Stuðningsmannalisti Jóns Baldvins: BLÓÐ, SVITI OG TÁR!

Áskorun til kjósenda frá Jóni Baldvini Hannibalssyni f.v. formanni Alþýðuflokksins.

Stærstu verkefni næsta kjörtímabils verða að losa þjóðina úr skuldafjötrum og að semja við Evrópusambandið og aðildarþjóðir þess um not á traustum gjaldmiðli, sem getur tryggt okkur stöðugleika í framtíðinni.

Það er allra hagur – heimila og atvinnulífs – að þetta takist. Við þurfum öll lægri vexti af skuldum, lægra verð á lífsnauðsynjum og afnám verðtryggingar, sem við fáum með evrunni.

Í þessu prófkjöri þurfum við að velja fólk til forystu, sem við treystum, að fenginni reynslu, til að valda þessum verkefnum.

Reynslan er ólygnust dómari!

Ég vísa til eftirfarandi reynslu minnar:

  • Sem fjármálaráðherra 1987-88 beitti ég mér fyrir heildaruppstokkun á tekjuöflunarkerfi ríkisins: tollum, tekjusköttum og neyslusköttum. Þetta eru enn í dag þær fjárhagslegu stoðir sem velferðarríkið íslenska byggir á.
  • Á næsta kjörtímabili verður eitt vandasamasta verkefnið að endurskipuleggja tekju- og gjaldakerfi ríkisins til að borga upp skuldir og jafna byrðum út frá grundvallarsjónarmiðum jafnaðarmanna um jöfnuð og réttlæti. Reynsla af verkstjórn í ríkisfjármálum mun þá koma að góðu haldi.
  • Sem utanríkisráðherra 1988-95 bar ég fyrir Íslands hönd ábyrgð á samningum við Evrópusambandið, á árunum 1989-93 um stofnun Evrópska efnahagssvæðisins (EES).
  • Á næsta kjörtímabili verður það stærsta verkefni þjóðarinnar að leiða til lykta samninga við Evrópusambandið um aðild Íslands og upptöku evru.
  • Ég býð fram krafta mína og reynslu til þess að klára málið.
  • Áttatíu daga stjórnin tók við þrotabúi nýfrjálshyggjunnar.
  • Á næsta kjörtímabili þurfum við að endurreisa hið norræna velferðarríki á Íslandi á traustum grunni félagslegrar samstöðu og undir merkjum jafnaðarstefnunnar.
  • SAMEINUMST UM AÐ TRYGGJA JAFNAÐARSTJÓRN EFTIR KOSNINGAR!

Stuðningsmannalisti Jóns Baldvins

  • Jón Baldvin hefur ákveðið að gefa kost á sér á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir komandi alþingiskosningar. Hann óskar eftir stuðningi í eitt af 8 efstu sætum listans í forvali Samfylkingarinnar. Netkosning hefst mánudaginn 9. mars, kl.14:00 og stendur yfir til fös. 13. mars frá kl. 14 – 20 í kosningaskrifstofu SF að Skólabrú (næst Dómkirkjunni í Reykjavík). Laugardaginn 14. mars stendur kosningin yfir að Skólabrú frá kl. 09:00 til kl. 22:00 . Allar nánari upplýsingar veitir starfsfólk SF (Kristín Erna, Maríanna og Sigurður Kaiser) að Skólabrú (s: 571 0775).