Eftir stóryrðin fór það hins vegar fram hjá flestum að Rogoff taldi öðru máli gegna, ef Ísland hefði verið í Evrópusambandinu og evrusamstarfinu um skeið. Það staðfestir að prófessornum er, þrátt fyrir allt, ekki alls varnað. Rogoff var tíðrætt um að heimskreppan, sem átti uppruna sinn í frjálshyggjutilrauninni amerísku, væri að breiðast út um heiminn og að aðildaríki Evrópusambandsins hefðu ekki farið varhluta af því. Hins vegar hefur láðst að upplýsa manninn um það, að af þeim 30 þjóðum, sem aðild eiga að evrópska efnahagssvæðinu (27+3) , er aðeins ein, sem lent hefur í kerfishruni. Þar fer saman allt í senn: Hrun gjaldmiðilsins, hrun fjámálakerfisins og stjórnmálakreppa, sem sumir segja að nálgist að vera stjórnkerfiskreppa. Þetta land er Ísland.
Án þess að gera sig sekan um að vilja telja hrekklausu fólki trú um að Evrópusambandsaðild með evru sé pólitísk allrameinabót er engu að síður óhjákvæmilegt, í þessu samhengi, að benda á, að hefði Ísland verið aðili að Evrópusambandinu og evrusvæðinu, einhvern tíma á tímabilinu frá einkavæðingu banka fram að hruni – þá væri ólíkt umhorfs í íslensku þjóðfélagi hjá því sem er í dag. Lítið á eftirfarandi staðreyndir:
- Evran hefði haldið velli. Það hefði ekki orðið gengishrun.
- Erlendar skuldir fyrirtækja og heimila hefðu þ.a.l. ekki tvöfaldast.
- 70% fyrirtækja væru þá ekki “tæknilega gjaldþrota.”
- Verðbólga væri þá ekki í tveggja stafa tölu og stýrivextir væru ekki 18%. Vextir færu þá reyndar hraðlækkandi eins og annars staðar á evrusvæðinu.
- Með upptöku evru væri verðtrygging aflögð.
- Íslensk heimili stæðu þá ekki frammi fyrir hótun um eignamissi vegna gengis- og verðtryggðra skulda.
- Íslensku bankarnir hefðu þá verið starfandi á einu stærsta myntsvæði heimsins . Þeir hefðu átt sín viðskipti í evrum og íslenski seðlabankinn verið hluti af seðlabanka Evrópu sem lánveitanda til þrautavara.
- Vel má vera að einstakar fjármálastofnanir hefðu þurft á aðstoð að halda en ástæðulaust er að ætla að fjármálakerfi þjóðarinnar í heild hefði hrunið.
- Skuldabyrði ríkissjóðs hefði áreiðanlega verið léttvægari en nú er orðið.
- Þrátt fyrir erfiðleika hefði ríkissjóður ekki staðið frammi fyrir nauðsyn niðurskurðar á velferðarútgjöldum inn að beini og verulegum skattahækkunum á næstu árum.
Það er nokkuð kaldranalegt hjá frjálshyggjuhagfræðingnum að vara okkur Íslendinga við slysum þar sem við liggjum nú í sárum okkar á slysstaðnum og getum okkur enga björg veitt, án aðstoðar erlendra hjálparstofnana. Þótt Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn reyni nú hjálp í viðlögum, getur hann hvorki leyst skuldavandann né gjaldmiðilsskortinn. Hvorugt þessara vandamála verða leyst án samninga við Evrópusambandið og aðildarríki þess um greiðlsukjör á skuldum og upptöku gjaldmiðils, sem unnt er að treysta í milliríkjaviðskiptum.
Fyrir fáum árum gaf aðsópsmesti talsmaður frjálshyggjutrúboðsins hér á landi út bók um það, hvernig Íslendingar gætu orðið ríkasta þjóð í heimi, ef þeir aðeins féllu fram og tilbæðu Guð markaðarins (Upplag þessarar bókar fæst nú á brunaútsölu á bókamarkaðnum í Perlunni). Aðferðin átti að vera sú að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð. Það tókst að nokkru leyti – með þeim fyrirvara þó að fjármálamiðstöðin heitir Tortola og er í Karabíska hafinu. Þar geigaði nokkru.
Michael Lewis hjá Vanity Fair er sýnilega betur upplýstur en Harvard prófessorinn um stöðu mála á Íslandi. Hann veit sem er að það var einmitt þessi frjálshyggjutilraun með Ísland sem kom því á vonarvöl. Uppbyggingarstarfið sem framundan er getur því aðeins tekist að Íslendingar gerist aðilar að myntsvæði sem getur staðið af sér sjálfsmorðsárásir frjálshyggjukapitalismans.
Írski forsætisráðherrann, Brian Cowen, skilur þetta að fenginni reynslu. Það var margt sameiginlegt með Írlandi og Íslandi í uppsveiflunni: Ör hagvöxtur, innstreymi erlends fjármagns, vöxtur fjármálastofnana, eignaverðbóga og fasteignabóla. Einstaka fjármálastofnanir riða til falls. Írar standa nú frammi fyrir samdrætti í efnahagslífinu og vaxandi atvinnuleysi. Allt er þetta kunnuglegt. En öfugt við Ísland er Írland ekki hrunið. “Serious – but not fatal,” alvarlegt en ekki banvænt er lýsingin á ástandinu í leiðara Irish Times. Eða hvað sagði írski forsætisráðherrann aftur: “Guði sé lof að við Írar erum í Evrópusambandinu og höfum evruna að gjaldmiðli. Ella væri trúlega jafnhörmulega fyrir okkur komið og Íslandi.”