldbindingar Íslendinga vegna bankastarfseminnar á evrópska efnahagssvæðinu. Við vissum að við þyrftum að tryggja vissa lágmarksupphæð í útibúum íslenskra banka en það stóð aldrei til að við þyrftum að verða við öllum kröfum. En svo gerðist það með setningu neyðarlaganna að allar inneignir Íslendinga voru tryggðar. Íslendingar hafa því ekki haft sterk rök með sér þegar þeir halda því fram að þessar reglur gildi ekki í útibúum bankanna á evrópska efnahagssvæðinu. Það þýðir því ekkert að fara fram með einhverjum hrakyrðum um að útlendingar séu vondir við okkur. Mönnum í Evrópu er fullkomnlega ljóst hvers konar lið það var í bönkunum sem misnotaði þá óspart í eigin þágu á lokasprettinum. Þess vegna er mikið vitnað í orð seðlabankastjórans sem talaði um hina íslensku óreiðumenn. Eftir stendur sú pólitíska spurning hversu langt eigi að ganga í því að íslenska þjóðinn greiðu fyrir veislu óreiðumannanna.
Við eigum aftur á móti að standa við lágmarksskuldbindingar okkar erlendis en ekki borga krónu umfram það. Og ríkisstjórnin verður að segja okkur hvernig hún hefur samið og hversu skuldabyrðin er orðin mikil.“

Eins og fram hefur komið er rætt um að erlendir lánardrottnar gömlu bankanna komi hugsanleg inn sem eigendur að nýju bönkunum. Þetta finnst Jóni Baldvin undarlegt. „Erum við að tala um að erlendu bankarnir krefjist meira heldur en þeir fá út úr þrotabúum gömlu bankanna? Við þessu höfum við ekki fengið nein svör.“

Það er auðvelt að álykta að Jóni Baldvin klæi í fingurna að hefja aftur bein afskipti af stjórnmálum og gefa kost á sér í kosningum?

„Íslendingar sem þjóð horfast í augu við fullkomið neyðarástand. Við erum á næsta bæ við þjóðargjaldþrot og búum líka við það heimilisböl að við erum í stjórnmálakreppu. Það stafar af því að Sjálfstæðisflokkurinn er óstjórnhæfur vegna illdeilna og getuleysis til þess að gera upp stór mál. Það berast að mótmæli úr öllum áttum í þjóðfélaginu og það er vaxandi þungi í þeim. Mótmælin eru birtingarform á því að fólki er gersamlega ofboðið, m.a. vegna þess að stjórnvöld virðast ekki treysta sér til að horfast í augu við fólk og segja því satt um stöðu mála. Það er vegna þess að það er verið að velta málum á undan sér í málamiðlunum milli flokka í stað þess að rökræða sig til niðurstöðu og marka stefnu.
Við þessu er ekkert ráð nema kosningar sem allra fyrst. Ég er í sömu sporum og hver annar Íslendingur að því leyti að mér ber skylda til að gera allt sem ég get til að leggja málum lið þannig að stefna verði mörkuð. Ég hef að baki pólitískan feril, og hélt reyndar að honum væri lokið, og bý yfir mikilli reynslu, ekki síst í tengslum við Evrópumál og samninga þar að lútandi. Frá árinu 1994 hef ég verið þeirrar sannfæringar að við eigum að stíga það skref til fulls og er til í að leggja mitt af mörkum. Hvað það þýðir fyrir mig persónulega er aukaatriði. Ég hef fullnægt öllum mínum pólitíska metnaði. Það eina sem knýr mig áfram er réttlát reiði yfir því hvernig komið er og einlægur vilji til þess að leggja mín lóð á vogarskálarnar til að stuðla að varanlegum lausnum. Það geri ég með því að tjá mig, skrifa og svara þegar ég er spurður.“

En það er ekkert sem útilokar það að þú látir slag stranda og gefir kost á þér?

„Nei, það er ekkert sem útilokar það,“ segir Jón ákveðinn og klæðir sig í hlýjan Mokkajakkann og setur á sig húfuna áður en hann fer út í kalt íslenskt vetrarveðrið.