AÐ LOKNU FORVALI

Hverjar eru helstu skýringar á hraklegri útreið minni (ca. 25% þáttakenda) í forvali SF í Reykjavík, s.l. laugardag, 14.03.09.?

Að bestu manna yfirsýn eru þessar helstar:

  1. Lokað forval
  2. Lítil þátttaka (rúmlega 40%)
  3. Bandalög heimavarnarliða helstu frambjóðenda gegn “utanaðkomandi ógn.”

Við þetta bætist, að sögn stuðningsmanna minna, að krafa mín (sem flestir tóku undir prívat en ekki upphátt) um að formaður SF viðurkenndi pólitíska ábyrgð sína á hruninu sem annar af tveimur oddvitum fyrrverandi ríkisstjórnar og viki, – þessi krafa þótti ber vott um “refsiverða háttsemi” og gott ef ekki “kvenfjandsamlega,” eins og því var lýst.

Innsti kjarni SF er m.ö.o. ekki að höndla hina lýðræðislega kröfu um pólitíska ábyrgð. Það boðar ekki gott. Ákvörðun ISG um að víkja úr formannssæti er hins vegar lofsverð. Þar með er spurningin um hugsanlegt formannsframboð mitt úr sögunni.

Ég er þeirrar skoðunar að frambjóðendur eigi ekki að “panta” sér sæti. Það sé kjósenda að vísa þeim til sætis. Þess vegna fór ég einungis fram á stuðning við að vera í hópi 8 efstu manna. Þetta gerði ég í trausti þess að 80-daga stjórnin mundi, með stuðningi framsóknar, heimila kjósendum að raða frambjóðendum í sæti á kjördegi. Ég hefði ekki kviðið þeim degi.

Heimavarnarlið SF í Reykjavík hefur hér með hafnað því að málflutningur minn muni styrkja stöðu SF meðal framvarðarsveitarinnar og í komandi kosningum.

Ég hef að sjálfsögðu meðtekið skilaboðin, enda verða þau ekki misskilin. Ég mun því ekki taka sæti á lista SF í Reykjavík við komandi alþingskosningar.

Bestu þakkir færi ég þeim sem lögðu mér lið í þessari tvísýnu tilraun til að rétta þeim hjálparhönd, sem eiga um sárt að binda eftir hrunið.

Bestu þakkir fá líka þau hundruð kjósenda sem tóku þátt með þér í málefnalegum umræðum á opnum fundum – en máttu því miður ekki kjósa í forvalinu.

Reykjavík, 15.03.09