“ÓÐUR TIL ÚTLAGANS”

Hvað á að gera þegar maður snýr að lokum aftur heim að nálgast fertugt, staurblankur, atvinnulaus og fráskilinn, án þess að hafa fengið nokkuð sem heitið getur gefið út og manns nánustu ýmist elliærir eða dauðir? Maður byrjar að skrifa. Og smám saman finnur maður aftur sjálfan sig og fer að yrkja ljóð og mála myndir í tungumálið af þessum gömlu íslensku innflytjendum, frændum og frænkum, sem mann fram af manni geymdu heimalandið í hjartastað, þótt örlögin hefðu sent þau forsendingu í þetta framandlega pláss ái sléttunni í miðpunkti Ameríku þar sem er jafnlangt en svo óralangt til beggja stranda.

Svona byrjaði rithöfundarferill Bills Holm sem var mestur rithöfundur íslenskur á enska tungu um okkar daga. Bill var ljóðskaldið sem skrifaði svo magnaðan prósa að hann vakti hina dauðu til lífsins. Mannlífslýsingar dregnar fáum sterkum dráttum vekja til lífsins persónur sem gætu borið uppi nýjar Íslendingasögur. Sagan af konunni sem ól önn fyrir öllum hinum í þorpinu, hjúkraði hinum sjúku, annaðist hina öldruðu í einsemd þeirra og fóstraði ungviðið, sagan sú er af þessu taginu. Þegar hún svo féll frá eftir fórnfúst starf og langa ævi kom á daginn að þessi kona las heimsbókmenntir á fjórum eða fimm tungumálum og spilaði músík sem var ættuð úr konsertsölum heimsborganna og hafði aldrei heyrst í endalausri flatneskju lággróðursins á gresjunni.

Eða sagan af smiðnum sem allt lék í höndunum á og stóð fyrir öllum mannvirkjum í þorpinu og nærliggjandi byggðarlögum en hvarf alltaf sporlaust þrjá mánuði á hverjum vetri og enginn vissi hvert hann fór. En þegar hann birtist aftur á brautarpallinum, nýstiginn út úr lestinni þá hafði hann í eftirdragi níðþunga kistu fulla af heimsbókmenntum sem héldu honum gangandi við smíðarnar þangað til hann lét sig hverfa á ný. Það var svo best varðveitta leyndarmálið í plássinu og varð ekki uppljóstrað fyrr en bæði voru horfin á vit forfeðranna að þau tvö höfðu löngum skipst á bréfum sem voru bókmenntir út af fyrir sig. En ef leiðir þeirra lágu saman á götu lyfti hann hattinum kurteislega og hún gaf honum kannski auga á laun. Annað og meira var það nú ekki hversdagslega.

Skáldskapur Bills, ljóð, smásögur, skáldsögur, esseyjur, ádrepur, gagnrýni, hugvekjur – allt bar þetta höfundareinkenni hans. Hann var harður á ytra borð en funheitur hið innra. Sumsé eldur og ís. Það gátu brotist út meiriháttar eldgos og háskalegar jarðhræringar. Inn á milli lúrði eldfjallið og þóttist vera hættulaust. Og þá greri allt upp í idylliskri rómantík. Kannski áttaði ég mig aldrei á því til fulls hvað tónlistin var djúpur undirtónn í lífi hans og list. Hvar sem hann fór voru gömlu meistararnir alltaf við höndina. Bach var honum sálufélagi. Kannski var hann líka undirtónninn í þessum skáldlega prósa.

Bill var sem sé Vesturíslendingurinn, ferðalangur í framandi umhverfi í leit að uppruna sínum. Hann var rammur Íslendingur í útliti og að innræti; hið innra og hið ytra. Tröll að vexti með þrumuraust og ógnvekjandi, þegar sá gállinn var á honum að segja undirsátum Mammons til syndanna með særingum sem dugðu til að kviksetja allt sem var falskt og rotið. Garrison Keillor kallaði hann hávaxnasta húmorista Miðvestursins, sannleiksvitni og róttækan eldhuga fram í fingurgóma. Orð að sönnu.

Hann var að búa sig undir það að flytja heim. Hann hafði fullvissað sig um það að Skagafjörðurinn væri best hannaði fjörður Íslands út frá víðáttu, birtu og búsæld. Úr stofuglugganum að Brimnesi, gamalli verðbúð við fjöruborðið á Hofsósi blasti við víðátta norðursins og skuggamyndir Drangeyjar og Málmeyjar í forgrunni. Þetta kallaði hann “milliondollarview” upp á amrísku og hló rosalega. Þarna sat hann og horfði út og hugsaði djúpt og orti þannig að allt sem lífsanda dró hreifst með og hinir dauðu vöknuðu aftur til lífsins. Nú verða allar þessar stórfenglegu sinfóníur orðlistarinnar ósamdar. Svona verður Íslands óhamingju allt að vopni þessi misserin. En þótt við söknum hans sárlega, munum við ætíð minnast hans með gleði.