Almenna reglan er sú að aðildarríki ESB ráða sjálf yfir auðlindum sínum. Eignarréttarskipan á þeim er þeirra mál. Spánverjar ráða sínum ólífulundum; Bretar sinni Norðursjávarolíu; Pólverjar sínum kolanámum og Finnar sínum skógarlendum. Sameiginlega fiskveiðistefnan er undantekning frá þessu. Ástæðan liggur í augum uppi. Öldum saman hafa grannþjóðir við Norðursjó, sem nú eru innan ESB, nytjað sameiginlega fiskistofna á sameiginlegu hafsvæði. Til þess að mismuna þeim ekki er umsjá hins sameiginlega hafsvæðis hjá Evrópusambandinu, fremur en einhverri aðildarþjóðanna. Það ræðst af aðstæðum.
Samningsstaða okkar Íslendinga gagnvart Evrópusambandinu um forræði yfir efnahagslögsögunni er öll önnur en þessara þjóða. Íslenska efnahagslögsagan er algerlega aðskilin frá sameiginlegri lögsögu bandalagsins. Helstu nytjastofnar á Íslandsmiðum eru staðbundnir. Undantekningin er fáeinir flökkustofnar sem við höfum samið um við aðra og munum gera það áfram. Engin Evrópusambandsþjóð hefur framar sögulegan veiðirétt innan íslensku lögsögunnar. Á grundvelli þessara staðreynda verða samningsmarkmið okkar þau að íslenska lögsagan verði sérstakt fiskveiðistjórnunarsvæði á forræði Íslendinga. Þetta er ekki beiðni um tímabundna undanþágu frá sameiginlegu fiskveiðistefnunni. Þetta er krafa um íslenska sérlausn sem styðst við fordæmi.
Allir sem einhverja reynslu hafa af samningaviðræðum þar sem miklir hagsmunir eru í húfi, vita að þá fyrst harðnar á dalnum ef samningsaðilar verða að gefa eftir umtalsverð verðmæti til þess að ná sameiginlegri niðurstöðu. Íslendingar eru í þessu dæmi í þeirri öfundsverðu stöðu að þurfa ekki að taka neitt frá neinum, né heldur er þess krafist að Evrópusambandið láti eitthvað af hendi sem það á fyrir. Þessar staðreyndir valda því að, öfugt við ríkjandi skoðun, ætti að vera auðveldara að ná samningsniðurstöðu, þar sem gengið er á hlut hvorugs samningsaðilans, en í ýmsum öðrum málum. Og aðildarsamningur hefur sömu þjóðréttarlegu stöðu og sjálfur stofnsáttmálinn. Hann hefur varnalegt gildi.
Helgi Áss gefur sér þá forsendu að ekki sé hægt að semja við Evrópusambandið. Þar verði að taka hverju regluverki sem er, eða hafna öllum. Þetta er ekki rétt. Allar þjóðir sem hafa samið um aðild (27 talsins) hafa fengið viðurkenningu á brýnustu þjóðarhagsmunum sínum. Það mun eiga við um íslenskan sjávarútveg. Það kom líka á daginn í samningum Finna og Svía um landbúnað á sínum tíma. Þeir sömdu um sérlausn í krafti sérstakra aðstæðna, þótt það væri talið fyrirfram vonlaust. Það er sjálfur modus vivendi Evrópusambandsins að leysa ágreiningsmál aðildaþjóða með samningum á grundvellil laga og réttar. Niðurstaðan er því sú að þjóðareignarákvæði um auðlindir í stjórnarskrá mun styrkja samningsstöðu Íslands þegar þar að kemur, en ekki veikja.