Pólitík og pottormabylting: Frumsýning í sjónvarpssal

Hvernig á að byggja upp úr rústunum? Hvernig á að koma hjólum atvinnulífsins í swing? Hvernig verða til störf? Hvernig á að bjarga þeim heimilum sem sjá ekki út úr skuldum og eru að missa húsnæðið? Hverjir eiga í þessu ástandi að borga skattana sem þarf að innheimta til að greiða niður skuldirnar? Ráðum við við þetta ein? Eða þurfum við að semja við grannþjóðir okkar og lánardrottna um tímabundna aðstoð meðan við erum að klóra okkur upp úr skuldafeninu? Er ESB partur af lausninni? Hvað getur komið í staðinn fyrir krónuna, sem er farin að sökkva aftur, þótt hún sé bundin við bryggju?

Þetta voru spurningarnar sem málsvarar “gömlu flokkanna” fimm og tveggja nýrra framboða, áttu að svara kjósendum, skýrt og skilmerkilega, á frumsýningu kosningabaráttunnar í ríkissjónvarpinu eftir fréttir í gærkvöldi (3. apríl). Áður en uppfærslan hófst var sýnd heimildarmynd úr fórum fréttastofu um lífsreynslusögu nýríkra spraðurbassa sem brutu fjöregg þjóðar sinnar í vímukasti í spilavíti og skildu við allt í rjúkandi rúst. 17.000 atvinnuleysingjar og 3 til 4.000 einstaklingar af yngri kynslóðinni í leit að nýjum samastað í tilverunni; nýju athvarfi, nýju gistilandi, nýju föðurlandi, kannski?

Fengu þau, sem “áhyggjum og þunga eru hlaðin” meðal þjóðarinnar skýr svör við þessum spurningum? Var einhver, sem hélt þannig á sínu máli, að þeir sem kvíða morgundeginum hafi fengið á honum eða henni traust? Þótt ekki væri nema vegna þess, að hann eða hún væri í jarðsambandi við veruleikann; skildi raunir okkar og talaði til okkar með þeim hætti að við tryðum því að hann eða hún væri að reyna sitt besta? Meira er ekki hægt að fara fram á, er það?

Lífsreynsla eða leikaraskapur?

Það er fljótsagt að hinn þrautreyndi formaður Vinstri grænna, bóndasonurinn úr Þistilfirði, Steingrímur J. Sigfússon, bar af hópnum. Þegar ættarlaukur Engeyjarættarinnar og nýkrýndur formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, vildi slá sig til riddara með því að Sjálfstæðisflokkurinn stæði gegn öllum nýjum sköttum (en vildi um leið draga 20 þúsund störf upp úr hatti sínum), fór Steingrímur létt með það að setja hann á sinn stað: “To put him in his place,” eins og það heitir í Hollywoodmyndinni.

Hvernig verða störf til, spurði Steingrímur? Upp úr hatti stjórnmálamanna eða fyrir framtak fólks? Hann nefndi ferðaþjónustuna sem dæmi, sem nú er fullbókuð af því að okurlandið Ísland, er allt í einu orðið hræbillegt eftir gengishrunið. Álver, sagði Bjarni. Það er heimskreppa, sagði Steingrímur og benti á þá staðreynd að það verða engar fjárfestingar í nýjum álverum á næstunni, enda álverð fallandi og eftirspurn þverrandi.

Frjálshyggjudrengurinn vildi bjóða upp á töfralausnir pólitíkussins en hinn lífsreyndi sósíalisti skírskotaði til lögmála markaðarins. Skondið. Og þegar maðurinn með silfurskeiðina, arftaki Engeyjarættarinnar, sór fyrir nýja skatta, benti Steingrímur honum kurteislega á að það væri óheiðarlegt að saka þá um skattaáráttu, sem væru að hreinsa upp þrotabú Sjálfstæðisflokksins. Steingrímur minnti á að Sjálfstæðisflokkurinn lækkaði að vísu skatta á fjármagnseigendur og hina ofurríku, en hækkaði þá á láglaunafólk og millistétt. Og Jóhanna minnti á að þeir sjálfstæðismenn hefðu stungið undir stól skýrslu Indriða um það, hvernig hefði mátt krefja skattsvikarana á Tortola um framtöl, sem hefði e.t.v. gert þeim erfiðara fyrir með undandráttinn.

Merkilegt nokk þá var helsti veikleikinn í málflutningi þeirra oddvita vinstristjórnarinnar, Jóhönnu og Steingríms, að hvorugu tókst að gera skilmerkilega grein fyrir hvernig 18 punkta aðgerðapakki þeirra gæti raunverulega leyst lífsháska þeirra fjölskyldna, sem eru sokknar í skuldir og eru að missa þakið ofan af höfðinu. Það þýðir ekki að vísa fólki í lífsháska á ráðgjafarkontóra með biðlista upp á marga mánuði. Hvorki Jóhanna né Steigrímur Jóhann gátu svarað réttmætri gagnrýni Þóris Saari frá Borgarahreyfingunni á ófyrirséðar afleiðingar verðtryggingarkerfisins eftir hrun gjaldmiðilsins.

Hvers vegna á almenningur á Íslandi að borga með eignamissi fyrir stöðutöku eigenda bankanna og handbenda þeirra gegn krónunni, sem að lokum leiddi til gengishruns og allt að því tvöföldunar á skuldastöðu heimila og fyrirtækja? Þetta gerðist á vakt heilagrar Jóhönnu í Félagsmálaráðuneytinu. Hún átti fyrir löngu að vera komin með trúverðugar lausnir. Þeir sem bjuggust við því að fá haldbær svör frá Jóhönnu um lausnir á þessu neyðarástandi urðu fyrir vonbrigðum.

“Sætir strákar”

Hafi menn búist við því að fulltrúar ungu kynslóðarinnar, nýkjörnir formenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, myndu sýna það og sanna að þarna færu fulltrúar “best menntuðu” kynslóðar Íslandssögunnar, þá hljóta þeir hinir sömu að hafa orðið fyrir sárum vonbrigðum. Þetta eru sætir strákar, það vantar ekki. Ég veit hins vegar ekkert niðangurslegra hnjóðsyrði um karlmenn í blóma lífs en að vera “sætur strákur.” Hvar er framtíðarsýn þessara pólitísku unglinga fyrir hönd þjóðar sinnar, sem stödd er í lífsháska? Báðir voru eins og pólitískir flóttamenn frá stærsta verkefni samtímans, sem er að leiða þjóðina út úr ógöngum til samstarfs á jafnréttisgrundvelli við grannþjóðir okkar.

Hvernig eigum við að leysa gjaldmiðilsvandann? Við hverja eigum við að semja um kjör á skuldasúpunni, sem hinir ungu ofurhugar útrásarinnar skildu þjóðina eftir með? Hinn nýkjörni formaður Sjálfstæðisflokksins skilar auðu í stærsta máli samtímans og dæmir þar með flokk sinn úr leik þegar kemur að alvörulausnum. Sigmundur Davíð, formaður Framsóknarflokksins, hefur betra vegarnesti, en fer með það í felur og þorir ekki að berjast fyrir sannfæringu sinni. Hvers á þessi þjóð að gjalda ef ármenn hinnar ungu kynslóðar eru jafnþröngsýnir og ákvarðanafælnir og liðið, sem þeir leystu af hólmi, og brást á vaktinni?

Það ber að viðurkenna að skipstjórinn að vestan, Guðjón Arnar, heyr sitt pólitíska dauðastríð af karlmennsku eins og hann á kyn til. Það sem hann hefur til málanna að leggja er yfirleitt jákvætt og byggt á raunsæi, nema þegar hann fer með fáránlega rullu um Evrópusambandið, sem einhver honum verri hefur lagt honum til. Svipaða sögu er að segja af Þóri Saari. Pottormabyltingin kom einni vanhæfri ríkisstjórn fyrir kattarnef. Fyrir það stendur þjóðin í þakkarskuld við hana. En Borgarahreyfingin virðist vera of seint fram komin til þess að talsmenn hennar nái að vinna trúnað almennings á hinum pólitíska uppboðsmarkaði fyrir þessar kosningar. Það er eiginlega synd og skömm. Ástþór Magnússon mundi gera sjálfum sér og þjóðinni greiða, ef hann færi aftur að fljúga.

(Höfundur hefur háð kosningabaráttu í 11 skipti á 43ja ára tímabili)