NÆSTA AFSÖKUNARBEIÐNI?

Skörp greining Benedikts Jóhannessonar, stærðfræðings, í Fréttablaðinu (11.03.) á tveimur framtíðarkostum þjóðarinnar ætti að vekja fólk til umhugsunar. Annars vegar óbreytt ástand með krónuna í farteskinu og meðfylgjandi gengisfellingar, afkomusveiflur, ofurvexti og reglubundnar neyðarráðstafanir þegar allt er komið í hönk. Hins vegar aðild að Evrópusambandinu og evrusvæðinu með traustan gjaldmiðil, viðráðanlega vexti, tiltölulega stöðugt verðlag og rekstrarskilyrði atvinnuvega sem skapa rými fyrir erlendar fjárfestingar, nýsköpun og þar með samkeppnishæfni á alþjóðamörkuðum.

Valið sýnist við fyrstu sýn vera tiltölulega auðvelt. Hvernig má það vera að það getur vafist fyrir forystumönnum Sjálfstæðisflokksins að gera upp hug sinn til þessa stærsta verkefnis samtímans hátt á annan áratug? Það er ekkert launungarmál að forystumenn íslensks atvinnulífs hafa hingað til talið sig eiga pólitískt athvarf í Sjálfstæðisflokknum. Hvernig má það vera að hin pólitíska forysta flokksins er svo veruleikafirrt, að hún skilur ekki lengur brýnustu þarfir atvinnulífsins? Eru þessir menn virkilega ófærir um að setja sig í spor þeirra manna, sem þurfa að reka fyrirtæki með hagnaði og ráða fólk í vinnu og borga því laun?

Það er dapurlegt að rifja upp hringlandahátt forystumanna Sjálfstæðisflokksins og átakanlegan skort þeirra á stefnufestu í þessu stærsta máli samtímans á undanförnum tveimur áratugum. Tökum nokkur dæmi:

  • Sem formaður aldamótanefndar Sjálfstæðisflokksins (1989) kvað Davíð Oddsson, þáverandi borgarstjóri, upp úr um það að framtíð Íslands væri innan Evrópusambandsins.
  • Í stjórnarandstöðu, undir forystu Þorsteins Pálssonar, snerist Sjálfstæðisflokkurinn hins vegar gegn EES-samningnum, sem vinstri stjórn Steingríms Hermannssonar vann þá að, og þóttist vilja tvíhliða samning við Evrópusambandið um markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir. Seinna viðurkenndu Sjálfstæðismenn að þetta hefði verið lýðskrum, enda enginn slíkur samningur í boði.
  • Eftir kosningar 1991 var Sjálfstæðisflokkurinn tilbúinn, undir nýrri forystu, að kúvenda afstöðu sinni til EES-samningsins, gegn því að fá ríkisstjórnarforystu.
  • Þegar gengið var til atkvæða á alþingi um EES-samninginn (13. jan.1993) klofnaði þingflokkur Sjálfstæðisflokksins í afstöðu sinni þrátt fyrir natna verkstjórn Björns Bjarnasonar, sem þá var formaður utanríksmálanefndar.
  • Í tólf ára stjórnarsamstarfi með Framsókn notaðist Sjálfstæðisflokkurinn við þau rök að Ísland þyrfti ekki að ganga í Evrópusambandið af því að EES-samningurinn væri svo góður.
  • Eftir hrun þykjast forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa fundið það út að hrunið væri EES-samningnum beinlínis að kenna. Það hefði verið hættulegt árið 1994 að opna fyrir gagnkvæman fjárfestingarrétt og fjármagnsflutninga skv. EES-samningnum, án þess að stíga skrefið til fulls og taka upp evruna.
  • Alþýðuflokkurinn, undir minni forystu, boðaði þá stefnu – inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru – þegar fyrir kosningarnar 1995. Við verðum því ekki sakaðir um fyrirhyggjuleysi. En þá þótti Sjálfstæðismönnum það hin versta fjarstæða af því að Íslendingum gengi miklu betur en Evrópusambandinu á þeim tíma.
  • Undir lok stjórnarsamstarfsins með SF stóð til að hraða landsfundi í því skyni að reyna að móta flokknum stefnu í málinu. Nú er búið að fresta þeim fundi og flokkurinn er jafn stefnulaus í stærsta máli samtímans og hann hefur alltaf verið.
  • Þannig mun hann ganga klofinn til kosninga í apríllok.

Þetta er ein samfelld sorgarsaga. Hvað veldur þessu pólitíska getuleysi flokks, sem löngum hefur verið stærsti flokkur þjóðarinnar og talið sig vera , að eigin áliti, forystuflokk þjóðarinnar? Er það virkilega óttinn við klofning flokksins sem veldur því að flokksforystan getur ekki gert upp hug sinn? Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn virkilega að láta það um sig spyrjast að þjóðarhagsmunir eigi að víkja fyrir flokkshagsmunum? Hvernig má það vera að flokkur sem getur ekki einu sinni veitt sjálfum sér forystu geri kröfu til að leiða þjóðina út úr þeim ógöngum, sem þessi sami flokkur kom þjóðinni í? Heitir þetta ekki að dæma sig sjálfur úr leik?