“LOSER WINS?”

Menn hefur eitthvað greint á um það að undanförnu, hvort ég hafi haft erindi sem erfiði í forvali Samfylkingarinnar í Reykjavík. Það væri að vísu synd að segja að ég hafi lagt mikið á mig við að snúa stríðlyndum sálum til fylgilags, því að ég lyfti ekki símtóli og kostaði svo sem öngvu til. Sjálfur kenndi ég útkomuna við hrakför daginn eftir að úrslit voru birt. Nú þegar heilög Jóhanna hefur, eftir nokkra eftirgangsmuni, tekið við krýningu sem sjálfkjörinn formaður á landsfundi SF eftir viku eða svo, er kannski ástæða til að endurskoða þetta mat.

Rifjum upp atburðarásina. Þann 14. febrúar flutti ég ræðu að beiðni minna gömlu félaga í Alþýðuflokksfélagi Reykjavíkur um hrunið, orsakir þess og afleiðingar. Þar lýsti ég þeirri skoðun minni að Samfylkingin gæti ekki látið það um sig spyrjast að hún gerði minni kröfur um pólitíska ábyrgð á hendur eigin forystumönnum en annarra. Sem flokksformaður og annar oddviti ríkisstjórnar Geirs Haarde, sem skildi eftir sig stærsta þrotabú Íslandssögunnar, hlyti Ingibjörg Sólrún að axla sína ótvíræðu pólitísku ábyrgð með því að víkja. Ella yrði Samfylkingin eini flokkurinn, sem borið hefði ríkisstsjórnarábyrgð á óförum lýðveldisins, sem byði fram óbreytta forystu.

Þetta væri að mínu mati ekki boðlegt gagnvart þeim fjölda fólks, sem nú ætti um sárt að binda vegna aðgerða – eða aðgerðaleysis – fyrrverandi ríkisstjórnar. Jafnframt lýsti ég þeirri skoðun minni að Jóhanna Sigurðardóttir væri de facto tekin við pólitískri forystu Samfylkingarinnar sem sitjandi forsætisráðherra 80 –daga stjórnarinnar í aðdraganda kosninga. Til þess að gegna þessu vandasama starfi nyti Jóhanna trausts, jafnt flokksmanna sem fólksins í landinu.

Landsfundi SF bæri að staðfesta þessa staðreynd með því að kjósa Jóhönnu formann flokksins. Ég lýsti yfir stuðningi við Jóhönnu til formennsku – en bætti svo við: Ef þær stallsystur ætluðu sér að semja sín í milli um eitthvað annað mundi ég sjálfur bjóða mig fram til formanns til þess að tryggja að kosning færi fram á landsfundi; til þess að landsfundarfulltrúar fengju tækifæri til að svara samviskuspurningunni um pólitíska ábyrgð forystuliðs SF.

Þessu útspili mínu var ekki mjög blíðlega tekið. Sumar brugðust ókvæða við og sögðu að hér væri ómaklega vegið að ISG. Svo rann upp fyrir mönnum það ljós að ég hefði með ummælum mínum rofið þagnarhjúp – eins konar tabú. Satt að segja heyrði ég engan mann bera það við að andmæla rökum mínum, þótt ýmsir yrðu til að hallmæla boðberanum.

En hver voru viðbrögð þeirra stallsystra? Þær héldu sameiginlegan fréttamannafund og létu eftirfarandi boð út ganga: Þær hefðu komið sér saman um að ISG yrði áfram formaður SF, en JS yrði áfram forsætisráðherra. Jóhanna þvertók fyrir að hún vildi taka við formannshlutverkinu. Þá hefðu þær ákveðið að skipta með sér verkum við að leiða lista SF, hvor í sínu kjördæmi – norður og suður – í Reykjavík. Síðar bætti Össur um betur og sagðist ætla að vera í þriðja sætinu. Þetta var allt klárt og kvitt. Óbreytt Samfylkingarfólk í Reykjavík hvíslaðist eitthvað á um það, til hvers væri haft fyrir því að efna til forvals, úr því að úrslitin væru þegar ráðin.

En veðmál valkyrjanna stóð ekki lengi. Innan viku hafði ISG komist að þeirri skynsamlegu niðurstöðu að hún gerði rétt í því að víkja. Hún tilkynnti að hún mundi draga sig í hlé frá stjórnmálum um sinn og ekki gefa kost á sér sem formaður. Jóhanna ítrekaði að ekki kæmi til álita að hún gæfi kost á sér sem formaður. Í gær tilkynnti hún hins vegar að einmitt það mundi hún að vísu gera vegna fjöldaáskorana félaga sinna. Í allri hógværð fæ ég ekki betur séð en allt hafi gengið eftir sem ég lagði upp með í Alþýðuflokksræðunni fyrir fimm vikum. Skjóta byssurnar sjálfar? – var einu sinni spurt. Og við því var svo sem ekkert svar!

Þá á ég bara eftir að bera fram síðbúnar þakkir til þeirra fjölmörgu í heimavarnarliði Samfylkingarinnar í Reykjavík sem kusu mig ekki í forvalinu og forðuðu mér þannig frá þeim þungbæru örlögum að þurfa að setjast aftur inn á alþingi Íslendinga. Ætli það sé ekki eitthvert óöfunverðasta hlutskipti manns, sem hægt er að hugsa sér á næstu misserum? Til hvers ætti ég líka að sækjast eftir því, úr því að mál hafa skipast á þann veg sem ég tel affarasælast fyrir SF, án þess ég þurfi að hafa af því frekari afskipti?

“Svona er lífið á stundum lunkinn iðjuþjálfari,” sagði meistari Benjamín (Eiríksson) forðum dag. “Stenst á hvað vinnst og hvað tapast,” sagði Steingrímur Thorst. En ætli Osborne hafi ekki reynst gagnorðastur um þessa sömu hugsun, þegar hann sagði einfaldlega: “Looser wins.”