ÓJAFNAÐARFÉLAGIÐ

Árið 1997 fengu tveir amerískir nýfrjálshyggjupostular, Scholes, og Merton, Nóbelsverðlaunin í hagfræði. Það var í viðurkenningarskyni fyrir að hafa leyst “umboðsmannsvandann.” Þeir fundu ráð til að draga úr þeirri áhættu hlutafjáreigenda sem í því felst að fela forstjórum – eins konar embættismönnum – ávöxtun fjármuna sinna.

Fídusinn var í því fólginn að árangurstengja umbun forstjóranna. Forstjóranum bar samkvæmt kenningunni að stjórna með eitt að markmiði: Að viðhalda og hækka verðgildi hlutabréfa. Til þess að halda forstjórunum við efnið þótti rétt að beintengja umbun þeirra við hlutabréfavísitöluna í kauphöllinni.

Þar með hófst mikil gullöld með kaupaukum og bónusum og mörghundruðföldum launamun eða lystaukandi starfslokasamningum ella. Þetta breytti hversdagslegri iðju endurskoðandans í skapandi listgrein sem snerist um að hagræða og fegra afkomuna til að auka tiltrúna í kauphöllinni. Allt varð leyfilegt í þessum leik til að þjóna hinu háleita markmiði: Innherjabræðralag, sýndarviskipti og endalaus viðskiptavild. Nýtt blómaskeið bófakapitalismans var hafið á traustum fræðilegum grundvelli.

Að vísu höfðu þeir Scholes og Merton varla fyrr tekið við Nóbelsverðlaunum sínum en Asíukreppan skall á og kollvarpaði gervivísindunum á einni nóttu. Af einhverjum ástæðum fórst þó fyrir að afturkalla Nóbelsverðlaunin. Flestum ber síðan saman um að rökrétt niðurstaða þessarar fræðigreinar hafi birst heiminum í uppgangi og falli einhvers mesta sýndarviðskiptarisa heimskapitalismans sem að lokum helgaði sér sérstakan kafla í heimsögunni undir heitinu: ENRON.

Íslenskir sjónvarpsáhorfendur nutu þess nú í skammdeginu að mega líta inn í hugarheim fjárplógsmannanna sem voru söguhetjurnar í því skammæja ævintýri. Og hvað sáu þeir? Þeir sáu spegilmynd íslensks samfélags á tímabilinu frá einkavæðingu banka upp úr aldamótum fram að hruninu í október 2008. Það var þjoðfélag í anda nýfrjálshyggjunnar. Það var skrípamynd hins ameríska kapitalisma. Það var ójafnaðarþjóðfélagið sem er hin rökrétta niðurstaða af þjóðfélagssýn frjálshyggjutrúboðanna.

Eitt helsta einkenni nýfrjálshyggjunnar í praksís er sívaxandi ójöfnuður milli ríkra og fátækra, innan þróaðra þjóðfélaga og milli ríkra og fátækra þjóðfélaga á heimsvísu. Samkvæmt lögmáli markaðarins safnast auðurinn sífellt á æ færri hendur. Í heimi þar sem gróði eignarhaldsfélaga hinna ofurríku leynist eins og faldir fjársjóðir á eyðieyjum er talnaefni, sem tíundar ójöfnuðinn á raunsæjan hátt vafalaust mjög áfátt. En tökum dæmi af Bandaríkjunum – háborg kapítalismans – frá valdatöku Reagans fram í seinna kjörtímabil Bush junior.

FYRIRMYNDIN OG SKRÍPAMYNDIN

Á þessu tímabili (1980-2006) jukust framtaldar tekjur þeirra sem tilheyra topptíund þjóðfélagsstigans úr 34% í 46% heildartekna. Hlutdeild þeirra í þjóðartekjunum jókst um 1/3. En það segir ekki alla söguna. Því sem næst allur tekjuauki þeirra, sem tilheyra topptíundinni, kom í hlut hinna ofurríku. Hinir ofurríku eru innan við 1% framteljenda. Og þegar betur er að gáð eru það þessir ofurrík, sem tilheyra 1% framteljenda, sem eiga bróðurpart auðsins: í þeirra hlut kemur 62% af öllum útgreiddum arði; 51% af verðmæti hlutabréfaeignar; og 70% af öllum auði í formi skulda- og verðbréfa.

Það var á þessu tímabili sem launamunur innan bandarískra stórfyrirtækja náði því að verða einn á móti 460. Íslendingar nálguðust fyrirmyndina að vísu með ógnarhraða. Einu sinni ofbauð Stefáni Jónssyni, föður ofur-Kára, að launamunur á Íslandi taldist vera orðinn einn á móti sex. Stefán, sem var um skeið þingmaður Alþýðubandalagsins, flutti tillögu um að lögbinda launamuninn einn á móti þremur (1:3), jafnt á sjó og landi. Ári fyrir hrun telst launamunur á Íslandi hafa náð 1 á móti 360. Árangurstengt,vitaskuld!

Dr. Stefán Ólafsson, prófessor, hefur öðrum fremur rannsakað tekjudreifinguna hér á landi á undanförnum frjálshyggjuáratug. Í fyrirlestri, sem hann flutti þann 5. mars s.l. komu fram eftirfarandi upplýsingar: Árið 1993 hafði tekjuhæsta 1% íslenskra hjóna 4.2% af heildartekjum allra hjóna. Þetta hlutfall var orðið 19.8% árið 2007. Ríkustu tíu prosentin fóru úr því að hafa rúm 20% samanlagðra heildartekna allra, í að hafa tæp 40% þeirra. Á sama tíma hafa því allir aðrir, hin 90%, farið úr því að hafa 78.2% af heildartekjunum í að hafa 60.6%.

Ríkasta prósentið (hjón) hafði á árinu 2007 að jafnaði 18.2 milljónir í tekjur á mánuði. Þetta eru 615 fjölskyldur Það voru því ekki bara 30 óligarkar sem skömmtuðu sér ofurlaun hér á landi á árunum fyrir hrun. Ályktunarorð Stefáns Ólafsson af talnaefninu, sem hann kynnti í fyrirlestrum sínum voru, “að á Íslandi væri að finna einhverja róttækustu frjálshyggjumenn Vesturheims.” Á sama fundi kom það fram í máli Indriða H. Þorlákssonar, fv. ríkisskattstjóra, að “tekjujafnaðndi áhrif skattkerfisins hafi líka minnkað um næstum ¾ hluta síðan árið 1993.

GJAFAKVÓTINN

Eftir á að hyggja ber flestum saman um að ójafnaðarþjóðfélagið íslenska eigi rætur að rekja til gjafakvótakerfisins og þeirra aðferða sem beitt var við einkavæðingu bankanna. Fyrst um gjafakvótann. Kvótakerfinu var upphaflega komið á af illri nauðsyn til þess að hamla ofveiði og draga úr sókn í ofnýtta fiskistofna. Þar með tók ríkið að sér að stýra sókn í nafni vísindalegrar verndar fiskistofna.

Ríkið úthlutar veiðiheimildum. Það leyfir sumum en bannar um leið öðrum. Þar með er ríkið orðið skömmtunarraðili mikilla verðmæta. Tilkoma kvótakerfisins olli í upphafi miklum deilum. Við jafnaðarmenn vildum frá upphafi að veiðiheimildirnar yrðu annað hvort boðnar upp eða að þeir, sem fengu nýtingarrétt á auðlindinni, greiddu fyrir auðlindagjald. Við vorum í algerum minnihluta.

Við náðum samt að lögfesta það í 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna að fiskistofnarnir voru lýstir sameign þjóðarinnar. Þegar meirihluti alþingis lögfesti framsal veiðiheimilda, náðum við því fram, að síðari tíma breytingar á úthlutun veiðiheimilda, muni aldrei baka ríkinu skaðabóðaskyldu. Með þessu þóttumst við hafa tryggt að tímabundinn afnotaréttur kvótahafa gæti ekki , með hefðarrétti, unnið sér sess sem fullgildur eignaréttur. Einnig að nýr þingmeirihluti gæti hvenær sem er, afturkallað veiðiheimildirnar og krafist gjaldtöku fyrir þær.

Þetta mál hefur aldrei verið til lykta leitt. Það er skýrt dæmi um siðlausa stjórnsýslu. Það er með ólíkindum að stjórnsýsla, sem snýst um nýtingu helstu auðlinda þjóðarinnar, skuli brjóta grundvallarreglur sjálfrar stjórnskipunarinnar, sjálfa jafnræðisregluna – um að allir menn skuli jafnir fyrir lögunum – og þá grein stjórnaskrárinnar, sem kveður á um atvinnufrelsi manna. Gjafakvótakerfið gat hugsanlega staðist skamma hríð á grundvelli neyðarréttar. En það kann ekki góðri lukku að stýra að skömmtunarkerfi af þessu tagi, sem byggir á pólitískri hyglingu á gríðarlegum verðmætum, skuli vera leyft að eitra út frá sér áratugum saman. Gríðarlegir fjármunir hafa verið sogaðir út úr sjávarútveginum í krafti þessa kerfis. Þannig urðu fyrstu ólígarkarnir til á Íslandi, rétt eins og í Rússlandi, í skjóli pólitískrar spillingar.

AÐ RÆNA BANKA

Um einkavæðingu banka er svipaða sögu að segja: Upphafleg áform um dreifða eignaraðild og aðkomu erlendra banka til að tryggja samkeppni, voru látin lönd og leið. Í staðinn var einkavæðing ríkisbankanna framkvæmd samkvæmt venjuhelgaðri hemingaskiptareglu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks: Einn handa mér, annan handa þér. Bréf Steingríms Ara Arasonar, þar sem hann segir sig úr einkavæðingarnefnd í andmælaskyni við pólitíska forræðishyggju af þessu tagi, er sögulegt skjal. Það segir allt sem segja þarf um þetta mál.

Það sem á eftir fór er sorgarsaga íslenska lýðveldisins. Samkeppni hinna einkavæddu banka um markaðshlutdeild á heimamarkaði breyttist brátt í samkeppni um erlenda lánsfjáröflun á lágum vöxtum. Brátt breyttust bankarnir úr viðskiptabönkum í vogunarsjóði, sem steyptu sér í erlendar skuldir. Það var fullkomlega ábyrgðarlaust, í ljósi þess að innlendur seðlabanki var ófær um að vera lánveitandi til þrautavara í erlendum gjaldeyri.

Það tók útrásarvíkingana aðeins sex ár að steypa hinum einkavæddu bönkum fyrir björg og að draga íslenska lýðveldið með sér í fallinu. Grundvallarspurningum um aðgerðaleysi ríkisstjórna og eftirlitsstofnana er enn í dag ósvarað. Voru þetta mistök, það er að segja vanhæfni og kunnáttuleysi? Eða voru þeir menn sem hlut áttu að máli slegnir blindu galinnar hugmyndafræði, sem kenndi þeim að þeir væru á réttri leið. Allt væri eins og vera bar í útópíu frjálshyggjunnar.

Í handbók um fjáramálafræði segir á einum stað að besta leiðin til að ræna banka sé að eiga banka. Eftir hrun hefur komið á daginn, að einn ólígarkanna og fyrirtæki honum tengd hlóðu upp skuldum sem námu 900 milljörðum króna. Það eru um 10% af erlendum skuldum bankanna. Íslensk heimili eru sem kunnugt hin skuldugustu í heiminum. Samt nema allar erlendar skuldir þeirra ekki nema e 1.6% af skuldum bankanna.

LÁGSKATTALANDIÐ

Öll þau fjármálatrikk, sem að lokum urðu ENRON að falli virðast hafa verið leikin hér með tilþrifum. Ólígarkarnir notuðu eignarhald sitt á bönkum til þess að lána sjálfum sér í sýndarviðskiptum til að halda uppi hlutabréfaverði. Eignarhald var falið eftir kúnstarinnar reglum og skattaskjól fundin á aflandseyjum. Það er sérstakt umhugsunarefni, að ríkisstjórnir á þessum tíma höfðu fylgt boðorðunum um að lækka skatta á fyrirtæki og fjármagnseigendur, af því að það var talið örva fjárfestingar, atvinnusköpun og hagvöxt. Ísland var lágskattaland. En lágir skattar virðast ekki duga til að koma í veg fyrir fjárflótta úr landi til að forða hinum nýríku frá skattskyldu. Það stoðar lítt að álasa þessum mönnum fyrir skort á þegnskap – jafnvel drengskap.Geymum því ekki að frjálshyggjan er í eðli sínu siðblind. Allt er réttlætanlegt í nafni gróðavonarinnar.

Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri tók saman skýrslu fyrir um fimm árum síðan um lög og reglur í grannlöndum okkar, þ.m.t. í Bandaríkjunum, sem kváðu á um upplýsingaskyldu móðurfélaga og fyrirtækjasamstæða um fjárstýringu utan lögsögu heimalandsins. Upplýsingaskylda af þessu tagi er frumforsenda þess að menn komist ekki svo hæglega upp með skattundandrátt í krafti falinna fjársjóða, utan við lög og rétt. Hefði íslensk löggjöf verið færð til samræmis við löggjöf grannlandanna, hefðu bankarnir ekki komist upp með það að gera það að sérgrein sinni að aðstoða ólígarkana við fjárflóttann.

Það er sem sé upplýst að forsætis- og fjármálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins voru jafnvel katólskari en páfinn – bandaríski fjármálaráðherrann – í að framfylgja boðorðum nýfrjálshyggjunnar um að öll afskipti ríkisins af hinum frjálsa markaði væri af hinu vonda. Ályktunin er sú að þetta voru ekki mistök. Þetta var yfirlýst stefna í framkvæmd.