Þetta er hún Eva Joly (öðru nafni Gro Farseth), norsk í húð og hár en frönsk að mennt og menningu. Merkilegt hversu mjög Íslendingar verða að leita á náðir Norðmanna þessi misserin: Seðlabankastjórinn, rannróknardómarinn Eva, og fjármálaráðherrann er jafnvel farið að dreyma upphátt um norsku krónuna. Hvað er næst?
Hvað varð Evu að orði þegar embætti hins rérstaka saksóknara, sem á að rannsaka rökstuddan grun um brot á lögum af hálfu ólígarkanna, var kynnt fyrir henni. Eitt orð: BRANDARI. Henni fannst það m.ö.o. liggja í augum uppi að Íslendingar tækju málið ekki alvarlega. Að þetta væri sýndarmennska eða eins konar friðþæging fremur en að það lýsti einbeittum vilja til að upplýsa mál og fullnægja réttlætinu.
Liggur það ekki í augum uppi að við verðum að leita til erlendra sérfræðinga til þess að stýra þesari rannsókn? Hvernig er íslenska réttarfarskerfið mannað? Það væri fróðlegt að kanna, hversu margir þeirra sem voru í aðalhlutverkum í bissness og póitík á þessum örlagaárum fyrir hrun vensluðust á hinum dæmigerðu framabrautum Sjálfstæðisflokksins: Versló eða MR; Heimdallur og SUS; Lagadeild HÍ, Orator, Vaka og stúdentaráð. Sá ég ekki einhvers staðar lista yfir toppana og helstu stjórnendur Landsbankans, undir verndarvæng Björgólfs eldra, þar sem allir voru komnir út úr þessari útungunarvél? Og topparnir í fjármálaráðuneytinu og fjármálaeftirlitinu líka?
Þetta rifjar upp að fyrr á tíð, þegar þjóðfélagið var í fastari skorðum voru sýslumannsembættin á Íslandi 50 talsins. Einhvern tíma á sjöunda áratugnum gerði ég úttekt á því hvernig almannarómur sagði sýslumennina dragast í pólitíska dilka. Niðurstaðan var þessi: 25 voru sjálfstæðismenn; 24 voru framsóknarmenn; 1 var óráðinn, en lá undir grun um að vera krati inn við beinið. Svona var það þá. Hefur eitthvað breyst? Hvað með ráðuneytin eftir 18 ára samfellda stjórn Sjálfstæðisflokksins? Ætli nokkur maður fyrirfinnist í dómsmálaráðuneytinu eða í batteríinu sem stýrir réttarfari og löggæslu, sem tilheyrir ekki Flokknum.
Og hvað með bissness? Fram að hruni SÍS (sem hófst með verðtryggingu og raunvöxtum) var helmingaskiptareglan – 50/50 – hin óskráða stjórnarskrá viðskiptalífsins. Helmingurinn af bissness var á forræði Sjálfstæðisflokksins. Þar voru LÍÚ, SH, Eimskip, Stórkaupmannafélagið, SHELL, Sjóvá, Vinnuveitendasambandið og VR. Gleymi ég ekki einhverju? Undir Framsóknarflokknum var SÍS, kaupfélögin, bændasamtökin og framleiðsluráð landbúnaðarins, Skipadeildin, Samvinnutryggingar, ESSO og sitthvað fleira. Sums staðar var skipt til helminga. Það átti við um varnarliðsframkvæmdirnar og hernámsgróðann og SÍF. Það eru leifarnar af þessu batteríi sem mynda hið óskráða eignarhaldsfélag sem gerir út Framsóknarflokkinn.Hitt liðið er eiginlega allt í Sjálfstæðisflokknum. Þótt Davíð Oddsson, sem var handgenginn gömlu peningunum í Sjálfstæðisflokknum, hefði horn í síðu þeirra Bónusfeðga breytti það engu um það að Jóhannes, Bónuspabbi, kostaði heilsíðuauglýsingar til að skora á viðskiptavini sína að kjósa Sjálfstæðisflokkinn – bara ef þeir vildu gera það fyrir hann að strika út Björn Bjarnason.
Ég spyr enn: Hefur eitthvað breyst? Það eina sem hefur breyst er að hin pólitíska forysta þessara afla – forysta Sjálfstæðisflokksins og Seðlabankans – brást sjálfri sér og öðrum vegna vanhæfis og kunnáttuleysis, þannig að fjármálakerfið sem þessi öfl höfðu í sameiningu byggt upp er hrunið til grunna. Tengslanet valdakerfisins í gegnum ráðuneyti og ríkisstofnanir og fjármálastofnanir og fyrirtækjasamtök er enn á sínum stað. Þá er spurningin: Á kerfið að rannsaka sjálft sig? Um það sagði Eva Joly allt sem segja þarf: BRANDARI.