PÓLITÍSK VORHREINGERNING

Það er ástæða til að óska verslunarfólki í Reykjavík og nýkjörnum formanni VR, Kristni Erni Jóhannessyni, til hamingju með hreingerninguna í félaginu. Ef þetta var vorhreingerning, þá var hún af illri nauðsyn snemma á ferðinni.

Fyrirfram gerðu fæstir sér vonir um að það tækist að velta Kaupþingsklíkunni úr stjórn félagsins. Kosningareglur félagsins eru flóknar og verulega letjandi fyrir virka stjórnarandstöðu. Almennt má segja að lýðræðið innan hinna fjölmennu stéttarfélaga sé þungt í vöfum. Fæst þessara félaga standa undir nafni sem lifandi félagsmálahreyfing, þar sem grasrótin lætur til sín taka. Í staðinn eru komnir fyrirgreiðslukontórar og sjóðvarsla. Það vekur því vonir um veglegra hlutverk fyrir verkalýðshreyfinguna í viðreisnaraðgerðumn eftir hrun, að uppreisnarhreyfing almennra félagsmanna í VR skyldi hafa tekist.

VR á sér sérstaka sögu. Í upphafi var þetta félagsskapur þar sem kaupmenn (atvinnurekendur) og starfsfólk þeirra (launþegar) störfuðu saman.

Lengst af var það atvinnurekendavaldið sem réði félaginu. Hjúin samsömuðu sig við vinnuveitendur sína og ríkjandi starfsandi líktist meira “upstairs- downstairs” (húsbændur og hjú) en alvöru stéttarfélagi, sem hafði það að markmiði að gæta hagsmuna launþega gagnvart atvinnurekendum. Kaupmennirnir tilheyrðu því sem næst – allir með tölu – flokki sínum, Sjálfstæðisflokknum, og hjúin fylgdu með í kaupbæti. VR hefur lengi verið einn af máttarstólpunum í valdakerfi Sjálfstæðisflokksins, rétt eins og fyrirgreiðsluþjónusta og vinnuveitendavald Reykjavíkurborgar. Sverrir Hermannsson, guðfaðir Frjálslynda flokksins var á sínum tíma erindreki Sjálfstæðisflokksins og gerður út úr Valhöll til þess að beita þessu fjömennasta stéttarfélagi landsins í þágu Sjálfstæðisflokksins. Hann sér sennilega eftir því núna, þar sem hann ristir þeim Valhallarmönnum – eins og hann kallar forystusauði Sjálfstæðisflokksins – rúnir níðs í blaðagreinum sínum. Kosning Kristins Arnar táknar því hvorki meira né minna en byltingu miðað við sögu félagsins frá upphafi. Þetta er í fyrsta sinn sem sjálfvakin hreyfing fólks á vinnustöðunum rís upp í réttlátri reiði yfir augljósri misnotkun á áhrifum félagsins í krafti öflugs lífeyrissjóðs og fjölda félagsmanna, í þágu forréttindaafla og sérhagsmuna stjórnarmanna og þeirra nánustu. Það væri ráðlegt fyrir hinn nýja formann að vera var um sig næstu misseri. Forréttindaöflunum mun áreiðanlega sárna það mjög að missa þennan spón úr aski sínum. Þau eru líkleg til að nota fyrsta tækifæri til að leita hefnda, þegar það gefst.