Það á að vera einn skipstjóri um borð.

Fyrstu viðbrögð mín við þeirri ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að draga sig í hlé frá stjórnmálum af heilsufarsástæðum eru þau að óska þess af heilum hug að hún geti nú einbeitt sér að því að ná fullri heilsu á ný. Heilsan er það dýrmætasta sem hver manneskja á. Enginn skyldi útiloka það að Ingibjörg Sólrún, sem er kona á besta aldri, eigi afturkvæmt í stjórnmál á ný, hneigist hugur hennar til þess eftir að hún hefur aftur náð fullum bata.

Nú er ljóst að þeir þrír stjórnmálaflokkar sem ábyrgð hafa borið á stjórn landsins á örlagatímanum frá einkavæðingu fram að hruni, munu ganga til kosninga undir nýrri forystu. Þótt spurningin um póitíska ábyrgð flokksleiðtoga og ríkisstjórnaroddvita á búsifjum eins og íslenska þjóðin hefur mátt þola, sé ekki þar með útkljáð, auðveldar þetta frambjóðendum að einbeita sér að umræðu um framtíðarlausnir fremur en að dvelja um of við fortíðina.

Vegna veikinda Ingibjargar Sólrúnar hafði það þegar orðið að ráði við myndun 80 daga minnihlutastjórnarinnar að leita eftir því við Jóhönnnu Sigurðardóttur að hún leiddi þá ríkisstjórn fram að kosningum. Jóhanna hefur þegar skuldbundið sig til að gera það. Þar með er Jóhanna í reynd tekin við forystuhlutverki í Samfylkingunni. Þar sem hún er það þegar á borði tel ég rökrétt að hún verði það einnig í orði. Það kann aldrei góðri lukku að stýra að hafa tvo skiptstjóra um borð. Allra síst í brimróðri eins og framundan er.

Bjarni heitinn Ben orðaði þessa sömu hugsun forðum á þann veg að það væri óráð að skipta um hest í miðri á. Það var rétt hjá honum. Fólk á að klára þau verk sem það tekur að sér. Ég fyrir mitt leyti skora á Jóhönnu að gefa sér tíma til að íhuga stöðuna betur. Ég hvet Samfylkingarfólk til þess að beina þeirri áskorun til Jóhönnu að taka við forystuhlutverkinu á komandi landsfundi til næstu tveggja ára a.m.k. Það væri bara formleg staðfesting á þeirri staðreynd að hún mun leiða flokkinn í kosningabaráttunni.

Við skulum anda rólega næstu dægrin og bíða átekta eftir því hvort ekki getur orðið víðtæk samstaða um slíka niðurstöðu. Eðlilegt væri t.d. að bíða eftir niðurstöðum úr forvali Samfylkingarinnar í Reykjavík og Kraganum á næstu helgi. Hugsanlega munu niðurstöður í því forvali verða til þess að gefa skýrari mynd af vilja flokksmanna. Stundum er hyggilegt að flýta sér hægt. Svo þegar ákvarðanir hafa verið teknar ber að spretta úr spori.