JÁ, EN HVAÐ MEÐ VERÐTRYGGINGUNA?

Það er engin eftirspurnarþensla í hagkerfinu til að kynda undir verðbólgu. Þvert á móti. Framundan er samdráttur og jafnvel verðhjöðnun. Þes vegna er furðulegt að Seðlabankinn (eða IMF/AGS) skuli halda uppi 18% stýrivöxtum. Til hvers? Til þess að stöðva fjárflótta úr landi, segja þeir. Þess þarf ekki þar sem við búum við gjaldeyrishöft. Það er bannað að flytja fé úr landi nema með leyfi. Hves vegna er þá verið að halda uppi 18% vöxtum? Til þess að draga úr verðbólgu segja þeir. En það er engin verðbólga – það er verðhjöðnun framundan.

Þetta gengur m.ö.o. ekki. Bankakerfið er í lamasessi. Vextir eru allt of háir. Eigið fé fyrirtækjanna er á þrotum, enda sogast það með ofurvöxtunum inn í bankana. Hvers konar atvinnustefna er þetta? Um tíu fyrirtæki verða gjaldþrota á dag og tala atvinnuleysingja er komin yfir 16.000. Alls staðar í löndunum í kring um okkar er verið að lækka vexti. Stýrivextir Bank of England eru að nálgast núllið. Efnahagsvandinn núna er ekki að draga úr þenslu heldur að koma í veg fyrir samdrátt. Það þarf að lækka vexti og moka peningum í fyrirtækin til þess að halda uppi framleiðslu og atvinnu.

Þegar gengi krónunnar hrundi leiddi það til tímabundinna verðhækkana á innfluttum vörum. Þetta er tímabundin innflutningsverðbólga en ekki verðbólguþensla vegna umframeftirspurnar innanlands.

GALLAR VERÐTRYGGINGAR

Þá vaknar spurningin: Hvers vegna á kúfurinn af þessu tímabundna verðbólguskoti að fara í gegnum verðtryggingarferlið (vísitölu neysluverðs) gegnum höfuðstól veðlána og hækka þar með greiðslubyrði af lánum? Er ekki nóg að hrun gjaldmiðilsins hækki innflutningsverð? Til hvers að bæta gráu ofan á svart með hærri greiðslubyrði lána? Þetta er ein af mörgum spurningum sem Íslendingar brjóta nú heilann um í þeim hremmingum sem yfir þá hafa dunið í kreppunni. Hvers vegna eiga afborganir mínar af húsnæðislánum að hækka við það að ríkisstjórnin ákvað að hækka skatta á brennivíni og bensíni? Skattahækkunin ein út af fyrir sig skerti kaupmátt minn. Hvers vegna þarf að skerða hann frekar með hækkun afborgana af lánum? Er það ekki óskylt mál? Er nema von að það vefjist fyrir landanum að skilja systemið í þessum galskap?

HVERS VEGNA VERÐTRYGGING?

Áratugum saman bjuggum við, Íslendingar, við viðvarandi verðbólgu (30-40% á ári), langt umfram aðrar þjóðir í Evrópu. Vextir náðu aldrei upp í verðbólguna (raunvextir voru neikvæðir). Sparifé brann upp í verðbólgunni. Hluti lána var í reynd styrkur. Að baki bjó sú staðreynd að krónan var ekki nothæfur gjaldmiðill. Gjaldmiðill á ekki bara að vera reiknieining. Hann þarf að geyma í sér verðmæti, sem stenst frá einum tíma til annars. Íslenska krónan er ekkert af þessu. Enginn treysti sér til að veita lán til langs tíma í krónum nema þá gegn ofurvöxtum. Verðtryggingunni varð komið á (ca. 1979) til þess að leysa þennan vanda. Tilgangurinn með henni var (1) að bjarga lífeyrissjóðunum frá því að brenna upp, (2) að örva sparifjármyndun, (3) að draga úr lánsfjárhungri og (4) að búa til mælikvarða á arðsemi fjárfestinga (áður borgaði allt sig af því að lánin voru gefins).

Verðtryggingin var með ö.o. neyðarráðstöfun. Henni var komið á í staðinn fyrir nothæfan gjaldmiðil. Úr því að krónan er ónýt þá notum við verðtryggingarkrónu. Þetta var á sínum tíma harkaleg aðgerð til að draga úr innbyggðum verðbólguhvötum. Þetta skilaði árangri, einkum framan af. Aðalatriðið er að verðtryggingin bjargaði lífeyrissjóðunum. Lífeyrissjóðirnir eru helsti styrkur okkar hagkerfis. Þeir fela í sér sjóðsöfnun sem er hvort tveggja verðtryggð og skilar ávöxtun – arði af fjárfestingum. Þetta var á sínum tíma mikil framför.

TÍMABUNDIN BÓT – LANGTÍMA MEINSEMD

En verðtrygging skv. neysluverðsvísitölu hefur afleita galla til langs tíma. Við fórum úr einum öfgunum í aðra. Í gamla kerfinu voru það sparifjáreigendur sem voru féfléttir, en skuldararnir verðlaunaðir. Í verðtryggingarkerfinu hafa fjármagnseigendur ( bankar, lífeyrissjóðir o.fl.) allt sitt á þurru. Þeir taka enga áhættu (þ.e. við venjulegar kringumstæður – það þarf kerfishrun til að valda þeim skaða). Nú er það lántakandinn sem ber einn alla áhættu. Að vísu er það svo að við erum flest okkar allt í senn: sparifjáreigendur og fjármagnseigendur (í gegnum lífeyrissjóði) og lántakendur og skuldarar og skattgreiðendur. Þetta getur leitt til margvíslegra hagsmunaárekstra sem birtast með ólíkum hætti, t.d. á hinum ýmsu æviskeiðum.

Einn versti gallinn við verðtryggingarkerfið, ef menn búa við það til langframa, er að það losar ríkisstjórnir undan því aðhaldi að taka afleiðingum gerða sinna. Afleiðingum mistakanna er sópað undir teppi
verðtryggingarinnar. Fari verðbólga úr böndunum rjúka vextir ekki strax upp úr öllu valdi. Ef þeir gerðu það mundi eftirspurn eftir lánsfé falla, fyrirtæki mundu komast í þrot, atvinnuleysi mundi aukast og almenningur mundi bregðast við. En með verðtryggingunni hækkar höfuðstóll lána með varanlegum hætti út lánstímann en nafnvextir eru áfram fastir.

Dugi verðtryggingin ekki til þess að draga úr lánsfjárþenslu verður ástandið sem við tekur óþolandi. Verðtryggingin verður þá partur af sjálfvirku verðbólguferli. Þjóðfélagið lagar sig að varanlegri verðbólgu. Verðtryggingin slævir hvatann til að taka á vandanum. Endanlega verður verðtryggingin sjálf verðbólguvaldur.

HVERNIG LOSNUM VIÐ VIÐ HANA?

Einn kerfisgalli verðtryggingarinnar er sá að hún endurspeglar neyslumynstur liðins tíma. Í fyrra var uppsveifla. Fólk fjárfesti í varanlegum neysluvörum, eins og bílum, húsbúnaði o.fl. Á samdráttartímum breytist mynstrið en neyslumælingin mælir liðna tíð.

Hvernig getum við losnað út úr vítahring verðtryggingarinnar? Það segir sig sjálft að ef verðtrygging væri afnumin þegar verðbólga og stýrivextir eru upp undir 20% þá mundu nafnvextir rjúka upp úr öllu valdi eins og skot. Það hefði þegar í stað alvarlegar afleiðingar. Eftirspurn eftir lánsfé mundi gufa upp enda vaxtabyrðin óbærileg. Svo ber að hafa í huga að sjóður eins og Íbúalánasjóður fjármagnar sig með skuldabréfaútgáfu á verðtryggingarkjörum sem gilda áratugi fram í tímann. Afnám verðtryggingar hjá lántakendum mundi því setja sjóðinn á hausinn fyrr en varir.

Þetta þýðir að verðtrygging verður ekki afnumin með einu pennastriki. Það tekur langan tíma að eyða áhrifum hennar út úr kerfinu. Endanleg niðurstaða er þessi: Til þess að losna við verðtrygginguna verður þjóðfélagið að taka upp traustan gjaldmiðil sem varðveitir verðgildi sitt frá einum tíma til annars. Eina leiðin fyrir okkur Íslendinga til að losna út úr vítahring verðtryggingarinnar er að losa okkur við krónuna og ganga inn í stærra og öflugra myntsvæði sem getur staðið undir hlutfallslega traustum gjaldmiðli. Við erum að tala um að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Það er frambúðarlausnin.