ÍSLENSKA LEIÐIN

Í sexhundruð ár vorum við Íslendingar í hópi fátækustu þjóða heims. Eftir þúsund ára búsetu var naumast uppistandandi heillegt mannvirki til marks um mannabyggð í landinu.

Til eru frásagnir erlendra ferðamanna sem heimsóttu landið allt fram á 19du öld sem undruðust það, hvernig þetta frumstæða fólk gat dregið fram lífið í kofahreysum, sem þeim sýndist varla skepnum bjóðandi, hvað þá mönnum.

Í sex hundruð ár var fátæktin okkar fylgikona. Öðru hverju reið yfir landsins börn einhver plágan, ýmist sjúkdómsfaraldrar eða náttúruhamfarir, sem eyddu búsmalanum og ollu um leið hungursneyð sem felldi mannfólkið eins og flugur. Eymd afríska þorpsins minnir um margt á hokurbúskap forfeðra okkar og mæðra. Það er ekki svo ýkjamikill munur á, utan eitt: Íslendingar voru aldrei svo vesælir í örbirgð sinni að þeir væru ekki læsir og skrifandi. Það gerði reyndar gæfumuninn, loksins þegar stytti upp yfir þjóðartilverunni.

Samanburðarhagfræði

Samanburðurinn á hlutskipi okkar Íslendinga í fortíðinni og örbirgð Afríkuþjóða í samtímanum er þó varasamur, þegar betur er að gáð. Að vísu voru Íslendingar öldum saman nýlenduþjóð, rétt eins og allar þjóðir Afríku, aðrar en Eþíópíumenn.En Íslendingar áttu sitt eigið tungumál og þurftu ekki að deila landi sínu með öðrum þjóðum. Hinar svokölluðu “þjóðir” Afríku eru hins vegar tilbúningur nýlenduherranna sem neyddu ólíka ættbálka til sambýlis á yfirráðasvæðum sínum. Að fengnu sjálfstæði á seinni hluta seinustu aldar urðu einatt til “gerviríki”, þar sem íbúarnir áttu fátt sameiginlegt annað en arfleifð nýlendudrottnanna – ekki einu sinni sameiginlegt tungumál. Við slíkar aðstæður er erfitt að halda friðinn í sátt og samlyndi. Þetta böl nýlenduarfsins þjakar Afríku enn í dag og er henni fjötur um fót á leið inn í nútímann.

Íslendingar brutust út úr moldarkofum örbirgðarinnar til bjargálna neyslusamfélagsins á rúmlega hálfri öld. Þrennt kom til: Framkvæmdavaldið færðist inn í landið (frá nýlenduherrunum, rétt eins og í Afríku); við fengum aðgang að erlendu framkvæmdafé (Íslandsbanki); og við höfðum tollfrjálsan aðgang að erlendum mörkuðum fram að fyrra stríði. Þetta þrennt þýddi að á áratug fyrir fyrra stríð (1905-1914) hurfu Íslendingar frá sjálfsþurftarhokri við tæknistig þrettándu aldar og urðu útflutningsþjóð, sem bjó í þéttbýli.

Öfugt við kenningar frjálshyggjupostulana um alræði markaðsafla og skaðsemi ríkisíhlutunar, gegndi ríkisvaldið lykilhlutverki í þessu hagvaxtarmódeli. Ríkið kom á skólaskyldu (1907) og tryggði öllum ókeypis aðgang að skólagöngu sem var fjármögnuð með sköttum. Ríkið byggði orkuver, hafnir, vegi, brýr og flugvelli og sá um flutninga á sjó um land allt. Með uppbyggingu þessara innviða varð Ísland sjálfbært hagkerfi sem hafði aðgang að utanríkisverslun sem stóð undir batnandi lífskjörum.

Gæfumunur

En að baki öllu þessu var ein auðlind, sem gerði gæfumuninn um að sjálfbærar framfarir gætu orðið: Upplýst fólk. Fátækt fólk, já, en læst og skrifandi. Íslendingar voru fljótir að læra, fljótir að tileinka sér nýja tækni, fljótir að aðlagast breyttum þjóðfélagsháttum. Allt vegna þess að þeir voru læsir og skrifandi. Á því byggist lýðræðið. Á því byggist réttarríkið. Á því byggist aðhald fjölmiðla að valdhöfum sem er nauðsynlegt til að halda í skefjum spillingaráráttu mannskepnunnar. Á því byggjast allar tækniframfarir.

Þetta er lykillinn að lausninni á vanda fátæktarinnar: Menntun mannfólksins. Okkur, sem löngum vorum hinir snauðustu meðal hinna snauðu, ber skylda til að miðla öðrum af reynslu okkar og rétta þeim hjálparhönd, alveg eins og aðrir réttu okkur hjálparhönd á sínum tíma (landflóttinn til Vesturheims og Marshallaðstoðin eftir stríð). Hvernig væri að ungir Íslendingar, sem hafa nýlokið stúdentsprófi en ekki gert upp hug sinn um framhaldsnám, leggi það í vana sinn að verja svo sem eins og einu ári sem kennarar í þróunarlöndum? Jafnvel þótt þeir þurfi að horfast í augu við hundrað og tuttugu bréfsefnislausa berfætlinga í bekkjardeild? Mikið skal til mikils vinna.