SKULDAVANDI HEIMILANNA: LEITIN AÐ LAUSNUM

Það eru 80 þús. heimili í landinu. Eftir gengishrunið og verðbólguskotið í framhaldinu er svo komið að um fjórtán þúsund heimili eiga ekki eignir fyrir skuldum (18%). Fimmtungur heimilanna í landinu – um 16 þús. heimili – til viðbótar nálgast hratt að lenda í þessari stöðu. Það er því hvorki meira né minna en um 30.000 heimili sem eru á hættusvæði og þurfa á hjálp að halda.

Þessar upplýsingar komu fram í gær (10.03.) á reglulegum blaðamannafundi forsætis- og fjármálaráðherra. Upplýsingarnar eru fengnar úr gagnagrunni um fjármál heimilanna, sem Seðlabankinn hefur dregið saman með heimild persónuverndar. Í gagnagrunninum koma fram sundurliðaðar upplýsingar um tekjur og gjöld, eignir og skuldir, greiðslubyrði lána, vanskil o. fl. Tilvist þessa gagnagrunns auðveldar ákvarðanatöku um varnaraðgerðir varðandi fjárhagsvanda heimilanna í landinu.

Fyrsta spurning er hvort beita eigi almennum aðgerðum, sem taka til allra, án tillits til sérstakra aðstæðna hverrar fjölskyldu fyrir sig? Eða hvort beita eigi sértækum aðgerðum, sem er óneitanlega flóknara?

Sem dæmi um skammtímaaðgerðir, sem þegar hafa verið lögfestar eða standa nú þegar til boða má nefna eftirfarandi: Tímabundin frysting afborgana og mildandi aðgerðir vegna greiðsluþrota gagnvart innheimtu, fjárnámi, útburði, gjaldþroti etc.

ALMENNAR AÐGERÐIR

Sem dæmi um almennar aðgerðir má nefna tillögur Framsóknarflokksins um 20% flatan niðurskurð á öllum skuldum heimilanna. Þrátt fyrir þann kost að aðgerðin er tiltölulega einföld í framkvæmd, eru ókostirnir slíkir að tillagan er óframkvæmanleg.

  • Heildarveðskuldir heimilanna nema ca. 1200 milljörðum kr. 20% niðurfelling yfir alla línuna kostar þá 240 milljarða.
  • Það samsvarar helmingi ríkisútgjalda skv. fjárlögum. Með vísan til þess að vaxtabyrði af skuldum ríkissjóðs mun á þessu og næsta ári nema allt frá 90 milljörðum til a.m.k. 130 milljörðum kr. má ljóst vera að ríkið (skattgreiðendur) hafa ekki efni á því að fara þessa leið.
  • Í óbreyttu skattkerfi er skattbyrði borin uppi af millitekju- og lágtekjufólki. Þeir sem skulda mest eru hins vegar hátekjufólk. Þessi tillaga Framsóknar mundi því þýða tekjutilfærslur frá hinum efnaminni til hinna efnameiri. Eða eins og Þórólfur Matthíasson hagfræðingur orðaði það: Framsóknartillagan er öfugur Hrói Höttur. Þar með er hún dauð.
  • Önnur dæmi um vel útfærðar og gagnlegar almennar aðgerðir eru: (1) vaxtabótakerfið og (2) barnabótakerfið. Vaxtabótakerfið var látið drabbast niður í tíð þeirra Haarde og Mathiesens sem fjármálaráðherrar. Ríkisstjórnin hefur nú afgreitt til þingsins frumvarp til laga um hækkun vaxtabóta: hámarksupphæð og viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta munu hækka um 25%. Þetta á að fjármagna með skatttekjum af útleystum séreignasparnaði. Miðað við stærð vandans verður að játa að þetta takmörkuð lausn (kostnaður um 2 milljarðar).

ÍBÚALÁNASJÓÐUR OG GREIÐSLUAÐLÖGUNIN

Á s.l. kjörtímabili gerði íhaldið ítrekaðar atlögur að Íbúðalánasjóði. Þeir vildu láta leggja hann niður og færa þjónustuna yfir í bankana. Sem betur fer tókst það ekki. Íbúðalánasjóður, sem er opinber stofnun og með ríkisábyrgð, er helsta stjórntækið sem til er í höndum ríkisins til þess að koma til móts við skuldavanda heimilanna. Aðferðin er fyrst og fremst með atbeina laganna um GREIÐSLUAÐLÖGUN. Hér eftir munu ákvæði laga um greiðsluaðlögun ná til húsnæðislána (veðlána). Þessi leið snýst um það að laga greiðslubyrði hvers skuldara að greiðslugetu hans með sérstökum samningi.

  • Samið er um frestun afborgana eitt ár í senn í allt að þrjú ár
  • Afborganir eru aðlagaðar að greiðslugetu
  • Það sem umfram er færist inn í höfuðstól og frestast í allt að þrjú ár
  • Staða skuldarans er endurskoðuð eftir þjú ár
  • Heimilt er skv. nánari reglum að afskrifa hluta láns
  • Heimilt er að skuldbreyta vanskilum
  • Heimilt er að lengja lánstíma (þó það sé lítil bót í máli)
  • ÍB getur veitt ný lán til að greiða upp óhagstæð bankalán
  • ÍB keyrir lántaka aldrei í gjaldþrot, en yfirtekur eignir
  • Heimilt er að gera leigusamning við þann aðila sem glatar eignarétti vð greiðsluþrot

Þessi úrræði eru einstaklingsbundin og kalla á samninga milli ÍB og einstakra lántakenda.

MYNTKÖRFULÁNIN

Forsætisráðherra tilkynnti að fyrir vikulok mundi ríkisstjórnin kynna tillögur sínar um lausn á vanda þeirra sem sitja uppi með gengistengd myntkörfulán.

  • Bankarnir hafa þegar heimilað tímabundna frystingu afbrgana.
  • Skv. reglugerð hafa bankarnir heimild til að semja við ÍB um yfirtöku á þessum lánum. Þeim er það ekki skylt. Einungis fáeinir sparisjóðir hafa nýtt sér þessa heimild hingað til.
  • Lausn ÍB væri í því fólgin að breyta lánasamningi í ís.kr. með verðtryggingarkjörum og lengingu á lánstíma.

Myndkörfulánin voru tekin hjá gömlu bönkunum. Þeir eru nú í gjaldþrotameðferð. Þar með væru þessi lán væntanlega afskrifuð nema á móti komi eignir bankanna upp í þesar skuldir. Sagt er að þessi lán hafi verið yfirfærð frá gömlu bönkunum til hinna nýju með sérstökum samningi. Nýju bankarnir sömdu um tiltekinn afslátt vegna yfirtöku lánanna. Í þessu efni er ýmsum spurningum ósvarað. Af hverju nýtur lántakandinn sjálfur ekki þessara afsláttarkjara? Er ekki ólíklegt að nýju bankarnir vilji sjálfviljugir yfirfæra þessi lán til ÍB, þar sem þeir eygja hagnaðarvon í innheimtu lánanna? Á að skylda bankana til að yfirfæra lánin til ÍB? Hvaða líkur eru á því að gengið styrkist nægilega (það hefur nú þegar styrkst um rúmlega 15% frá áramótum) til þess að lántakandinn sjái sér hag í að halda myntkörfuláninu fremur en að láta yfirfæra það í íkr. á verðtryggingarkjörum? Það stendur upp á ríkisstjórnina og talsmenn hennar að svara þessum spurningum á allra næstu dögum. Hrun krónunnar tvöfaldaði skuldabyrði þessa hóps í einu vetfangi. Lausn á vanda þessa hóps verður því ekki frestað fram yfir kosningar.

JÁ, EN HVAÐ MEÐ VERÐTRYGGINGUNA?

Svo stendur eftir stóra spurningin um, hvort stjórnvöld treysta sér til að taka kúfinn af hinu tímabundna verðbólguskoti vegna gengisfalls krónunnar út úr verðtryggingarferlinu? Þetta væri almenn aðgerð sem kæmi öllum að notum, sem eru með verðtryggð innlend lán. Þeir sem yrðu að borga reikninginn væru ríkið (í gegnum ÍB og ríkisbankana) og lífeyrissjóðirnir. Útreiknanlegar tillögur um aðgerð af þessu tagi og kostnað henni samfara hafa enn ekki litið dagsins ljós. Flestir þeirra sem þekkja vel til þessara mála telja ólíklegt að þessi leið sé fær af kostnaðarástæðum. Sé það rétt ber að taka af tvímæli um það. Óvissan er versti óvinurinn.

(sjá næstu grein um kosti og galla verðtryggingar)